Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Einar Vilhjálmsson er einn af þremur mönnum sem hafa þrisvar orðið íþróttamenn ársins. Hann á ekki langt að sækja þessa hæfileika því að hann er sonur Vilhjálms Einarssonar, silfurverðlaunahafa í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956.

Einar er fæddur 1960 og var aðeins nokkurra mánaða gamall þegar faðir hans keppti á Ólympíuleikunum í Róm. Þar hafnaði hann í fimmta sæti. Eins og hjá mörgum öðrum fór Einar að æfa íþróttir vegna þess að það var helsta afþreyingin í sveitinni á árum áður. Þegar Einar stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti, þar sem faðir hans rak sumarbúðir, reyndu strákarnir allt sem hægt var að reyna, og voru meðal annars gerðar tilraunir í spjótkasti eftir að Þjóðverjinn Wolferman og Rússinn Lusis háðu spennandi einvígi í greininni á Ólympíuleikunum í München 1972. Ári seinna gripu nokkrir í spjót eftir knattspyrnuæfingu og tókst Einari þá að kasta töluvert lengra en strákar sem voru eldri en hann. Hann ákvað því að fjárfesta í spjóti sem kostaði hann heil mánaðarlaun.

Eftir það varð ekki aftur snúið og hann stundaði þessa íþrótt sem sumaríþrótt frá árinu 1976.

Einar hélt þó áfram að stunda aðrar íþróttir, einkum boltaíþróttir. Hann flutti til Reykjavíkur 1978 og var þá kominn í unglingalandsliðið í handknattleik auk þess sem hann lék körfuknattleik. Spjótkastið var í raun aukagrein hjá honum og það var ekki fyrr en 1980 sem hann ákvað að einbeita sér að því. Sú ákvörðun reyndist mikið heillaspor. Tveimur árum áður hafði hann bætt sig um heila sjö metra í kastlandskeppni við Dani. 1980 komst hann í landsliðið, varð Norðurlandameistari unglinga í Malmö í Svíþjóð og sló svo Íslandsmet Óskars Jakobssonar í spjótkasti með því að kasta 76,76 m.

Árið 1981 bætti Einar Íslandsmetið verulega og kastaði í fyrsta skipti yfir 80 metra, 81,22 m. Hann hélt til Austin í Texas um haustið þar sem honum bauðst að stunda nám án endurgjalds og keppa fyrir hönd skólans í spjótkasti. Þar komst hann í góða æfingaaðstöðu sem hefur án efa hjálpað til við að ná þeim árangri sem hann átti eftir að ná.

Árið 1983, sem var fyrsta árið sem hann var valinn íþróttamaður ársins, setti hann fyrst bandarískt háskólameistaramótsmet, sem var það elsta sem var þá í gildi, og kastaði svo í fyrsta sinn yfir 90 metra, nánar tiltekið 90,66 m, í landskeppni milli Bandaríkjanna og Norðurlanda. Þar sigraði hann meðan annars heimsmethafann Tom Petranoff.

Einar keppti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og hafnaði þar í sjötta sæti. Honum hafði áður tekist að bæta Íslandsmetið enn frekar með kasti upp á 92,42 metra. Sá árangur var nýtt bandarískt háskólamet en þar sló hann elsta frjálsíþróttamet bandarísku háskólanna.

Árið eftir, 1985, er líklega besta árið á ferli Einars. Þá vann hann fjölda móta í fyrstu stigakeppni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, Mobile Grand Prixkeppni IAAF, sem í dag kallast Golden League eða Gullmótaröðin. Í tvo og hálfan mánuð var Einar stigahæsti frjálsíþróttamaður keppninnar og eru þá allar greinar meðtaldar. Það þótti einstakt að frjálsíþróttamaður frá Íslandi væri í þessari stöðu og meðal annars kom Eurosport til Íslands og gerði sérstakan þátt um Einar og þessa óvæntu stöðu í stigakeppninni. Hann vann ellefu af þeim sautján stórmótum sem hann tók þátt í á þessu ári. Hann var valinn í úrvalslið Evrópu til þátttöku í heimsbikarkeppni IAAF en í þá keppni var einn spjótkastari valinn frá Vestur-Evrópu. Vegna meiðsla á olnboga gaf hann sæti sitt eftir.

Árið 1986 var spjótunum breytt til að tryggja betur að þau næðu að stingast í stað þess að lenda flöt og skapa hættu vegna rennslis. Til að ná þessu fram var þyngdarpunktur spjótsins færður fram um 4 cm sem hafði mun meiri áhrif á íþróttina en áætlað var.

Þessar breytingar fóru ekki vel í Einar til að byrja með. Hann átti, eins og margir aðrir spjótkastarar, sem höfðu náð góðu valdi á gamla spjótinu, erfitt með að ná tökum á tækninni við þetta spjót og féll um tuttugu sæti á heimslistanum. Hann komst þó í fremstu röð að nýju árið 1987 með nýju Íslands og Norðurlandameti, 82,79 m, og sama ár komst hann í úrslitakeppni á stórmótaröð Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins öðru sinni en stigakeppni hverrar íþróttagreinar er haldin annað hvert ár.

Árið 1988, þegar Einar var valinn í þriðja sinn, tókst honum að koma sér aftur meðal tíu efstu á lista og hann náði reyndar fjórða besta árangrinum á þessu ári, 84,66 m. Stærsta afrek Einars á þessu ári var að vinna Heimsleikana í Finnlandi sem eru stærsta spjótkastkeppni sem haldin er í heiminum ár hvert. Menn veltu mikið fyrir sér hvort þetta gætu hugsanlega orðið úrslit Ólympíuleikanna sem fram fóru í Seoul í SuðurKóreu síðar á árinu. Þeir fimm efstu á heimsleikunum gerðu góða hluti á Ólympíuleikunum, að Einari frátöldum, en hann komst ekki í úrslit í keppninni, var 8 cm frá því.

Einar æfði áfram af kappi og náði árið 1989 að bæta Íslandsmet sitt á alþjóðlegu stórmóti í Svíþjóð, 85,28 m, og sigra þar m.a. heimsmethafann Jan Zelezny. Hann var á verðlaunapalli á fjölda móta og komst í úrslit á stórmótaröð IAAF í þriðja sinn í röð.

Árið 1990 tókst Einari að bæta Íslandsmet sitt aftur og setja Evrópumeistaramótsmet í forkeppni Evrópumeistaramótsins í Split í Júgóslavíu, 85,48 metra. Í kastinu meiddist hann á hægra hné sem átti eftir að há honum það sem eftir var af ferli hans. Hann hafnaði í níunda sæti á Evrópumótinu í Split 1990 og í sama sæti á heimsmeistaramótinu í Tókýó árið eftir en þá sleit hann hnéskeljabandið á hægra hné í öðru kasti sínu og náði því aðeins að klára eitt kast í úrslitakeppninni. Þetta sama ár hafnaði hann í þriðja sæti í heildarstigakeppni spjótkastsins í annað sinn.

Í apríl 1992, átta mánuðum eftir uppskurð á hné, kastaði Einar 83 metra á þjóðarleikvanginum í Lissabon í Portúgal og bætti þar vallarmetið um 20 metra. Einar var þar með kominn með tækifæri til að taka þátt á sínum þriðju Ólympíuleikum, í Barcelona 1992. Meiðsli gerðu undirbúninginn hins vegar erfiðan. Einar var þó nálægt því að komast í úrslit – hafnaði í 14 sæti af 44 keppendum. Þremur vikum síðar bætti hann svo Íslandsmetið enn frekar, kastaði 86,80 metra á Laugardalsvellinum eftir að nýbúið var að endurbæta frjálsíþróttaaðstöðuna þar. Þetta er enn gildandi Íslandsmet í greininni. Einar hætti keppni á erlendum mótum árið 1993 en keppti á mótum hér heima fram til ársins 1995. Hann æfði þó áfram og stefndi að þátttöku á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996. Þá um sumarið gengu æfingar vel en keppnisferill Einar endaði þann 1. maí þetta ár, á æfingum á kastsvæði í Laugardal þar sem hann rann á kastmottum og meiddist á vinstra hné.

Einar var ekki eini íslenski spjótkastarinn sem var í fremstu röð á þessum tíma því að Sigurður Einarsson náði líka mjög góðum árangri. Árið 1989 voru Einar og Sigurður til að mynda besta spjótkastlandsliðs heims að mati frjálsíþróttatímaritsins Track and Field News.

Ferill Einars er mjög glæsilegur þó að hann hefði það orð á sér að ná sér ekki á strik á stórmótum. Þar á trúlega sinn þátt árangur hans á Ólympíuleikunum 1988 og 1992 þar sem hann komst ekki í úrslit. En árangur hans á stigamótunum var glæsilegur og skipaði honum með réttu á bekk með þeim allra bestu í heiminum.

Árangur Einars 1983:

20. mars: Einar setur nýtt Íslandsmet í spjótkasti á háskólamóti í Los Angeles, kastar 85,12 metra. Hann sigraði þar meðal annars heimsmethafann Tom Petranoff.

22. apríl: Kastar 82,66 metra á frjálsíþróttamóti í Waco í Texas og sigrar örugglega.

14. maí: Sigrar á háskólamóti í Fort Worth í Texas, kastar 83,94 m.

2. júní: Sigrar á bandaríska háskólameistaramótinu. Lengsta kast hans er 89,98 metrar, sem er nýtt Íslandsmet og fimmti besti árangurinn í heiminum á árinu.

16. júlí: Kastar 81,78 metra í 2. deild bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands. Þetta er lengsta kast Íslendings á móti hérlendis.

26. júlí: Kastar 90,66 metra í landskeppni Bandaríkjanna og Norðurlanda. Þetta var í fyrsta sinn sem hann kastaði yfir 90 metra og hann var jafnframt sá yngsti sem náð hefur þessum árangri. Hann sigraði heimsmethafann Tom Petranoff öðru sinni og fékk viðurkenningu fyrir besta afrek mótsins.

1. ágúst: Sigrar í spjótkasti í landskeppni Íslendinga og fimm annarra landa í Edinborg. Kastar 88,54 metra, 24 metrum lengra en næsti maður.

10. ágúst: Kastar 81,72 metra á heimsmeistaramótinu í Helsinki og er aðeins 20 cm frá því að komast í úrslit.

September: Útnefndur íþróttamaður Texasháskólans í Austin 1983.

19. desember: Útnefndur íþróttamaður Borgarfjarðar 1983.

Árangur Einars 1985:

26. maí: Einar sigrar í spjótkasti á fyrsta stigamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (Mobile Grand Prix) ársins sem fram fer í San Jose í Bandaríkjunum. Hann kastar 88,28 metra. Honum hafði verið meinuð þátttaka á mótinu, þar sem „allir bestu spjótkastararheims voru skráðir til keppni“.

1. júní: Kastar 88,90 metra á öðru stigamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins sem haldið var í Oregon í Bandaríkjunum og sigrar. Hann hélt upp á 25 ára afmæli sitt þennan sama dag. Hann kastaði um 6 metrum lengra en næsti maður. Einar var þar með eini frjálsíþróttamaðurinn sem unnið hafði til tveggja gullverðlauna á stórmótaröðinni og var því stigahæsti frjálsíþróttamaður heims.

12. júní: Kastar 89 metra slétta í leikhléi í landsleik Íslendinga og Spánverja á Laugardalsvellinum.

16. júní: Sigrar í spjótkasti á Vesturleikunum í Sviss, kastar 89,42 metra. Var valið besta afrek mótsins.

18. júní: Sigrar á árlegu boðsmóti í Borås í Svíþjóð, kastar 91,84 metra.

19. júní: Endurtekur leikinn á öðru móti í Svíþjóð, að þessu sinni í Växjö. Kastar 85 metra slétta.

23. júní: Sigrar á þriðja stigamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í Prag, kastar 85,36 metra. Þetta var áttundi sigur hans í níu stórmótum.

26. júní: Sigrar á móti í Svíþjóð, með kast upp á 86,72 metra.

27. júní: Hafnar í öðru sæti á Bislettleikunum í Osló í Noregi, þrátt fyrir mjög gott kast, 90.54 metra.

2. júlí: Einar verður annar í spjótkastkeppninni á DN-galan í Stokkhólmi sem er eitt af stigamótunum. Hann kastar 89,32 metra. Heimsmethafinn Uwe Hohn sigraði í keppninni.

4. júlí: Sigrar í spjótkastkeppni heimsleikanna í Finnlandi, kastar 84,90 m.

17. júlí: Hafnar í öðru sæti í spjótkasti í frjálsíþróttakeppni milli Norðurlandanna og Sovétríkjanna í Osló. Kastar 86,52 metra. Sjónvarpið sýndi beint frá keppninni og fékk Bjarni Felixson meðal annars mótshaldara til að flýta spjótkastkeppninni um eina klukkustund til að Íslendingar gætu séð Einar kasta spjótinu!

19. júlí: Einar sigrar á sínu fjórða stigamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í London, kastar 89,06 metra. Eftir mótið var hann stigahæsti frjálsíþróttamaður heims.

10. ágúst: Einar sigrar í spjótkasti í C-riðli Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvelli. Hann kastar tæpa 88 metra í síðasta kasti og það tryggir honum sigurinn eftir spennandi keppni.

19. ágúst: Einar er valinn í Evrópuúrvalið í frjálsum íþróttum, fyrstur íslenskra frjálsíþróttamanna. Þar var hann með mönnum eins og hlaupurunum Steve Cram og Sebastian Coe og hástökkvaranum Patrik Sjöberg.

25. ágúst: Hafnar í öðru sæti á stigamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í Köln, kastar 86,84 metra.

9. september: Einar hafnar í áttunda sæti á síðasta Grand Prix-mótinu í Róm, kastar 80,76 metra. Meiðsli á olnboga ollu því að hann kastaði ekki lengra. Þar sem þetta mót vó tvöfalt á við önnur Grand Prix-mót féll Einar niður í fjórða sæti í stigakeppni spjótkastara. Síðar varð það að bronsverðlaunum þar sem einn af þeim sem var fyrir ofan hann féll á lyfjaprófi.

15. október: Einar hafnar í áttunda sæti á heimsafrekaskrá í spjótkasti þegar hún er gefin út. Besti árangur hans á árinu var 91,84 metrar.

Árangur Einars 1988:

8. maí: Kastar 83,36 metra á opnu móti í Austin í Texas sem er besti árangur sem náðst hefur í heiminum það ár.

21. júní: Kastar 82,38 metra á Flugleiðamótinu í frjálsum íþróttum.

25. júní: Setur nýtt Íslandsmet með nýja spjótinu á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum. Hann kastar 84,66 metra og þetta kast tryggði honum fjórða sætið á heimsafrekaskrá spjótkastara fyrirárið 1988.

31. júní: Sigrar á Heimsleikunum í Helsinki í Finnlandi þarsem tíu bestu spjótkastarar heims taka þátt. Einar kastar 82,68 metra. Í Morgunblaðinu var talað um þennan sigur Einars sem mesta afrek sem hann hefði unnið.

5. júlí: Sigrar á DN-galanstórmótinu í Stokkhólmi, kastar 83,44 metra.

9. júlí: Sigrar í spjótkasti í landskeppni Skota, Íra og Íslendinga sem fram fer í Grangemouth í Skotlandi. Kastar 78,08 metra.

6. ágúst: Kastar 75,72 metra í bikarkeppninni í frjálsum íþróttum, ríflega níu metrum lengra en næsti maður á eftir.

6. september: Sigrar með yfirburðum á frjálsíþróttamóti í Lúxembourg, þar sem hann kastar um 20 metrum lengra en næsti maður.

24. september: Einari mistekst að komast í úrslit í spjótkastkeppninni á Ólympíuleikunum í Seoul. Hann kastar 78,92 metra og vantar aðeins átta cm upp á aðkomast í úrslitin. Þetta var fjórða mótið þarsem hann hafnaði í þrettánda sæti, næsta sæti við úrslitin. Þetta urðu bæði honum og þjóðinni mikil vonbrigði þar sem mikla væntingar voru bundnar við hann í kjölfar árangurs sumarsins.

Tagged with: