Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.
Jóhannes Eðvaldsson var síðastur þriggja knattspyrnumanna sem fengu þetta sæmdarheiti á árunum 1973–75. Frábær frammistaða hans með landsliðinu, einkum í frægum sigurleik gegn Austur-Þjóðverjum, og með Glasgow Celtic varð til þess aðhann fékk þessa viðurkenningu fyrir árið 1975.
Jóhannes er fæddur í Reykjavík árið 1950 og ólst þar upp. Í barnæsku var hann að mestu með annan fótinn á Melavellinum þar sem faðir hans starfaði sem nuddari. Hann fór í kjölfarið að æfa knattspyrnu og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Val, en hann lék einnig körfuknattleik með Haukum á veturna. Vakti frammistaða hans með Valsliðinu snemma mikla athygli enda þótti hann bæði útsjónarsamur og gríðarlega sterkur í loftinu. Jóhannes spilaði mest sem miðvörður en einnig á miðjunni og skapaði ófá mörkin þegar hann sótti fram – og skoraði einnig töluvert sjálfur, sérstaklega í aukaspyrnum og hornspyrnum. Árið 1970 var hann búinn að vinna sér fast sæti í Valsliðinu. Gengi liðsins var misjafnt á þessum árum, til að mynda var liðið nálægt falli árið 1972 en ári síðar tók það þátt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, sem síðan tapaðist fyrir Keflvíkingum.
Árið 1974 átti Jóhannes frábært tímabil með Val og var meðal annars útnefndur leikmaður Íslandsmótsins það ár af Morgunblaðinu. Þá varð hann bikarmeistari með Val. Þetta ár fóru að berast fregnir af því að erlend lið væru að fylgjast með honum, meðal annars lið í Frakklandi, Austurríki og Hollandi.
Færa má rök fyrir því að árið 1975, árið sem hann er kjörinn íþróttamaður ársins, hafi verið besta ár Jóhannesar. Hann hélt til Danmerkur í byrjun ársins og hóf þar nám í sjúkranuddi, auk þess sem hann gekk til liðs við danska 1. deildarliðið Holbæk. Þar fékk hann fljótlega viðurnefnið „hvalbáturinn“ þar sem hann þótti bæði skotfastur og skotviss. Hann sló í gegn í fyrstu leikjum sínum með liðinu og vakti mikla athygli danskra fjölmiðla. Í júní fór að fréttast af áhuga skoska liðsins Glasgow Celtic og hollenska liðsins Go Ahead Eagles. Jóhannes gekk til liðs við Skotana í ágúst og gerði við þá þriggja ára samning. Hann varð þar með sjötti Íslendingurinn til að gerast atvinnumaður í knattspyrnu, og með þeim fyrstu sem Celtic keypti utan Skotlands. Hann byrjaði gríðarlega vel með liðinu og skoraði meðal annars þrjú mörk í fjórum fyrstu leikjum sínum með liðinu þrátt fyrir að leika sem miðvörður. Frammistaða hans með íslenska landsliðinu var ekki síðri en þar bar hæst 2-1 sigurleik gegn Austur-Þjóðverjum á Laugardalsvellinum, þar sem Jóhannes skoraði fyrra markið með glæsilegri hjólhestaspyrnu. Jóhannes varð fljótt gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna Celtic og var meðal annars stofnaður sérstakur aðdáendaklúbbur tileinkaður honum.
Jóhannes lék með Glasgow Celtic í fimm ár og var meðal annars kjölfesta í liðinu sem vann tvöfalt tímabilið 1977–78. Hann lék alls 188 leiki fyrir Celtic og skoraði 36 mörk. Hann varð tvisvar deildarmeistari og tvisvar bikarmeistari með félaginu.
Í febrúar 1980 söðlaði Jóhannes um og fór til Bandaríkjanna þar sem hann gekk til liðs við Tulsa Roughnecks. Þá hafði hann lent í deilum við Celtic og misst sæti sitt í liðinu um tíma, þannig að það var eðlilegt framhald að róa á ný mið. Í bandaríska félaginu léku fleiri menn sem höfðu gert það gott á Bretlandseyjum. Jóhannes lék með félaginu í tæp tvö ár við góðan orðstír en hugur hans stefndi alltaf aftur til Evrópu og í árslok 1981 gekk hann til liðs við þýska 2. deildarliðið Hannover. Þar var hann í eitt ár en hélt þá aftur til Skotlands, nú til Motherwell. Liðið var lengst af í botnbaráttu efstu deildar en Jóhannes stóð jafnan fyrir sínu. Hann lék með liðinu í tvö ár en ákvað árið 1984 að flytjast heim árið eftir. Hann gerði tveggja ára samning um að þjálfa Þrótt en hætti með liðið í ágúst 1985 vegna slaks árangurs liðsins. Hann flutti þá aftur til Glasgow og opnaði þar íþróttavöruverslun. Hann hefur síðan verið búsettur í Skotlandi, fyrir utan smátíma þegar hann flutti heim 1996 og tók að sér framkvæmdastjórastarf knattspyrnudeildar Reynis í Sandgerði.
Jóhannes þótti öflugur leikmaður. Hann var bæði góður spilari og útsjónarsamur en jafnframt sterkur í loftinu. Hann var einnig liðtækur fram á við, lagði upp mörg mörk og skoraði einnig mikið sjálfur, einkum úr aukaspyrnum og hornspyrnum, enda unnu fáir Jóhannes í skallaeinvígi. Hann var einnig mikill leiðtogi á velli og hvatti liðsfélaga sína óspart áfram.
Árangur Jóhannesar 1975:
24. janúar: Jóhannes upplýsir í Morgunblaðinu að hann sé á leið til danska 1. deildarliðsins Holbæk þar sem hann muni leika meðfram námi í sjúkranuddi. Hann heldur til Danmerkur rúmri viku síðar en má ekki leika með félaginu fyrr en 1. maí. Skoska félagið Morton hafði einnig sýnt Jóhannesi áhuga sem reyndist ekki vera gagnkvæmur.
16. febrúar: Jóhannes skorar þrennu fyrir Holbæk í 4-1 sigri á sænska liðinu Halmstad í æfingaleik.
3. maí: Jóhannes skorar í sínum fyrsta deildarleik með Holbæk með glæsilegum skalla. Liðið tapar 4-2 fyrir meisturunum úr KB.
9. maí: Jóhannes leikur með Holbæk í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar en lið hans tapar fyrir Vejle 0-1.
25. maí: Jóhannes er fyrirliði landsliðsins sem gerir markalaust jafntefli við Frakka á Laugardalsvellinum. Íslendingar leika vel og eru óheppnir að sigra ekki í leiknum.
5. júní: Jóhannes á stórleik og skorar fyrra mark Íslendinga með hjólhestaspyrnu í ógleymanlegum sigri á Austur-Þjóðverjum, 2-1. Þessi sigur er enn einn sá fræknasti sem íslenskt knattspyrnulandslið hefur unnið.
19. júní: Fréttir birtast af áhuga Glasgow Celtic á Jóhannesi. Útsendari frá félaginu hafi verið í sambandi bæði við KSÍ og Holbæk.
21. júní: Jóhannes á stórleik með Holbæk í 2-1 sigri liðsins í deildarleik gegn Esbjerg. Jóhannes á stærstan þátt í sigurmarkinu og dönsk blöð lofa hann í hástert fyrir frammistöðu sína.
7. júlí: Jóhannes leikur með íslenska landsliðinu sem gerir jafntefli við Norðmenn, 1-1. Er nálægt því að skora en fast skot hans fer rétt yfir markið.
17. júlí: Jóhannes skorar seinna mark íslenska landsliðsins í 3-2 tapleik gegn Norðmönnum á útivelli.
30. júlí: Jóhannes er fyrirliði íslenska landsliðsins í tapleik gegn Sovétmönnum, 2-0 á Laugardalsvellinum. Þetta slekkur vonir Íslendinga um að komast í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í Montreal. Jóhannes skorar sjálfsmark í leiknum en átti að öðru leyti frábæran leik.
5. ágúst: Jóhannes, sem er til reynslu hjá Celtic, skorar sigurmark félagsins í 1-0 sigri gegn enska 1. deildarliðinu Derby. Skoskir fjölmiðlar hrósa Jóhannesi mikið fyrir frammistöðu hans í leiknum.
8. ágúst: Jóhannes skrifar undir þriggja ára samning við Glasgow Celtic en hann hafði áður verið til reynslu hjá liðinu í þrjár vikur. Hann er sjötti Íslendingurinn frá upphafi til að gerast atvinnumaður í knattspyrnu.
3. september: Íslenska landsliðið, með Jóhannes innanborðs, tapar 3-0 fyrir Frökkum á útivelli. Jóhannes leikur í stöðu tengiliðar í leiknum sem þótti umdeild ráðstöfun.
16. september: Jóhannes kemur með Glasgow Celtic til Íslands og er fyrirliði liðsins gegn gömlu félögum Jóhannesar, Valsmönnum, í leik í Evrópukeppni bikarhafa. Celtic vinnur 2-0 en Celtic gjörsigrar Val 7-0 í seinni leik liðanna í Evrópukeppninni. Jóhannes skorar fyrsta mark Celtic í leiknum.
6. október: Jóhannes skorar eina mark Celtic í 1-0 sigri á Patrick Thistle í undanúrslitum deildarbikarkeppninnar. Mark Jóhannesar tryggir Celtic sæti í úrslitum keppninnar.
5. nóvember: Jóhannes skorar eitt marka Celtic í 3-1 sigri gegn Boavista í Evrópukeppni bikarhafa. Sigurinn kemurliðinu áfram í keppninni.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



