Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.
Jón Páll Sigmarsson fæddist árið 1960 og byrjaði að stunda íþróttir fimm ára gamall. Hann byrjaði á íslenskri glímu, fór síðan í knattspyrnu og handknattleik og þar á eftir í karate. Alltaf blundaði hins vegar í honum draumurinn um að verða sterkur og hann lýsti því yfir strax á unga aldri að hann ætlaði að verða sterkasti maður heims, nokkuð sem fáir tóku trúanlegt.
Jón Páll hóf að stunda lyftingar 17 ára gamall. Hann æfði í líkamsræktarstöðinni Jakabóli og var þá svo heppinn að afreksmenn á borð við Skúla Óskarsson og Hrein Halldórsson æfðu þar líka þannig að hann fékk strax góða ráðgjöf frá þeim bestu. Jón Páll hóf strax að gefa yfirlýsingar um að hann ætlaði sér í fremstu röð. Hugur hans stefndi fyrst á ólympískar lyftingar en tæknilegir vankantar gerðu honum erfitt fyrir þar, meðal annars að hann átti erfitt með að rétta úr olnbogunum. Þá kom í ljós að kraftlyftingar áttu betur við hann.
Um tvítugt var Jón Páll kominn í röð fremstu kraftlyftingamanna á Íslandi. Fyrsta stórmótið erlendis, sem hann tók þátt í, var Norðurlandamótið í kraftlyftingum 1979. Þar lyfti hann 707.5 kg og hlaut silfurverðlaun og varð meðal annars Norðurlandameistari í sínum þyngdarflokki árið 1980 auk þess að fá silfurverðlaun á Evrópumóti. Strax þetta ár var hann farinn að setja fjölda Íslandsmeta í kraftlyftingum. Árið 1981 vann hann gullverðlaun á Íslandsmótinu í kraftlyftingum, gullverðlaun á Norðurlandamótinu og silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu. Hann var þetta ár valinn íþróttamaður ársins. Árið eftir setti hann eftirminnilegt Evrópumet í réttstöðulyftu í beinni útsendingu í sjónvarpssal og sagði þá hátt og snjallt meðan hann hélt á stönginni: „Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál!“ Eftir það varð þessi setning að máltæki hér á landi.
Jón Páll vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu 1983 og gullverðlaun á Norðurlandameistaramóti unglinga (23 ára og yngri) sama ár, með 950 kg í samanlögðu. Þar setti hann nýtt Evrópumet, 365 kg. Þá setti Jón Páll líka Evrópumet í samanlögðu 1984 þegar hann lyfti samanlagt 970 kg.
Eftir þetta hóf Jón Páll að vinna afrek á nýjum vettvangi. Hann varð þrisvar Íslandsmeistari í vaxtarrækt á árunum 1984– 1988 og byrjaði einnig að láta til sín taka í aflraunum. Hann tók þátt í keppninni um sterkasta mann heims í fyrsta sinn árið 1983 og varð þar í öðru sæti á eftir Bretanum Geoff Capes sem var alla tíð eftir það helsti andstæðingur hans í aflraunum. Hann var valinn sterkasti maður heims í fyrsta sinn árið 1984 og vann þann titil alls fjórum sinnum, síðast árið 1990. Hann var auk þess valinn sterkasti maður allra tíma 1987. Á tíunda áratugnum fór minna fyrir Jóni Páli á keppnisferlinum þó að hann hafi aldrei hætt alveg. Hann einbeitti sér þá að rekstri líkamsræktarstöðvarinnar GYM 80. Jón Páll lést langt um aldur fram árið 1993, á þrítugasta og þriðja aldursári.
Jón Páll varð í raun þjóðsagnapersóna hér á landi. Hann hristi upp í kraftlyftingaíþróttinni og lyfti henni að margra mati á æðra plan. Þá ruddi hann brautina fyrir Ísland á sviði aflrauna og kom sterkra manna hefð Íslendinga á kortið á heimsvísu. Jón Páll var ótrúlega vel þekktur á alþjóðavettvangi enda gustaði af honum í aflraunakeppnum og hann þótti hafa einstaklega skemmtilega framkomu.
Árangur Jóns Páls 1981:
5. apríl: Jón Páll tvíbætir Evrópumetið í réttstöðulyftu á innanfélagsmóti KR í Jakabóli. Hann lyftir fyrst 342,5 kg og bætir gamla metið um 2,5 kíló. Síðan lyftir hann 350 kg.
18. apríl: Jón Páll bætir Íslandsmetið í samanlögðu í kraftlyftingum um 37,5 kg á móti í Borgarnesi, lyftir samanlagt 892,5 kg.
3. maí: Jón Páll setur Íslandsmet í öllum greinum og í samanlögðu í 125 kg flokki á Íslandsmótinu í kraftlyftingum. Hann lyftir 342,5 kg í hnébeygju, 222,5 kg í bekkpressu og 347,5 kg í réttstöðulyftu, samtals 912,5 kg. Þar með verður Jón Páll fyrstur Íslendinga til að lyfta yfir 900 kg samanlagt.
10. maí: Jón Páll hlýtur silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Parma á Ítalíu, lyftir samtals 852,5 kg. Meiðsli hamla því að hann nái betri árangri.
26. ágúst: Jón Páll bætir Evrópumet sitt í réttstöðulyftu um sjö og hálft kíló og lyftir 360 kg.
13. september: Jón Páll verður Norðurlandameistari í yfirþungavigt, lyftir samanlagt 890 kg sem er Íslandsmet.
8. nóvember: Jón Páll fær bronsverðlaun í 125 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Kalkútta á Indlandi, lyftir samtals 912,5 kg. Litlu munar að honum takist að setja Evrópumet í réttstöðulyftu.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



