Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Bjarni Friðriksson júdómaður er einn þriggja Íslendinga sem komist hefur á verðlaunapall á Ólympíuleikunum. Hann var í fremstu röð í heiminum í sinni grein. Hann var reyndar ekki valinn íþróttamaður ársins árið sem hann komst á pall á leikunum og óhætt er að segja að deilurnar um kjörið hafi aldrei verið eins miklar og þá.
Bjarni er fæddur árið 1956 og ólst upp í Reykjavík. Hann byrjaði seint að stunda júdó að einhverju marki, fór reyndar á tvær æfingar þegar hann var 10 ára en fór svo ekki að stunda sportið reglulega fyrr en tíu árum síðar. Eftir það lá leiðin stöðugt upp á við. Hann keppti á sínu fyrsta Íslandsmóti 1977, þegar hann hafði aðeins æft í eitt ár, og náði þá öðru sæti í sínum þyngdarflokki. Þessi frammistaða vakti mikla athygli. Hann varð svo Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sínum þyngdarflokki árið 1978 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í opnum flokki 1979. Fljótlega upp úr því fór hann að ná góðum árangri á alþjóðlegum mótum. Þarna hófst einnig nánast óslitin sigurganga hans á mótum hér heima. Bjarni vann sitt fyrsta mót erlendis árið 1980 þegar hann sigraði í sínum þyngdarflokki á opna skandinavíska meistaramótinu.
Bjarni keppti á fyrstu Ólympíuleikum sínum í Moskvu 1980 og náði þar bestum árangri íslenskra keppenda, þegar hann hafnaði í 7.–8. sæti í –95 kg flokki, og var reyndar hársbreidd frá því að komast í fjögurra manna úrslit. Þá þegar var hann kominn í hóp bestu jódómanna Evrópu. Bjarni varð Norðurlandameistari í sínum flokki í fyrsta sinn árið 1982 og vann þá alla andstæðinga sína með fullnaðarsigri. Þá fór hann einnig að ná góðum árangri á sterkum mótum í Evrópu, meðal annars opna breska og opna hollenska mótinu.
Hátindur ferils Bjarna var 1984, þegar hann hlaut bronsverðlaun í 95 kg flokki á Ólympíuleikunum í Los Angeles, og varð þá aðeins annar Íslendingurinn til að ná því marki. Bjarni sat hjá í fyrstu umferð en í annarri umferð mætti hann Dananum Carsten Jensen, en þeir glímdu oft hvor við annan. Bjarni vann hann á ippon eftir rúmlega þriggja mínútna glímu. Næst glímdi Bjarni við Bandaríkjamanninn Leo Withe sem hafði fyrr á leikunum unnið Robert Van De Walle, fyrrverandi Ólympíumeistara. Bjarni lagði Withe á snjöllu bragði eftir að viðureignin hafði verið í járnum lengi vel. Síðan glímdi Bjarni við Brasilíumanninn Douglas Viera. Bjarni tapaði þeirri glímu naumlega en hann hafði meðal annars verið hársbreidd frá því að vinna fullnaðarsigur, þegar hann í gólfglímu náði armlás á andstæðingi sínum, en var þá rétt kominn út fyrir völlinn og glíman því stöðvuð. Ef Bjarni hefði unnið þessa glímu hefði hann glímt um gullverðlaun á leiknunum. Þess í stað glímdi hann um bronsverðlaun við Ítalann Yuri Fazi og vann eftir að hafa náð honum í armlás í lok glímunnar. Bronsverðlaunin voru þar með í höfn.
Eins og nánar er greint frá annars staðar í bókinni dugði afrekið Bjarna þó ekki til að verða valinn íþróttamaður ársins – Ásgeir Sigurvinsson hreppti það hnoss fyrir frammistöðu sína með Stuttgart í Þýskalandi. Þetta var mjög umdeilt og var skrifað um það í blöðin langt fram á mitt næsta ár á eftir. Bjarni hélt hins vegar sínu striki og hver titill á fætur öðrum kom í hús hjá honum. Muna margir eftir rimmum hans og Sigurðar Bergmann en þeir áttust iðulega við í úrslitaviðureigninni í opnum flokki á Íslandsmótinu og hafði Bjarni þar yfirleitt betur. Bjarni keppti meðal annars á tvennum Ólympíuleikum til viðbótar. Árið 1988 í Seoul varð hann í 9. sæti í 95 kg flokki og í Barcelona 1992 féll hann úr keppni í fyrstu umferð.
Árið 1989 var í raun besta ár Bjarna að frátöldu bronsárinu á Ólympíuleikunum. Þar náði hann meðal annars þeim árangri að verða í fimmta sæti í opnum flokki á Evrópumeistaramótinu, en hann var eini léttvigtarmaðurinn sem keppti í flokknum og glímdi við menn sem voru 30–40 kg þyngri en hann. Hann tapaði þá viðureigninni um bronsverðlaunin á dómaraúrskurði þar sem hvorugum keppanda tókst að skora eftir fullan glímutíma.
Árið, sem Bjarni var valinn íþróttamaður ársins, 1990, vann hann silfurverðlaun í +95 kg flokki á opna breska meistaramótinu, sem var þá næststerkasta mótið í Evrópu á eftir sjálfu Evrópumeistaramótinu. Hann var aðeins 300 g of þungur til að keppa í –95 kg flokki. Bjarni tapaði úrslitaglímunni fyrir Frakkanum David Douillet sem varð síðar þrefaldur heimsmeistari, fyrst 1993, og tvöfaldur Ólympíumeistari. Hann hafnaði í sjöunda sæti á Evrópumeistaramótinu þetta ár. Þá vann hann sigur í sínum þyngdarflokki á Matsumaemótinu í Kaupmannahöfn og lagði þá meðal annars þrjá japanska keppendur. Hann vann einnig gullverðlaun bæði í sínum flokki og í opna flokknum á opna Norðurlandamótinu. Af öðrum afrekum á alþjóðavettvangi má nefna sjöunda sæti á heimsmeistaramótinu 1989 og sigur hans á heimsbikarmóti í Hollandi árið 1992, sem hann taldi þá vera sterkasta mót sem hann hefði sigrað á. Þetta sama ár var Bjarni í 2. sæti á öðru heimsbikarmóti í Austurríki en heimsbikarmótin gefa stig til þátttökuréttar á Ólympíuleikum. Bjarni tapaði þar í úrslitum gegn Miguel Aurelio frá Brasilíu, Ólympíumeistara frá 1988.
Bjarni var í fremstu röð í íþrótt sinni hér á landi þar til hann hætti keppni á alþjóðavettvangi árið 1993 að loknu heimsmeistaramótinu í Kanada, en þá hafði hann keppt í sautján ár. Það mót gekk ekki sem skyldi, hann varð í níunda sæti í -95 kg flokki og féll úr leik í fyrstu glímu í opnum flokki. Á sínu síðasta Íslandsmóti, sem hann tók þátt í þetta ár, náði Bjarni þeim árangri að verða Íslandsmeistari í opnum flokki fimmtánda árið í röð. Hann lýsti því yfir að þetta væru síðustu Íslandsmót og alþjóðleg mót sem hann tæki þátt í. Íþróttin togaði samt í hann og hann tók þátt í Íslandsmótunum 1995 og 1996 og keppti fyrra árið bæði í -95 kg og opnum flokki en seinna árið eingöngu í opnum flokki. Hann vann -95 kg flokkinn en tapaði opna flokknum í bæði skiptin á dómaraúrskurði. Hann var hársbreidd frá því að komast á Ólympíuleikana í Atlanta 1996; varð í 12. sæti á Ólympíuröðunarlista Evrópu í -95 kg flokki en aðeins 9 keppendur frá Evrópu í hverjum þyngdarflokki fá keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Auk Íslandsmeistaratitla vann Bjarni fimm sinnum til gullverðlauna á Norðurlandamótum.
Bjarni var gríðarlega sterkur íþróttamaður og var hann hvað frægastur fyrir það að þegar hann kom andstæðingi sínum í gólfið var vonlaust fyrir andstæðinginn að losna úr heljargreipum hans. Hann var einnig brögðóttur og útsjónarsamur en jafnframt leikinn og með mikla tækni.
Bjarni er enn að og árið 2006 varð hann Evrópumeistari í flokki 50–54 ára á fyrsta opinbera Evrópumóti öldunga í íþróttinni.
Helstu afrek Bjarna 1990:
28. janúar: Bjarni vinnur tvöfaldan sigur á afmælismóti Júdósambands Íslands. Hann sigrar bæði í þungavigt og opnum flokki og í báðum flokkum sigraði hann Sigurð Bergmann í úrslitaleik.
18. febrúar: Bjarni sigrar í -95 kg flokki á Matsumaemótinu í Kaupmannahöfn. Hann vinnur meðal annars þrjá sterka japanska júdómenn á mótinu.
24. febrúar: Bjarni fellur úr leik eftir fyrstu glímu á opna, vestur-þýska meistaramótinu.
11. mars: Bjarni hafnar í 5. sæti í -95 kg flokki á alþjóðlegu móti í Prag í Tékkóslóvakíu (nú Tékklandi). Hann tapar naumlega glímu um bronsið.
25. mars: Bjarni sigrar í opnum flokki á Meistaramóti Íslands í júdó, og aftur vann hann Sigurð Bergmann í úrslitaglímu.
8. apríl: Bjarni vinnur til silfurverðlauna á opna breska meistaramótinu í júdó. Hann vinnur þrjár viðureignir til að komast í úrslitabardaganum sem hann tapaði svo að loknum löngum bardaga.
15. apríl: Norðurlandamótið í júdó fer fram í Finnlandi. Bjarni getur hins vegar ekki tekið þátt í mótinu og varið Norðurlandameistaratitil sinn vegna fjárskorts.
29. apríl: Bjarni sigrar í -95 kg flokki á opna skoska meistaramótinu. Hann vinnur alla andstæðinga sína á ippon, eða fullnaðarsigri.
10. maí: Bjarni kemst í undanúrslit í -95 kg flokki á Evrópumeistaramótinu í júdó sem fram fer í Frankfurt í Þýskalandi.
18. nóvember: Bjarni hlýtur silfurverðlaun í -95 kg flokki á opna norska meistaramótinu sem fram fer í Osló.
25. nóvember: Bjarni sigrar í opnum flokki og í -95 kg flokki á opna skandinavíska meistaramótinu í Vejen á Jótlandi.
6. desember: Bjarni er í hópi þeirra íþróttamanna sem heiðraðireru af ÍSÍ fyrir góða frammistöðu á árinu.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



