Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Hreinn Halldórsson, eða Strandamaðurinn sterki eins og hann var jafnan kallaður, er einn af þremur íþróttamönnum sem hefur þrívegis orðið íþróttamaður ársins. Þann heiður hlaut hann fyrir afrek á heimsmælikvarða í kúluvarpi en hann var fyrstur Íslendinga til að kasta yfir 21 metra. Þá er hann einn af fjórum Íslendingum sem hefur orðið Evrópumeistari í frjálsum íþróttum.

Hreinn Halldórsson er fæddur 1949 og alinn upp á Hrófbergi á Ströndum. Hreinn hóf íþróttaiðkun sína á unga aldri fyrir algjöra tilviljun. Hann hafði engan áhuga á að æfa neitt. Hann var hins vegar beðinn um að athuga hvað hann gæti fyrir héraðsmót árið 1968. Lét hann til leiðast, mest til að leika sér, en honum tókst að kasta þar kúlu 11,19 metra og vakti það nokkra athygli hjá manni sem aldrei hafði æft. Hann gerði ekkert meira það sumar en í kjölfarið ákvað hann svo að æfa kastgreinar af fullum krafti.

Hreinn reyndist sæmilega vaxinn fyrir kúluvarp þar sem hann var bæði sterkur og snöggur en hann átti reyndar til að byrja með í vandræðum með tæknina. Hann æfði einnig kringlukast og kastaði spjóti á nokkrum mótum en kúluvarp reyndist svo eiga best við hann.

Hreinn hóf keppni á mótum árið 1969 og árið eftir var hann farinn að kasta ríflega fjórtán metra. En hann bætti sig jafnt og þétt. Segja má að afreksferill hans hafi byrjað eftir landsmót UMFÍ á Sauðárkróki árið 1971. Þar varð Hreinn þriðji, kastaði 14,85 metra. Þessi árangur varð til þess að Hreinn gerði sér grein fyrir því að hann gæti náð langt og fór að æfa á fullu, en hann hafði fram að því lítið æft af viti að eigin sögn. Þá þegar var honum spáð töluverðum frama í greininni sem svo sannarlega átti eftir að ganga eftir.

Næstu ár bætti Hreinn sig jafnt og þétt en 1974 var árið sem hann blómstraði svo að um munaði. Þá bætti hann árangur sinn um tæplega einn metra og bætti Íslandsmet Guðmundar Hermannssonar, sem var 18,48 m, um 10 cm. Metið setti hann í Stokkhólmi. Hreinn bætti metið síðan margoft eftir það.

Árið eftir, 1975, varð hann fyrsti Íslendingurinn til að varpa kúlunni yfir 19 metra og var besti árangur hans á árinu 19,46 m. Þetta kast tryggði honum jafnframt sæti á Ólympíuleikunum í Montreal árið eftir. Árið 1976, þegar hann var fyrst valinn íþróttamaður ársins, varð hann fyrstur Íslendinga til að fara yfir 20 metra. Sá árangur var afraksturinn af miklum æfingum en í febrúar fékk hann launalaust frí hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, þar sem hann starfaði sem vagnstjóri, til að geta einbeitt sér að æfingum og dvaldi í Þýskalandi við æfingar í einn mánuð við bestu aðstæður.

Og ári síðar fór hann í fyrsta sinn yfir 21 metra þegar hann kastaði 21,09 m á DN-galan í Stokkhólmi. Svo skemmtilega vill til að metið var sett á sama velli og hann setti sitt fyrsta Íslandsmet á. Auk þess varð hann Evrópumeistari innanhúss í kúluvarpi með 20,59 m. Þetta þótti afgerandi besti árangur ársins og fékk Hreinn fullt hús stiga í kjöri íþróttamanns ársins 1977 fyrir þessi afrek.

Þetta ár reyndist toppár hans á ferlinum. Hann var reyndar aftur valinn íþróttamaður ársins 1979 en þá kastaði hann lengst 20,56 metra, sem var sjötti besti árangurinn sem náðist í kúluvarpi í heiminum það ár. Hreinn dvaldi þá í nokkra mánuði í Texas við æfingar og keppni í kúluvarpi. Hreinn hefur reyndar sjálfur látið hafa eftir sér að hann hafi alls ekki átt þennan titil skilið þetta ár og hefur gefið þá skýringu að það hafi hreinlega vantað einhvern til að taka við titlinum. Hann tapaði ekki móti á árinu en átti við erfið hnémeiðsli að stríða stóran hluta ársins og þurfti því að sleppa mörgum sterkum mótum.

Í byrjun árs 1980 hélt Hreinn utan á ný, nú til Tuscaloosa í Alabama í Bandaríkjunum, dvaldi þar í fimm mánuði við æfingar og keppni og keppti fyrir hönd háskólans á staðnum á frjálsíþróttamótum. Hann náði prýðilegum árangri á mörgum mótum og náði meðal annars þriðja sæti á meistaramóti bandarískra háskóla. Aðaltakmarkið hjá honum var að ná góðum árangri á Ólympíuleikunum sem fram fóru í Moskvu þá um sumarið. Honum tókst betur til þar en í Montreal fjórum árum áður, komst í úrslit ásamt Óskari Jakobssyni og hafnaði í tíunda sæti með kast upp á 19,55 metra en Óskar var sæti neðar. Hreinn og Óskar háðu nokkur eftirminnileg einvígi þetta sumar en oftast bar Hreinn sigur úr býtum. Árið 1981 hafnaði Hreinn í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu innanhúss, með kast upp á 19,15 metra, en árangur almennt var slakur á þessu móti. Hann hélt sig þó áfram í fremstu röð og tókst honum meðal annars að leggja heimsmethafann Brian Oldfield á Reykjavíkurleikunum. Hann kastaði lengst 20,02 metra það ár og bar höfuð og herðar yfir aðra kúluvarpara hér á landi.

Árið eftir flutti Hreinn svo til Alabama til að stunda þar nám og æfingar. Hann átti hins vegar við erfið bakmeiðsli að stríða og þurfti á endanum að gangast undir aðgerð vegna brjóskloss. Þessi meiðsli urðu á endanum til þess að binda enda á keppnisferil Hreins. Hann fluttist til Egilsstaða eftir að hann kom heim og hefur starfað eftir það að íþróttamálum þar. Hann tók þó fram keppnisskóna að nýju árið 1985 og keppti þá meðal annars fyrir KR í 2. deild bikarkeppni FRÍ. Hann sigraði í kúluvarpinu með 14,63 metra kasti.

Árangurinn, sem Hreinn náði, vakti mikla athygli víða og þótti mörgum ótrúlegt að hann hefði náð honum með fullri vinnu. Mikil umræða fór í gang í þjóðfélaginu um hvort styðja ætti afreksmenn á borð við Hrein þannig að þeir gætu einbeitt sér að æfingum en þyrftu ekki að vinna fulla vinnu með. Árangur Hreins átti stóran þátt í því að stofnaður var afreksmannasjóður ÍSÍ til að styrkja þá íþróttamenn sem líklegir væru til að ná árangri á heimsmælikvarða.

Árangur Hreins 1976:

22. febrúar: Hreinn hafnar í níunda sæti í kúluvarpi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í München í Vestur-Þýskalandi. Hann kastar 18,41 metra.

10. júní: Hreinn setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi á móti í Bratislava í Tékkóslóvakíu, kastar 19,53 m. Bætir sitt gamla met um 7 cm.

17. júní: Kastar 18,83 m á 17. júnímótinu í frjálsum íþróttum og hlýtur forsetabikarinn að launum.

2. júlí: Hreinn setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi á Ólympíumótinu í Laugardal, kastar 19,97 m. Gamla metið hans er þar með bætt um tæplega hálfan metra.

14. júlí: Hreinn setur Íslandsmet á móti á Laugardalsvellinum, kastar 20,24 m. Hafði reyndar fyrr á sama mótinu varpað 20,01 metra. Hreinn varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að varpa kúlu yfir 20 m.

23. júlí: Varpar 18,93 metra á Ólympíuleikunum í Montreal og hafnar í 15. sæti af 23 keppendum. Kemst ekki í úrslit, sem voru mikil vonbrigði, en til þess hefði hann þurft að kasta 19,40 metra.

8. ágúst: Hreinn kastar 19,20 metra á Meistaramóti Íslands og sigrar með yfirburðum.

18. desember: Hreinn setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss á móti í Laugardalshöll, kastar 19,16 metra og bætir eldra metið um rúmlega hálfan metra.

26. desember: Hreinn sigrar í langstökki án atrennu á jólamóti ÍR, stekkur 3,14 metra.

Árangur Hreins 1977:

30. janúar: Hreinn vinnur til bronsverðlauna í langstökki á Meistaramóti Íslands í atrennulausum stökkum, stekkur 3,07 m.

20. febrúar: Hreinn setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss, kastar 19,84 metra. Bætir eigið met um 16 cm.

27. febrúar: Hreinn setur aftur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss, nú á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss, kastar 19,89 m.

13. mars: Hreinn verður Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss á Evrópumótinu í San Sebastian á Spáni, kastar 20,59 m. Í Morgunblaðinu var þetta sagt vera eitt glæsilegasta afrek sem íslenskur íþróttamaður hefði unnið í langan tíma. Hann var þriðji Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í frjálsum íþróttum.

24. apríl: Hreinn vinnur til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í lyftingum. Hann lyftir samanlagt 310 kg í snörun og jafnhöttun.

14. maí: Hreinn setur nýtt Íslandsmet í kúluvarpi, 20,70 metra, á vormóti Breiðabliks í frjálsum íþróttum. Hann hafði áður kastað 20,38 metra á sama móti og tvíbætti því Íslandsmet sitt, sem var 20,24 metrar, á sama deginum. Þetta var fyrsta utanhússmót Hreins á árinu og kastið kemur honum í efsta sæti heimslistans í kúluvarpi.

22. maí: Hreinn verður annar í kúluvarpi á móti í Southampton, kastar 20,31 metra. Geoff Capes sigrar í baráttu Evrópumeistaranna innanhúss og utanhúss með lengsta kastinu í heiminum þetta ár, 20,98 m.

18. maí: Hreinn hafnar í öðru sæti í kúluvarpskeppni í Crystal Palace á Englandi, kastar 20,12 metra. Geoff Capes sigrar í keppninni, kastar 20,33 metra.

8. júní: Hreinn kastar 20,62 metra í landskeppni við Dani á Laugardalsvellinum og sigrar. Er þó ósáttur og segist geta kastað mun lengra. Gerir eitt kast ógilt sem mælist 20,76 m, sex cm lengra en Íslandsmetið.

30. júní: Hreinn hafnar í þriðja sæti á Heimsleikunum í Helsinki með kasti upp á 20,31 m.

4. júlí: Hreinn setur glæsilegt Íslandsmet í kúluvarpi á DN-galan mótinu í Stokkhólmi þegar hann kastar 21,09 metra. Þessi árangur tryggði honum fimmta sætiðá heimslistanum í kúluvarpi. Hreinn var þar með fyrstur Íslendinga til að varpa kúlunni yfir 21 metra.

6.-7. ágúst: Hreinn sigrar í kúluvarpi á meistaramóti Íslands, kastar 20,88 metra sem er nýtt meistaramótsmet. Hann nær öðru sæti í sleggjukasti og því þriðja í kringlukasti á sama móti.

17. ágúst: Hreinn sigrar á Reykjavíkurleikunum í frjálsum íþróttum, kastar 21,02 metra. Þessi árangur er enn í dag vallarmet í Laugardalnum. Nokkrir erlendir kúluvarparar voru á meðal keppenda á leikunum, meðal annars Geoff Capes sem kastaði 20,60 m.

20. ágúst: Hafnar í öðru sæti á móti í Edinborg, kastar 20.03 metra. Þetta er jafnlangt kast og hjá sigurvegaranum, Pólverjanum Wladyslaw Komar, en næstlengsta kast Pólverjans er lengra en næstlengsta kast Hreins.

Árangur Hreins 1979:

3. febrúar: Kastar 20,08 metra á kastmóti KR sem er besti árangur hans með leðurkúlu.

17. febrúar: Hreinn sigrar á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss, kastar 19,78 m.

7. apríl: Hreinn sigrar á sterku háskólamóti í Austin í Texas, kastar 20,54 metra.

27. apríl: Hreinn sigrar í kúluvarpi á háskólamóti í Des Moines í Iowa, varpar 19,89 metra. Árangur Hreins Halldórssonar í kúluvarpi vakti heimsathygli. Hann varð fyrstur Íslendinga til að kasta kúlunni yfir 21 metra.

3. maí: Hreinn sigrar í kúluvarpi á háskólamóti í Texas, kastar 20,56 metra.

17. júní: Hreinn sigrar í kúluvarpi í Evrópubikarkeppninni í Lúxembourg, kastar 19,44 m. Íslendingar lentu í neðsta sæti á mótinu. Sagði eftir keppnina að hann væri í lægð og ætlaði ekki í keppnisferð til Finnlands eins og fyrirhugað var.

7. júlí: Hreinn verður efstur í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum. Kastar 19,60 metra.

21. júlí: Hreinn nær frábærum árangri í Kalottkeppninni sem fram fór í Bodö í Noregi. Hann kastar 20,40 metra og sigrar. Íslendingar höfnuðu í öðru sæti í keppninni.

31. júlí: Hreinn kastar 20,69 m á frjálsíþróttamóti á Húsavík. Þetta reyndist besta kast hans á árinu og það sjötta besta í heiminum á þessu ári.

3. ágúst: Hreinn kastar 20,50 metra á frjálsíþróttamóti á Akureyri.

8. ágúst: Hreinn sigrar á Reykjavíkurleikunum í frjálsum íþróttum, kastar 20,48 m.

11. ágúst: Hreinn sigrar í kúluvarpi í kastkeppni við Ítali, kastar 19,63 m. Var afar ósáttur við árangur sinn.

19. ágúst: Hreinn varpar 20,05 metra á frjálsíþróttamóti í Vík í Mýrdal.

28. ágúst: Hreinn kastar 20,15 metra á frjálsíþróttamóti á Laugardalsvelli.

31. ágúst: Hreinn sigrar á sterku frjálsíþróttamóti í London, kastar 19,87 metra.

7. september: Hreinn kastar 51,90 m í kringlukasti á kastmóti ÍR, hafnar í öðru sæti á eftir Erlendi Valdimarssyni.

Tagged with: