Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Óskar Jakobsson var alhliða kastari og náði frábærum árangri í kringlukasti og kúluvarpi. Hann var á hátindi ferils síns árið 1982, árið sem hann var valinn íþróttamaður ársins.

Óskar Jakobsson er fæddur í Reykjavík árið 1955. Hann þótti metnaðarfullur í æsku og þoldi aldrei að tapa, hvort sem það var í grjótkasti eða hlaupum. Hann byrjaði að æfa boltaíþróttir, handbolta, fótbolta og körfubolta en skipti yfir í frjálsar íþróttir á fermingaraldri. Þá kynntist hann Guðmundi Þórarinssyni, frjálsíþróttaþjálfara í ÍR, og það hafði þau áhrif að hann ákvað að einbeita sér að frjálsum íþróttum.

Óskar byrjaði á að stunda hlaup og stökk en fljótlega kom í ljós að hann var í þyngra lagi sem gerði honum erfiðara fyrir að hlaupa langar vegalengdir. Þá reyndi hann fyrir sér í kastgreinum og komst fljótlega að því að þær áttu vel við hann. Og þá virtist engu máli skipta hverju hann kastaði því að kringlan, kúlan og spjótið virtust öll liggja vel fyrir honum. Hann hafði í raun allt til að bera til að verða góður kastari. Þetta kom í ljós strax á unglingsaldri. Hann byrjaði að keppa á frjálsíþróttamótum árið 1970 með ágætum árangri og ári seinna, þegar hann var fimmtán ára gamall, bætti hann 32ja ára gamalt sveinamet Gunnars Huseby í kringlukasti á yngri flokka móti Frjálsíþróttasambands Íslands, kastaði þá 56,80 metra. Hann sigraði einnig í kúluvarpi og spjótkasti á mótinu og þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi á ferli Óskars. Hann var langfremstur sinna jafnaldra hér á landi og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn fastamaður í landsliðinu í frjálsum íþróttum.

Í upphafi kastferils síns var hann besti spjótkastari landsins og sló Íslandsmet Jóels Sigurðssonar, sem staðið hafði í 23 ár, árið 1974. Þá kastaði hann 67,70 metra en var áður en árið leið búinn að bæta það í 73,72 metra. Hann varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að kasta spjóti yfir 70 metra. Árið 1975 var met hans komið í 75,80 m og tveimur árum síðar náði hann sínum besta árangri í greininni, 76,32 m. Óskar keppti í spjótkasti á Ólympíuleikunum í Montreal 1976 en var langt frá sínu besta, kastaði 72,78 metra og hafnaði í 21. sæti. Á þessum árum fór hann svo að taka örum framförum í kúluvarpi og kringlukasti og lagði þá meiri rækt við þær greinar en spjótkastið. Þetta var í samræmi við að almennt var talið að hann væri betur byggður fyrir þær greinar, einkum kringlukastið, en þar rauf hann sextíu metra markið árið 1978 og komst það ár í úrslit á Evrópumeistaramótinu í Prag. Það sama ár var hann kominn yfir 18 metra í kúluvarpi.

Árið 1979 fór Óskar hins vegar að leggja meiri áherslu á kúluvarpið og á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980 keppti hann bæði í kúluvarpi og kringlukasti. Hann komst í úrslit í kúluvarpinu ásamt Hreini Halldórssyni og hafnaði þar í ellefta sæti. Honum tókst hins vegar ekki vel upp í kringlukastinu þar sem hann gerði öll köst sín ógild.

Árið 1981 var komin keppnisþreyta í Óskar þannig að í stað þess að keppa á mótum var hann í línuvinnu austur á landi. Honum stóð hins vegar til boða að fara aftur til Austin í Texas þá um haustið en hann hafði þegar dvalið þar um nokkurt skeið við frjálsíþróttaiðkun og háskólanám. Segja má að þar hafi hafist nýr kafli á íþróttaferli hans þar sem hann ákvað að æfa vel til að ná góðum árangri. Hann kastaði kúlunni sjaldan undir 20 m og kringlunni yfirleitt yfir 60 m.

Óskar hafði ætlað sér að ná enn lengra en hann gerði. Eftir að hann var kjörinn íþróttamaður ársins lýsti hann því yfir að hann ætlaði að einbeita sér að æfingum í kúluvarpi, byggja sig markvisst upp og vera kominn í góða æfingu fyrir Ólympíuleikana í Los Angeles 1984. En meiðsli settu strik í þann reikning. Árið 1983 átti hann í ökklameiðslum framan af ári sem komu niður á æfingum fyrir keppnistímabil sumarsins og náði hann sér aldrei almennilega á strik á því ári. Hann stefndi hins vegar ótrauður á Ólympíuleikana í Los Angeles og hafði ákveðið að að þeim leikum loknum myndi hann hætta keppni. Sex vikum áður en leikarnir hófust meiddist hann á handarbaki og gat ekki tekið þátt í leikunum. Þar með var keppnisferli Óskars lokið.

Í hinum tveimur greinunum fékk hann meiri keppni, frá Hreini Halldórssyni í kúluvarpi og Erlendi Valdimarssyni í kringlukasti og svo fór að þeir náðu betri árangri en Óskar. Óskari tókst aldrei að setja Íslandsmet í þessum greinum.

Þegar ferli Óskars lauk hafði hann kastað kúlu 20,61 metra, kringlu 63,24 metra og spjóti 76,32 metra. Ef meiðslin hefðu ekki komið til hefði hann trúlega náð enn lengra, einkum í kringlukastinu sem hann leit sjálfur á sem sína sérgrein. Óskar hafði hæð, styrk og snerpu til að geta kastað hverju sem var. Það er mál manna að hann hafi hætt allt of fljótt og hefði getað náð mun lengra en hann gerði.

En Óskar náði góðum árangri í fleiri greinum. Hann lét einnig að sér kveða í atrennulausum stökkum og árið 1978 bætti hann Íslandsmet Vilhjálms Einarssonar og Jóns Þ. Ólafssonar í hástökki án atrennu þegar hann stökk 1,76 m. Metið hafði þá staðið í 17 ár. Hann var meira að segja nærri því að setja nýtt heimsmet í greininni. Þá var hann einnig prýðilegur lyftingamaður og átti um tíma Íslandsmetið í bekkpressu. Óskar hefur verið búsettur í Texas undanfarin tuttugu ár og rekur nú líkamsræktarstöð þar.

Árangur Óskars 1982:

10. janúar: Óskar sigrar á móti í Boston á nýju vallarmeti, 19,27 m.

17. janúar: Óskar sigrar á stóru innanfélagsmóti í Austin í Texas, kastar 19,81 m.

21. febrúar: Óskar sigrar með miklum yfirburðum á svæðismeistaramóti bandarískra háskóla, kastar 19,74 m.

21. mars: Óskar sigrar í þremur kastgreinum í skólakeppni Texasháskóla og Kaliforníuháskóla. Hann varpar kúlu 19,50 m, kastar kringlu 59,46 m og spjóti 76,08 m.

4. apríl: Óskar sigrar í kúluvarpi á stóru móti í Austin, kastar 20,02 m. Hann hafnar í öðru sæti í kringlukasti á sama móti með 61,10 m kasti.

10. apríl: Óskar kastar kúlu 20,39 m á bandarísku háskólamóti og sigrar. Þetta var besti árangursem náðst hafði í heiminum það sem af var þessu ári.

16. maí: Óskar sigrar í kúluvarpi á meistaramóti háskólasvæðisins í Texas með 19,79 m kasti. Hann er fjórði í spjótkasti á sama móti með kast upp á 69,70 m.

23. maí: Óskar setur persónulegt met í kúluvarpi á háskólamóti í Texas, kastar 20,57 m.

5. júní: Óskar hafnar í fjórða sæti í kúluvarpi á bandaríska háskólameistaramótinu á persónulegu meti, 20.61 m. Þetta var sjötta besta afrek Norðurlandabúa frá upphafi.

26. júní: Óskar sigrar í kringlukasti á afmælismóti ÍR, kastar 58,78 m.

17.–18. júlí: Óskar sigrar í kúluvarpi (20,06 m), verður annar í kringlukasti (54,46 m) og þriðji í sleggjukasti (52.18 m) á Reykjavíkurleikunum í frjálsum íþróttum.

29. júlí: Óskar hafnar í þriðja sæti í kúluvarpi á heimsleikunum í frjálsum íþróttum, kastar 20,12 m.

31. júlí-1. ágúst: Óskar sigrar í kúluvarpi (19,67 m), verður annar í kringlukasti (55,36 m) og þriðji í sleggjukasti (53.96 m) í Kalottkeppninni í frjálsum íþróttum. Ísland hafnar í öðru sæti í keppninni, á eftir Finnum.

5. ágúst: Óskar verður þriðji í kúluvarpi á Kaupmannahafnarleikunum, kastar 19,66 m.

8. ágúst: Óskar verður annar í kúluvarpi á Värnamoleikunum í Svíþjóð, kastar 20,06 metra.

21.-22. ágúst: Óskar sigrar í kúluvarpi (19,41 m) og verður annar í spjótkasti (64,94 m) í bikarkeppninni í frjálsum íþróttum.

Tagged with: