Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Á árunum 1984-89 var mikil gullöld í íslenskum handbolta og náði íslenska landsliðið frábærum árangri á mörgum alþjóðlegum mótum. Þetta skilaði sér hins vegarekki í efsta sætið í kjöri íþróttamanns ársins fyrr en árið 1989, og þá var það sigur í B-keppni heimsmeistaramótsins í Frakklandi sem varð til þess að handknattleiksmaður var kjörinn. Þrír efstu menn í kjörinu þetta árið voru í þessu liði en Alfreð varð á toppnum þar sem hann var kjörinn maður keppninnar.
Alfreð Gíslason fæddist árið 1959 og er borinn og barnfæddur Akureyringur. Hann byrjaði frekar seint að stunda handbolta, eða ekki fyrr en hann var orðinn 14 ára gamall. Þá hafði hann prófað greinar á borð við knattspyrnu, skíði og ísknattleik en það var í handboltanum sem hann fann sig og mat það fljótlega svo að hann gæti náð árangri í þeirri íþrótt. Það reyndist sannarlega vera raunin.
Þegar Alfreð byrjaði í handboltanum var íþróttin ekki nærri því eins stór grein í bæjarlífinu á Akureyri og hún varð síðar. KA spilaði þá í 2. deild og kannski fyrir vikið fékk Alfreð fljótt tækifæri með meistaraflokki, eða 16 ára gamall. Nítján ára var hann í fyrsta sinn valinn í 21 árs landsliðið og tók meðal annars þátt í heimsmeistaramóti 21 árs landsliða árið 1979 sem fram fór í Danmörku. Þar náðu Íslendingar sjötta sæti sem vakti mikla athygli.
Fljótlega eftir þetta var Alfreð valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn. Fyrsta stórmótið, sem hann tók þátt í með landsliðinu, var B-keppnin í Hollandi 1983. Í kjölfar þess sýndu erlend lið honum áhuga og þá um sumarið hófst atvinnumannsferill hans, þegar hann gekk til liðs við þýska liðið Essen. Síðan þá hefur hann átt glæstan feril í handboltanum á erlendum vettvangi með nokkrum hléum, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari.
B-keppnin gekk ekki sem skyldi hjá landsliðinu en í næstu stórmótum gekk betur. Íslendingar náðu meðal annars sjötta sæti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og voru þá meðal annars hársbreidd frá því að leggja Júgóslava að velli, sem svo hömpuðu Ólympíumeistaratitlinum. Sama sæti náðist svo á HM í Sviss 1986 og þar unnust tveir eftirminnilegir sigrar, á Rúmenum og Dönum. Liðið hafnaði hins vegar í áttunda sæti á Ólympíuleikunum í Seoul, sem olli vonbrigðum, og sá árangur varð til þess að landsliðið varð að taka þátt í B-keppni heimsmeistaramótsins, sem haldin var í Frakklandi í febrúar 1989.
Í B-keppninni small hins vegar allt saman og liðið vann mótið á eftirminnilegan hátt. Sá sigur þjappaði þjóðinni vel saman. Leikirnir voru í beinni sjónvarpsútsendingu hér á landi. Hápunktinum var sennilega náð í úrslitaleiknum en þar átti Alfreð sannkallaðan stórleik. Meðal annars skoraði hann mark úr horni, sem hann hefur annars ekki gert oft á ferlinum. Alfreð var síðan valinn besti leikmaður keppninnar, sem verður að teljast nokkuð afrek því að hann meiddist á öxl nokkrum vikum áður en keppnin hófst og var talið óvíst að hann gæti leikið neitt í henni.
Það er greinilegt að íþróttafréttamenn hafa talið þennan viðburð vera hápunkt íþróttalífsins hér á landi því að handknattleiksmenn, sem gerðu það gott í keppninni, röðuðu sér í þrjú efstu sætin. Kristján Arason varð annar í kjörinu og Þorgils Óttar Mathiesen, sem var fyrirliði landsliðsins, hafnaði í þriðja sæti. En valið á Alfreð sem manni mótsins gerði útslagið.
Segja má að Alfreð hafi verið fulltrúi þess liðs í kjörinu sem kom handboltanum hér á landi í aðra stöðu en hann hafði áður. Fyrir utan framangreindar þrjár kempur voru í þessu liði menn á borð við Einar Þorvarðarson, Guðmund Guðmundsson, Þorbjörn Jensson, Þorberg Aðalsteinsson, Bjarna Guðmundsson og Sigurð Gunnarsson, svo að fáeinir séu nefndir, og þetta lið hélt Íslandi í fremstu röð í handboltanum lengst af níunda áratug síðustu aldar.
Alfreð hætti með landsliðinu að loknu heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu árið 1990, rétt eins og flestir máttarstólpar liðsins. En síðar sama ár varð hann fjórði Íslendingurinn sem valinn var í heimsliðið í handknattleik. Árið eftir ákvað hann hins vegar að koma heim og ganga að nýju til liðs við KA sem spilandi þjálfari. Þar var hann næstu sex árin og átti KA-liðið afar góðu gengi að fagna á þeim tíma en fyrir þetta hafði KA aðeins fengið titla fyrir að vinna 2. deildina. Undir stjórn Alfreðs varð KA einu sinni Íslandsmeistari, einu sinni deildarmeistari og tvisvar bikarmeistari, og liðið var jafnan í fremstu röð á þessum árum.
Árið 1997 lagði Alfreð hins vegar land undir fót og gerðist þjálfari þýska liðsins Hameln og tveimur árum síðar tók hann við þjálfun Magdeburg. Hann var þar í sjö ár og stýrði liðinu bæði til sigurs í þýsku deildinni og í meistaradeild Evrópu.
Árið 2006 tók Alfreð svo við starfi landsliðsþjálfara og beið liðsins þá umspil gegn Svíum um sæti á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi árið 2007. Íslendingar slógu Svíana út á eftirminnilegan hátt og Alfreð stýrði liðinu á heimsmeistaramótinu, þar sem liðið hafnaði í áttunda sæti. Hann tók svo haustið 2007 við starfi þjálfara Gummersbach þannig að enn sér ekki fyrir endann á ferli hans sem þjálfara.
Sem íþróttamanni var honum jafnan lýst sem manni með gífurlega hörku og sjálfsaga, eins og hann á kyn til því að hann er kominn af miklu íþróttafólki og bræður hans eru allir þekktir íþróttamenn. Alfreð spilaði jafnan sem rétthent skytta og stundum sem leikstjórnandi en hann var einnig mjög sterkur í vörn. Þessir eiginleikar hans hafa gert það að verkum að hann hefur náð langt sem þjálfari og meðal annars leitt Magdeburg í tvígang til sigurs í Evrópukeppni, auk þess sem hann náði frábærum árangri með íslenska handboltalandsliðið.
Árangur Alfreðs 1989
19.-26. febrúar: Íslenska landsliðið sigrar í B-keppni heimsmeistaramótsins sem fram fórí Frakklandi. Alfreð átti stóran þátt í góðu gengi landsliðsins og fór á kostum í úrslitaleiknum gegn Pólverjum, þar sem hann skoraði sjö mörk. Síðasta markið hans þar var 500. mark hans fyrir landsliðið. Það var þó einkum frammistaða hans í vörninni sem varð til þess aðhann var kjörinn. Hann lýsti því yfir í viðtali að leik loknum að hann væri hætturmeð landsliðinu en hélt svo áfram í ár til viðbótar, fram yfir heimsmeistaramótið í Tékkóslóvakíu.
22. apríl: Kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins í handknattleik af leikmönnum og þjálfurum liða á mótinu. Lið Alfreðs, KR, varðí öðru sæti í deildinni, sem var besti árangur félagsins í langan tíma.
9. maí: Tilkynnt að Alfreð muni leika með Bidasoa á Spáni á næsta tímabili en áður hafði hann ætlað sér að koma heim til frambúðar. Fjöldi liða hafði þá sýnt honum áhuga, bæði í Þýskalandi og á Spáni.
26. nóvember: Alfreð skorar 14 mörk fyrir Bidasoa sem tapar fyrir Alicante með einu marki. Hann þótti ná vel saman viðleikstjórnandann, Bogdan Wenta, sem var þá einn besti handknattleiksmaður heims.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



