Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar.

Á níunda áratug síðustu aldar náðu margir íslenskir knattspyrnumenn langt á erlendum vettvangi. Arnór Guðjohnsen náði ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni einna lengst á þessum tíma og frábær árangur hans á árinu 1987 varð til þess að hann var valinn íþróttamaður ársins. Hann náði þá einstakri þrennu með Anderlecht í Belgíu, að verða belgískur meistari, verða útnefndur besti leikmaður deildarinnar og verða markakóngur í deildinni.

Arnór Guðjohnsen fæddist árið 1961 á Húsavík og ólst þar upp. Faðir hans lék knattspyrnu með Völsungi, sem þá var í þriðju deild, og því lá beint við að Arnór færi í boltann líka. Snemma kom í ljós að hæfileikar hans voru miklir. Völsungar náðu oft ágætis árangri í yngri flokkunum með hann innanborðs.

Þegar Arnór var níu ára gamall flutti fjölskylda hans til Reykjavíkur og þá gekk hann til liðs við ÍR. Hann skipti síðan fljótlega í Víking þar sem hann hóf að æfa með fimmta flokki og varð Íslandsmeistari með þeim flokki.

Árið 1978 var árið sem allt gerðist hjá Arnóri. Hann vakti athygli erlendra útsendara þegar hann lék með unglingalandsliðinu í úrslitakeppni Evrópumótsins í Póllandi. Hann byrjaði að leika með meistaraflokki Víkings og skoraði töluvert fyrir liðið á Reykjavíkurmótinu. Hann var síðan valinn í 21 árs landsliðið og að lokum í A-landsliðshópinn en kom ekki inn á í leik með landsliðinu. Tvö belgísk félög höfðu samband við hann, Lokeren og Standard Liege, en Ásgeir Sigurvinsson lék þá með síðarnefnda liðinu. Svo fór að Arnór skrifaði undir samning við Lokeren, örskömmu eftir að sonur hans, Eiður Smári, fæddist.

Arnór var fljótur að venjast atvinnumennskunni og náði smám saman nauðsynlegum styrkleika. Í desember 1978 skoraði hann svo sín fyrstu mörk fyrir félagið, alls tvö, þegar Lokeren vann 3-1 sigur á FC Liege. Í kjölfarið fékk Arnór afar lofsamlega dóma fyrir frammistöðu sína og töldu menn þess ekki langt að bíða að hann næði jafnlangt í íþrótt sinni og Ásgeir Sigurvinsson. Það átti sannarlega eftir að koma á daginn. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik vorið 1979 og varð fljótlega eftir það fastamaður í landsliðinu.

Næstu tvö tímabil á eftir voru Arnóri erfið. Nýr þjálfari tók við og setti Arnór til hliðar. Var hann lengst af á bekknum en stóð sig jafnan vel þegar hann kom inn á. En 1981 var aftur skipt um þjálfara og sá gaf Arnóri strax tækifæri, sem hann greip. Gengi Arnórs með landsliðinu var einnig ágætt, en besti landsleikur hans var trúlega frægur jafnteflisleikur gegn Wales í Swansea, 2-2, þar sem Arnór lagði upp bæði mörk Íslands fyrir Ásgeir Sigurvinsson. Þá skoraði hann einnig mark Íslands í jafnteflisleik gegn Englendingum á Laugardalsvellinum 1982 og lagði upp mark Íslands í jafnteflisleik gegn Hollendingum sama ár á sama stað.

Arnór gekk til liðs við Anderlecht 1983 en ferill hans þar var ekki dans á rósum til að byrja með. Hann byrjaði tímabilið ágætlega og lék sex fyrstu leiki liðsins í deildinni en í september meiddist hann í landsleik gegn Írum og var frá fram í mars. Hann lék meðal annars í úrslitarimmu Anderlecht og Tottenham í UEFA-bikarnum, sem þá var leikinn bæði heima og heiman. Seinni leikurinn fór fram á heimavelli Tottenham. Hann endaði 1-1 eftir venjulegan leiktíma eins og fyrri leikurinn og fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Þar brenndi Arnór af síðustu spyrnu Anderlecht og þar með vann Tottenham titilinn.

Haustið 1984 sleit Arnór liðbönd í hné og átti í þeim meiðslum út það tímabil. Hann lék með landsliðinu um sumarið en eftir leik gegn Spánverjum haustið 1985 tóku meiðslin sig upp að nýju og hann varð að fara í annan uppskurð. Hann náði sér á strik í ársbyrjun 1986, lék vel fram eftir vori og varð belgískur meistari með félaginu.

Tímabilið 1986–87 var fyrsta tímabil Arnórs hjá Anderlecht sem hann slapp í gegnum án meiðsla. Og árangurinn lét ekki á sér standa. Arnór átti stórleiki með landsliðinu sem náði tveimur frábærum úrslitum á Laugardalsvellinum; 0-0 jafntefli gegn Evrópumeisturum Frakka og 1-1 jafntefli gegn Sovétmönnum, þar sem Arnór kom Íslendingum yfir. Tímabilið 1986–87 var frábært hjá Arnóri, hann skoraði hvert markið á fætur öðru og endaði tímabilið sem markakóngur og belgískur meistari, auk þess sem hann var kosinn besti leikmaður tímabilsins. Þessi árangur tryggði honum heiðursnafnbótina íþróttamaður ársins.

Tímabilið 1987-88 var Arnór reglulega settur út úr liðinu af nýjum þjálfara. Anderlecht-liðinu gekk ekki sem skyldi í deildinni en það varð bikarmeistari og átti Arnór stórleik í bikarúrslitaleiknum. Haustið 1988 byrjaði hann vel og skoraði grimmt, og tók þátt í landsleikjum Íslands, þar sem náðist frábært jafntefli gegn Sovétmönnum á Laugardalsvellinum og gegn Tyrkjum í Istanbul. En þá settu meiðslin strik í reikninginn og hann missti af helmingi tímabilsins af þeim sökum. Tímabilið 1989–90 var hins vegar afar farsælt. Hann lék sjálfur vel og Anderlecht komst í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa, en tapaði þar fyrir ítalska liðinu Sampdoria.

Anderlecht bauð svo Arnóri nýjan samning sem hann afþakkaði og í kjölfarið setti Anderlecht á hann himinhátt kaupverð sem fældi áhugasöm félög frá. Þá var honum bannað að æfa með félaginu. Það var ekki fyrr en í október að Arnór fann sér nýtt félag, Bordeaux í Frakklandi, þegar Anderlecht komst að samkomulagi um sölu á honum. Þá hafði hann ekki leikið annars staðar en með íslenska landsliðinu frá maílokum, eða í fimm mánuði.

Arnór var fastamaður í Bordeaux tímabilið 1990–91 og liðið hafnaði í 9. sæti í deildinni. Um sumarið var félagið dæmt til að leika í 2. deild vegna gjaldþrots en Arnór lék áfram með liðinu þrátt fyrir þetta. Betur gekk hins vegar með landsliðinu, en þetta ár tókst honum meðal annars að skora fjögur mörk í einum landsleik, vináttuleik gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum sem Íslendingar unnu 5-1. Í október þetta sama ár varð hann svo í fyrsta sinn fyrirliði landsliðsins, í leik gegn Kýpur.

Bordeaux vann sér sæti í efstu deild á ný 1992 en um sumarið dæmdi Alþjóðaknattspyrnusambandið hann aftur til Anderlecht þar sem Bordeaux hafði ekki staðið við greiðslur til belgíska félagsins. Í kjölfarið sagði Bordeaux upp samningnum við Arnór, sem tvö ár voru eftir af. Arnór ákvað að fara í mál við bæði félögin og voru þau síðar dæmd brotleg gagnvart honum.

Í ársbyrjun 1993 lánaði Anderlecht Arnór til sænska úrvalsdeildarliðsins Häcken en þeir voru nýliðar í deildinni. Þar gekk Arnóri vel, Häcken náði sjötta sæti og Arnór var útnefndur besti leikmaður deildarinnar af einu sænsku blaðanna. Í lok ársins var hann seldur til Örebro þar sem hann sló í gegn á fyrsta tímabili og var útnefndur besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum liðanna. Þar lék hann í fjögur ár og var jafnan besti leikmaður liðsins. Þá var hann kosinn besti útlendingurinn sem spilað hefði í sænsku úrvalsdeildinni frá upphafi.

Árið 1997 lék Arnór sinn síðasta landsleik en alls urðu þeir 73 og mörkin 14. Hann kom heim og gekk til liðs við Val sumarið 1998 og lék tvö tímabil með félaginu. Þá þjálfaði hann og lék með Stjörnunni í eitt ár en lagði svo skóna endanlega hilluna.

Árangur Arnórs 1987:

24. janúar: Arnór skorar tvö mörk í 5-3 sigri Anderlecht á Searing í belgísku 1. deildinni. Hann var þar með orðinn markahæstur í deildinni, með tíu mörk.

12. mars: Arnór er orðaður við þýska stórliðið Bayern München í belgískum fjölmiðlum. Hann sagðist sjálfur ekkert hafa heyrt.

22. mars: Arnór á stórleik og skorar tvö mörk þegar Anderlecht sigrar Lokeren 4-3 eftirað hafa lent 3-0 undir. Arnór er enn markahæstur í deildinni með 14 mörk og Anderlecht er efst í deildinni.

30. maí: Arnór verður belgískur meistari með Anderlecht eftir að liðið sigrar Berchem 5-0 á útivelli. Arnór skorar eitt markanna og tryggir sér þar með markakóngstitilinn hjá Anderlecht með 19 mörk.

4. júní: Arnór leikur með landsliði Íslendinga sem tapar stórt fyrirAustur Þjóðverjum 6-0 á Laugardalsvellinum í undankeppni EM.

16. júní: Arnór lýsir því yfir að hann verði áfram hjá Anderlecht. Hann hafði sterklega verið orðaður við þýska félagið Köln en Þjóðverjunum þótti Arnór of dýr.

17. júní: Arnór tekur þátt í fjáröflunarleik á Laugardalsvellinum og leikur þar með útlendingahersveitinni gegn heimavarnarliðinu. Leikurinn endar 7-7. Í leikhléi er Arnór sá eini sem nær að skora hjá Ungfrú Íslandi, Önnu Margréti Jónsdóttur, í vítakeppni meðbundið fyrir augu!

29. nóvember: Arnór skorar sigur mark Anderlecht í 3-2 sigri á Mechelen. Þetta var fyrsti sigur Anderlecht í nokkrar vikurog reyndar hafði liðið tapað þremur leikjum í röð fyrir þennan leik. Arnór hafði það sem af var tímabili ekki verið fastamaður í liði Anderlecht og hann hafði ásamt fleiri leikmönnum lent í rimmu við nýjan þjálfara, sem hafði sett sinn svip á tímabilið hjá félaginu.

6. desember: Arnór á stórleik, skorar eitt mark og leggur annað upp í 4-1 sigri Anderlecht á Racing Jet. Arnór sagði eftir leikinn að andrúmsloftið innan liðsins væri orðið mun betra en það var áður.

21. desember: Arnór skorar sigurmark Anderlecht í 3-2 sigri á Lokeren. Liðið er í fimmta sæti deildarinnar fyrir jólafrí.

Tagged with: