Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Ragnheiður Runólfsdóttir sundkona varð aðeins önnur konan til að hljóta sæmdarheitið íþróttamaður ársins árið 1991. Hún var í fremstu röð íslenskra sundkvenna í um áratug.

Ragnheiður fæddist árið 1966 og ólst upp á Akranesi. Þar var hún mikið í sundlauginni í barnæsku enda móðir hennar dugleg að fara með hana í sund. Þá var Bjarnarlaug eina sundlaugin á Akranesi og hún var aðeins 12,5 metrar. Þegar Ragnheiður var farin að losa sig af baki mömmu sinnar og synda sjálf vakti hún athygli sundkennara á staðnum og hann skráði Ragnheiði í sunddeild ÍA. Ragnheiður hefur ávallt eignað foreldrum sínum stóran hluta í árangri sínum enda sáu þau um að kosta hana að stærstum hluta.

Þegar Ragnheiður byrjaði að æfa voru engin augljós teikn á lofti um að hún myndi ná árangri sem þætti góður á alþjóðavettvangi. Í upphafi níunda áratugarins náði hún ágætum árangri á mótum hér á landi í bringusundi og baksundi og setti meðal annars nokkur Íslandsmet í baksundi, bringusundi og fjórsundi.

Þegar Ragnheiður nálgaðist tvítugt fór hún að taka töluverðum framförum en á þeim tíma hóf hún að æfa erlendis samhliða námi. Árið 1984 fór hún í lýðháskóla í Svíþjóð þar sem námið og æfingarnar voru skipulagt saman. Sama ár fluttist hún svo til Kanada þar sem hún dvaldi í tvö ár en kom þó heim á sumrin til æfinga. Á þessum árum fór Íslandsmetum, sem hún setti, að fjölga ört og um miðjan áratuginn fór hún að keppa á alþjóðlegum mótum. Á Ólympíuleikunum í Seoul 1988 keppti hún í þremur greinum og setti tvö Íslandsmet. Hún náði meðal annars 23. sæti í 100 m bringusundi, sem var þá besta sæti sem íslenskur sundmaður hafði náð á Ólympíuleikum. Í kjölfarið fékk hún svo boð frá háskólanum í Alabama um að stunda nám við skólann og keppa þar og þar dvaldi hún í 3–4 ár.

Þetta voru bestu ár Ragnhildar í sundinu. Meðal annars náði hún fimmta sæti í 100 m bringusundi á Evrópumeistaramótinu innanhúss á Spáni árið 1989. Árangurinn, sem hún náði þá, kom henni meðal annars í ellefta sæti á heimslistanum í greininni. Lengst náði hún þó árið 1991, árið sem hún var kjörin íþróttamaður ársins. Hún varð sjöunda í 100 m bringusundi á EM í Aþenu og níunda í 200 m bringusundi. Þá vann hún fimm gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun á Smáþjóðaleikunum í Andorra og setti alls sjö Íslandsmet á árinu. Stefnan var þó sett enn hærra á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, eða að komast í A-úrslit og verða þar með meðal átta efstu manna í sínum greinum. Það gekk ekki eftir. Hún hafnaði í 19. sæti í 100 m bringusundi og í 27. sæti í 200 m bringusundi. Þó að hún hefði hækkað sig í sætum frá síðustu leikum olli þessi árangur vonbrigðum. Til stóð að hún myndi hætta að keppa á mótum erlendis að loknum leikunum og um haustið réði hún sig sem þjálfara hjá ÍA.

Í ársbyrjun 1993 lýsti Ragnheiður því hins vegar yfir að hún stefndi á að keppa á alþjóðlegum mótum það ár, meðal annars Smáþjóðaleikunum og Evrópumótinu. Þau áform gengu hins vegar ekki eftir vegna þjálfarastarfsins. Í kjölfarið ákvað Ragnheiður að hætta alveg keppni og einbeita sér að þjálfuninni. Hún réði sig til Aftureldingar haustið 1993 og var þar í tvö ár en tók svo við þjálfarastarfi hjá sundfélaginu Óðni á Akureyri 1995. Árið síðar fór hún svo að þjálfa í Reykjanesbæ, þar sem hún starfaði í eitt og hálft ár. Í ársbyrjun 1998 hóf hún svo störf í útgerðarfyrirtæki föður síns á Akranesi en hefur samhliða því starfi sinnt unglingaþjálfun hjá ÍA og var meðal annars kjörin unglingaþjálfari ársins af Sundsambandi Íslands árið 2006.

Ragnheiður hætti þó ekki alveg keppni heldur var með á svokölluðum Garpasundmótum, en þar er átt við sundmenn 25 ára og eldri. Um mitt ár 1997 var hún til að mynda í fremstu röð í heiminum í þeirra hópi í 50 og 100 m bringusundi.

Ragnheiður þótti góður sundmaður tæknilega, sérstaklega í bringusundi, en hún setti einnig Íslandsmet í baksundi og fjórsundum. Þessi tækni sem hún bjó yfir fleytti henni hvað lengst í keppni. Hún var mjög keppnishörð þegar hún var komin í keppni, er skapgóð og góð í að umgangast fólk en er hörkutól þegar á hólminn er komið.

Íslandsmetin, sem Ragnheiður setti á ferlinum, stóðu mörg hver lengi og standa enn síðla árs 2007 þegar þessi orð eru sett á blað. Hún á enn öll Íslandsmetin í bringusundi nema eitt. Öll metin í 25 metra braut eru síðan 1989 og öll metin í 50 metra braut síðan 1991 og 1992.

Árangur Ragnheiðar 1991:

9. apríl: Ragnheiður setur nýtt Íslandsmet í 100 m bringusundi á sundmóti í Kanada. Hún syndir á 1:10,90 sek. og bætir eigið met um tæplega eina og hálfa sekúndu.

18. maí: Ragnheiður vinnur besta afrekið í kvennaflokki á Stórmarkaðsmótinu í sundi í Keflavík. Hún syndir þar 200 m bringusund á 2:41,23 mín.

22.–26. maí: Ragnheiður hlýtur flest verðlaun íslenskra keppenda á Smáþjóðaleikunum sem fram fara í Andorra. Hún vinnur alls til fimm gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna.

14. júní: Ragnheiður hafnar í fimmta sæti í 200 m bringusundi á alþjóðlegu sundmóti í Frakklandi. Hún syndir á 2:39,25 mín., tæplega fjórum sekúndum frá Íslandsmeti sínu.

16. júní: Ragnheiður hafnar í fjórða sæti í 100 m bringusundi á alþjóðlegu sundmóti í Frakklandi. Hún syndir á 1:13,84 mín. sem er 1,5 sekúndum frá Íslandsmeti hennar.

23. júní: Ragnheiður vinnur til fjögurra gullverðlauna á alþjóðamóti Sundfélagsins Ægis í Laugardalslaug.

20.–21. júlí: Ragnheiður sigrar í 100 bringusundi og 200 m baksundi á Meistaramóti Íslands í sundi. Hún setur nýtt Íslandsmet í baksundinu, 2:27,65 mín., og nær lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramótið í 100 m bringusundi. Fyrir síðarnefnda sundið fékk hún Páls og Kolbrúnarbikarinn fyrir besta afrek mótsins.

22. ágúst: Ragnheiður hafnar í sjöunda sæti í 200 m bringusundi á Evrópumeistaramótinu í Aþenu. Hún tvíbætir Íslandsmetið í greininni og það stendur í 2:34,08, sem er tæpum tveimur sekúndum betra en gamla metið. Þetta er þriðji besti árangur Íslendings á Evrópumóti í sundi frá upphafi.

23. ágúst: Ragnheiður hafnar í níunda sæti í 100 m bringusundi á sama móti og setur nýtt Íslandsmet, 1:11,89 mín. Hún er aðeins einu sæti frá því að komast í A-úrslit í sundinu.

Tagged with: