Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Það eru ekki margir Íslendingar sem ná að setja heimsmet í sinni íþróttagrein. En það tókst kraftlyftingamanninum Skúla Óskarssyni að gera árið 1980. Hann varþá kjörinn íþróttamaður ársins í annað sinn, en hann hafði áður hlotið titilinn árið 1978.

Skúli er fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1948 og ólst þar upp. Ekki voru miklar aðstæður þar til að kynna sér lyftingar. Skúli kynntist þeim fyrst í gegnum blöðin og sjónvarpið en hann segist endanlega hafa fallið fyrir þessari íþróttagrein þegar hann sá Guðmund Sigurðsson og Björn Ingólfsson keppa í sjónvarpinu.

Þegar Skúli frétti af manni á Seyðisfirði, Jóhanni Sveinbjörnssyni, sem ætti lyftingatæki, ákvað hann að hafa uppi á honum. Hann fór að vinna á Seyðisfirði í eitt ár og fór þá að æfa með Jóhanni árið 1969 með lyfingatækjum sem þeir bjuggu til meðal annars úr bobbingum. Eftir það fóru þeir að hugsa um hvort þeir ættu roð í einhverja sem eitthvað gætu og fengu metalistann sendan frá Reykjavík. Þeir komust að því að þeir voru ekki svo fjarri því að ná góðum árangri á íslenskan mælikvarða svo að þeir skelltu sér á sitt fyrsta mót árið 1970, sem var haldið í tengslum við íþróttahátíðina það ár. Kvöldið fyrir mótið læddust þeir í Laugardalshöllina til að skoða græjurnar sem þeir áttu að nota, sem voru Ólympíugræjur með legum. Þeir æfðu stíft og lyftu mikið og fóru langt með að klára orkuna. En engu að síður vann Skúli sinn þyngdarflokk og Jóhann varð í 3. sæti í sínum flokki.

Þetta ár fór Skúli hins vegar strax að setja met í sínum þyngdarflokki og árið eftir sigraði hann í léttvigt á fyrsta Íslandsmótinu í kraftlyftingum á nýju Íslandsmeti. Þetta reyndist aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi og hann setti hvert metið á fætur öðru fram eftir áttunda áratugnum. Hann náði einnig prýðilegum árangri á alþjóðlegum mótum, hlaut meðal annars bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu 1975 og varð Norðurlandameistari árið eftir. Það ár lenti hann hins vegar í mótorhjólaslysi á Ítalíu með þeim afleiðingum að hann slasaðist illa á hægri öxl og eftir það var bekkpressan vandamál hjá honum.

Fyrra árið sem hann var kosinn íþróttamaður ársins, 1978, var afar farsælt hjá honum og hlaut hann silfurverðlaun á bæði á Evrópumeistaramótinu og heimsmeistaramótinu. Það ár var hann í raun búinn að vinna allt sem hægt var að vinna nema heimsmeistaratitil. Hann gerði nokkrar tilraunir til að setja heimsmet í réttstöðulyftu sem mistókust naumlega. Árið eftir varð hann Norðurlandameistari.

En þessum árangri sló hann við svo um munaði síðara árið sem hann var kosinn, 1980. Þá setti hann heimsmet í réttstöðulyftu í nóvember. Nokkur saga er á bak við þetta met, sem hann hafði reyndar lengi stefnt að. Hann hafði hug á að vera með á heimsmeistaramót í Bandaríkjunum en vegna axlarmeiðsla ákvað hann að fara ekki til Bandaríkjanna til að vera í miðjum hópi, stoltið var of mikið. Hann ákvað því að keyra á metið heima og fékk leyfi til að keppa í hléinu á Norðurlandamóti unglinga í ólympískum lyftingum. Það setti hins vegar aukna pressu á hann að Hermann Gunnarsson íþróttafréttamaður Útvarpsins frétti af þessu og veiddi upp úr honum að hann ætlaði að setja met. Svo mætti Hermann á staðinn með hljóðnemann og því varð Skúli að setja metið.

Samkvæmt reglunum verður að taka hnébeygjuna og bekkpressuna áður en réttstöðulyftan er tekin, til að metið sé gilt. Skúli lyfti 65 kg í hnébeygju og 65 kg í bekkpressu en var næstum búinn að gera ógilt í bekkpressunni því að hann var svo slæmur í öxlinni. Hann náði gildri lyftu í þriðju tilraun. Svo biðu allir eftir metinu. Metið, sem hann var að reyna að slá, var 315 kg en hálfu kílói meira var á stönginni. Gríðarleg stemmning var á pallinum þegar Skúli gekk inn á sviðið. Upp fór þyngdin við gríðarlegan fögnuð áhorfenda, reyndar svo mikinn að Skúli heyrði ekki þegar dómararnir úrskurðuðu lyftuna gilda. Hann tók bara áhættuna! Þegar þrjú ljós loguðu á sviðinu sem gáfu til kynna að lyftan væri gild ærðist hann af fögnuði eins og áhorfendur í Laugardalnum. Þegar Skúli kom í búningsklefann sagði hann við Svein Björnsson, forseta ÍSÍ: „Jæja, þá erum við búnir að setja heimsmet í íþróttum, þó í kraftlyftingum sé!“

Metið stóð í átta mánuði sem þótti mjög gott en þetta var fyrsta heimsmetið sem sett var af Íslendingi í nokkurri íþróttagrein.

Skúli lét ekki staðar numið þó að heimsmetið væri komið. Árið eftir vann hann bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Kalkútta á Indlandi og hlaut silfurverðlaun á Norðurlandamóti. Eftir það dró hann sig út úr keppni á alþjóðlegum mótum. Hann keppti á nokkrum mótum hér á landi árið 1982 en eftir það ákvað hann að hætta keppni, en hann hætti hins vegar ekki að æfa. Hljótt var um Skúla næstu ár á eftir.

En í nóvember 1987 hóf hann keppni að nýju og það með glans. Hann keppti á Opna Reykjavíkurmótinu í kraftlyftingum og setti þá nýtt Íslandsmet í hnébeygju í 60,5 kg flokki, lyfti 245 kg.

Árið 1990 ákvað hann að taka aftur fram lóðin og keppti þá að beiðni Kraftlyftingasambands Íslands á Evrópumeistaramótinu sem fór þá fram hér á landi. Skúli fór hins vegar of geyst af stað og náði ekki að lyfta byrjunarþyngd sinni í hnébeygju, aðallega vegna reglubreytinga. Þar með var því ævintýri lokið.

Skúli þótt skemmtilegur keppnismaður og gargaði oft mikið þegar hann reyndi við lóðin. Hann lagði mikið upp úr því að hafa gaman af hlutunum og leit mikið á skemmtanagildið, því að það gæti haft áhrif á vinsældir íþróttarinnar. Á sínu fyrsta sjónvarpsmóti setti hann Íslandsmet í réttstöðulyftu og stóð hann með stöngina í höndunum og öskraði: „Met fyrir mömmu!“ Hann kom gjarnan með hnyttin tilsvör og gamanið flæddi frá honum. Margir telja að hann hafi átt stóran þátt í að laða unga stráka að íþróttinni.

Árangur Skúla 1978:

9. apríl: Skúli hlýtur silfurverðlaun í sínum þyngdarflokki á Evrópumeistaramóti í kraftlyftingum í Birmingham á Englandi. Hann lyftir samanlagt 700 kg.

19. maí: Skúli setur Norðurlandamet í hnébeygju í 82,5 kg flokki á Kraftlyftingameistaramóti Íslands í anddyri Laugardalshallar, lyftir 277,5 kg. Hann setur einnig Íslandsmet í samanlögðu, 672,5 kg.

17. júní: Skúli setur Norðurlandamet í hnébeygju á innanfélagsmóti í Jakabóli, lyfti 280 kg. Hann setur einnig Íslandsmet í samanlögðu, 675 kg.

5. nóvember: Skúli vinnur silfurverðlaun í 75 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Turku í Finnlandi. Hann er hársbreidd frá því að setja heimsmet í réttstöðulyftu á mótinu en mistekst að lyfta 300,5 kg. Hann setur einnig Norðurlandameti í samanlögðu á mótinu, 722,5 kg.

Árangur Skúla 1980:

17. febrúar: Skúli setur Norðurlandamet í hnébeygju í léttþungavigt á Jakabólsmótinu í kraftlyftingum, lyftir 305 kg. Hann setur einnig Íslandsmet í samanlögðu, 722,5 kg.

15. apríl: Skúli verður annar í 75 kg flokki á heimsbikarmóti í kraftlyftingum í London. Hann lyftir samanlagt 720 kg.

17.–18. maí: Skúli hlýtur silfurverðlaun í 75 kg á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum í Zürich í Sviss. Hann lyftir samanlagt 715 kg.

13.–14. september: Skúli sigrar í 75 kg flokki á Norðurlandamóti í kraftlyftingum, sem fram fer í Noregi. Hann jafnar eigið Íslandsmet í réttstöðulyftu, 305 kg, og lyftir samanlagt 715 kg.

1. nóvember: Skúli setur heimsmet í réttstöðulyftu í hléinu á Norðurlandamóti unglinga í ólympískum lyftingum í Laugardalshöll. Hann lyftir 315,5 kg.

16. desember: Skúli lyftir 320 kg í réttstöðulyftu á stjörnuhátíð íþróttafréttamanna á Selfossi en það er 4,5 kg meira en heimsmetið hans. Þetta afrek fékkst þó ekki staðfest sem heimsmet þar sem ekki var um löglega keppni að ræða.

Tagged with: