Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Eðvarð Þór Eðvarðsson var sundmaður á heimsmælikvarða og var meðal annars fyrsti sundmaðurinn til að komast í úrslit á heimsmeistaramóti. Það gerði hann einmitt árið sem hann var íþróttamaður ársins, 1986.

Eðvarð Þór Eðvarðsson er fæddur árið 1967 í Njarðvík. Hann var um átta ára gamall þegar hann byrjaði að æfa sund. Kom það einkum til af því að hann og félagi hans, sem bjuggu í nágrenni við sundlaugina, vildu leika sér lengi. Því lá þetta beint við.

Eðvarð stundaði æfingar strax af kappi og í viðtali, sem birtist við hann í Morgunblaðinu í júlí 1978, kemur fram að hann syndi sex kílómetra á dag. Strax þá hafði hann sett þrjú sveinamet og stefndi á frekari frama í íþróttinni. Hann æfði þó lengi körfuknattleik með sundinu og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með yngri flokkum Njarðvíkinga í þeirri íþrótt. En hann ákvað að lokum að helga sig sundinu.

Þegar hinir miklu hæfileikar Eðvarðs urðu ljósir var lögð áhersla á að hann fengi þá þjálfun sem hann þyrfti. Meðal annars var búið svo um hnútana að hann gæti æft vel á sumrin án þess að þurfa að hafa áhyggjur af sumarvinnu. Friðrik Ólafsson, sem lengst af var þjálfari hans, fékk langt sumarfrí frá vinnu sinni hjá Njarðvíkurbæ til að geta þjálfað Eðvarð. Þar sem aðeins var 12,5 metra laug í Njarðvík urðu þeir að fara til Reykjavíkur til að æfa í 50 metra laug, en Eðvarð æfði aðallega í 25 metra laug á Keflavíkurflugvelli.

Eðvarð vakti fyrst athygli á alþjóðavettvangi þegar hann komst í fyrsta sinn í A-úrslit á Evrópumeistaramóti. Þetta var í Sofiu í Búlgaríu árið 1985 og hafnaði hann í sjötta sæti á mótinu í 100 m baksundi. Á sama móti komst hann í B-úrslit í 200 m baksundi. Þetta reyndist upphafið að mikilli velgengni á alþjóðavettvangi þar sem hann komst í röð fremstu baksundsmanna í heiminum.

Árið, sem Eðvarð varð íþróttamaður ársins, 1986, komst hann þó enn lengra. Hann varð fyrstur Íslendinga til að komast í A-úrslit á heimsmeistaramóti. Það gerði hann í 200 m baksundi á heimsmeistaramótinu í Madrid. Hann varð áttundi í greininni, setti Norðurlandamet og komst með árangri sínum í hóp þeirra bestu í heiminum. Hann komst jafnframt í B-úrslit í 100 m baksundi.

Árangur Eðvarðs vakti mikla athygli hér á landi en enginn Íslendingur hafði áður náð jafnlangt í sundi og hann. Örn Arnarson átti síðar eftir að taka við baksundskrúnunni af honum. Árið eftir náði Eðvarð svo besta árangri sem Íslendingur hafði náð á alþjóðlegu sundmóti, þegar hann varð fjórði á Evrópumeistaramótinu í Strassbourg og bætti Norðurlandamet sitt enn frekar. Á þessu móti synti Eðvarð sína bestu tíma, hvort tveggja í 100 og 200 metra baksundi.

Þátttaka Eðvarðs á Ólympíuleikunum 1988 olli bæði honum og öðrum sundáhugamönnum vonbrigðum. Hann hafnaði í 8. sæti í B-úrslitum í 100 m baksundi, eða 16. sæti, og í 24. sæti í 200 m baksundi.

Eðvarð dró úr æfingum eftir þetta og keppti lítið á alþjóðlegum mótum en vann alltaf sigra á Íslandsmótum þrátt fyrir það. Hann byrjaði aftur að æfa haustið 1990 og á meistaramóti Íslands 1991 setti hann svo sitt fyrsta Íslandsmet í þrjú ár. Hann ákvað þó að taka ekki þátt í stærstu alþjóðlegu mótunum, meðal annars Evrópumótinu, þar sem hann sagðist fyrst og fremst æfa til að halda sér í formi og hafa gaman af því. Hann keppti þó á nokkrum alþjóðlegum mótum og vann t.a.m. bronsverðlaun á Mare Nostrum-mótaröðinni árið 1992, í 200 metra baksundi (sterkasta mótaröð sem fram fer árlega í Evrópu).

Árið 1993 ákvað Eðvarð að hætta að keppa fyrir landsliðið, þá 26 ára gamall. Aftur á móti hefur hann keppt reglulega á bikarkeppnum og Íslandsmeistaramótum og varð síðast Íslandsmeistari árið 2003, þá 36 ára gamall.

Árið 1988 hóf Eðvarð þjálfaraferil sinn hjá sunddeild UMFN. Eðvarð tók við þjálfun sundliðs Selfoss árið 1993. Ári seinna fór hann að þjálfa í heimabyggð sinni, hjá Sunddeild Keflavíkur, þar sem hann þjálfaði unglingaflokka félagsins. Árið 1996 tók hann svo við eldri keppendum félagsins og ári seinna var hann jafnframt skipaður annar þjálfari unglingalandsliðsins í sundi. Hann hefur þjálfað síðan með góðum árangri og var meðal annars útnefndur afreksþjálfari unglinga 2005 af Sundsambandi Íslands.

Eðvarð þótti alla tíð samviskusamur íþróttamaður og var harður við æfingar. Það sem vakti sérstaka athygli við árangur Eðvarðs var að hann æfði alla tíð á Íslandi og var þjálfaður af Íslendingum, en flestir aðrir íslenskir íþróttamenn, sem náð hafa langt, hafa æft mikið erlendis og/eða fengið leiðsögn erlendra þjálfara.

Árangur Eðvarðs árið 1986:

19. janúar: Eðvarð vinnur bronsverðlaun í 100 og 200 metra baksundi á Golden Cup-mótinu í Strassbourg í Frakklandi. Hann lýsti því yfir eftir mótið að hann stefndi að því að vera meðal tíu bestu á árinu.

23. mars: Setur Íslandsmet í 100 m (1:05,28 mín.) og 200 m (2:20,72 mín.) bringusundi á innanhússmeistaramótinu í sundi í Vestmannaeyjum.

12.-13. apríl: Setur Íslandsmet í 100 m (56,30 sek.) og 200 m (2:01,90 mín.) baksundi í Kalottkeppninni í sundi sem fram fórí Finnlandi. Tímarnir, sem hann náði, hefðu dugað í 8. (100 m) og 12. sæti (í 200 m) á heimsafrekalista sundmanna.

24. maí: Nær 2. sæti í 200 m baksundi á alþjóðlegu móti í Mölndal í Svíþjóð. Hafnar í fjórða sæti í 100 m bringusundi á sama móti.

12. júní: Sigrar í 200 m baksundi á opna skoska meistaramótinu. Hafnar í 4. sæti í 200 m fjórsundi á sama móti.

5.-6. júlí: Eðvarð vinnur yfirburðasigur í keppnisgreinum sínum á meistaramóti Íslands í sundi.

19. ágúst: Kemst í úrslit í 200 m baksundi á heimsmeistaramótinu í Madrid. Þetta er besti árangur sem íslenskur sundmaður hafði náð fram að þessu. Setur auk þess Norðurlandamet, 2:03,03 mín., og verður þar með annar Íslendingurinn til að setja Norðurlandamet í sundi. Eðvarð varð áttundi í úrslitasundinu.

22. ágúst: Setur Íslandsmet í 100 m baksundi í B-úrslitum á heimsmeistaramótinu, 57,84 sek.

23. ágúst: Setur Íslandsmet í 200 m fjórsundi á heimsmeistaramótinu, 2:10,85 mín.

14. desember: Hafnar í þriðja sæti í 200 m baksundi í Evrópubikarkeppninni í Malmö á nýju Íslandsmeti.

28. desember: Setur Íslandsmet í 50 m flugsundi (26,62 sek.) og 50 m baksundi (26,99 sek.) á sundmóti Bylgjunnar í Sundhöll Reykjavíkur.

Tagged with: