Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Sigurður Einarsson var ásamt Einari Vilhjálmssyni í fremstu röð spjótkastara í heiminum á níunda áratugnum og byrjun þess tíunda. Fimmta sætið á Ólympíuleikunum tryggði honum sæmdarheitið íþróttamaður ársins 1992, en það var þá besti árangur íslensks frjálsíþróttamanns á Ólympíuleikum frá 1956.
Sigurður er fæddur árið 1962 og ólst upp í Garðabæ og á Selfossi. Hann var í íþróttum frá tíu ára aldri og byrjaði eins og svo margir aðrir í flestum íþróttum, þ.m.t. frjálsum, sundi, blaki, handbolta, knattspyrnu og körfuknattleik. Hann byrjaði að æfa spjótkast 13 ára gamall og þá keppti hann á sínu fyrsta móti í spjótkasti. Þar náði hann góðum árangri og var aðeins einum metra frá Íslandsmetinu í sínum aldursflokki. Það vakti áhuga hjá honum á að reyna að verða afreksmaður í spjótkasti.
Sigurður hafði jafnan mikla yfirburði í spjótkasti á meistaramótum í sínum aldursflokki. Árið 1979 kastaði hann spjótinu fyrst yfir sjötíu metra en þá dvaldi hann við æfingar í San Jose í Bandaríkjunum. Árið eftir, 1980, lýsti hann því yfir að hann stefndi að því að slá Íslandsmet Óskars Jakobssonar, 76,32 m, sem hann setti árið 1977. Þá var hann kominn í hóp tíu bestu unglinga í heiminum í greininni, en besta kast hans það ár var 74,76 metrar.
Næstu tvö ár átti Sigurður hins vegar erfitt uppdráttar, einkum vegna meiðsla í olnboga, og þá hvarflaði að honum að hætta keppni. Honum bauðst hins vegar skólastyrkur frá háskólanum í Alabama í Bandaríkjunum haustið 1982 og flutti hann þangað í ársbyrjun 1983. Það ár bætti hann árangur sinn og kastaði lengst 79,64 m. Þá töluðu menn um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær honum tækist að kasta yfir 80 metra. Sigurður var þá fluttur til Bandaríkjanna og var við nám í Alabama auk þess að keppa á háskólamótum fyrir hönd skólans sem hann var í. Íslandsmetið hafði honum þó ekki tekist að bæta. Einar Vilhjálmsson var þá farinn að kasta hátt í níutíu metra. Sigurður náði því marki árið eftir og gott betur þegar hann kastaði 82,76 metra snemma á því ári. Hann náði lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 en þar náði hann sér ekki á strik, kastaði rétt tæpa 70 metra og komst ekki í úrslit. Það að komast á leikana kveikti enn meira í Sigurði þó að árangurinn hafi ekki verið upp á það besta.
Hann hélt áfram að taka framförum árið 1985 og nálgaðist 90 metrana óðfluga. Lengst kastaði hann 87,80 metra og vakti það athygli víða að litla Ísland væri að eignast tvo spjótkastara sem gætu kastað um 90 metra. Sigurður náði þó aldrei að kasta svo langt áður en spjótunum var breytt, en það var gert til að stytta köstin. Hann var fljótur að ná góðum tökum á nýja spjótinu og var með þeim betri í að kasta því framan af ári en síðan náðu fleiri smám saman valdi á spjótinu. Hann kastaði lengst 79,74 metra með nýja spjótinu á árinu 1986 sem var 22. besti árangurinn í heiminum það ár. Það var Íslandsmet þangað til Einari Vilhjálmssyni tókst að vera fyrstur á Íslandi til að kasta spjótinu yfir 80 metra síðar á árinu. Sigurður tók þátt í Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Stuttgart þetta ár en komst ekki í úrslit.
Sumarið 1987 kastaði Sigurður nýja spjótinu í fyrsta sinn yfir 80 metra en lítið fór fyrir afrekum af hans hálfu að öðru leyti og honum mistókst meðal annars að komast í úrslit á heimsmeistaramótinu í Róm. Árið 1988 mistókst honum einnig að komast í úrslit á Ólympíuleikunum en hann var mikið frá vegna meiðsla á því ári.
En árið 1989 reyndist Sigurði sérstaklega gjöfult og var að hans eigin mati besta árið á ferlinum hjá honum. Þá endaði hann í þriðja sæti á Grand Prix-mótaröðinni í spjótkasti, sem er stigakeppni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Hann keppti alls á sex slíkum mótum og varð í 2. og 3. sæti á þeim öllum. Hann kastaði að meðaltali rúmlega 81 m á mótunum og endaði í þriðja sæti á heimslistanum í greininni. Í kjölfarið var Sigurður valinn í Evrópuúrvalið sem keppni á heimsbikarmótinu í frjálsum íþróttum, þar sem áttust við úrvalslið frá öllum heimsálfum. Þar var hann hins vegar langt frá sínu besta. Þessi árangur Sigurðar féll hins vegar í skuggann af sigri íslenska landsliðsins í B-keppni heimsmeistaramótsins það ár. Sigurður varð reyndar aðeins í áttunda sæti í kjörinu sem mörgum þótti illskiljanlegt. Besti árangur Sigurðar á árinu var 82,82 metrar sem var tólfti besti árangurinn í heiminum það ár. Þess má geta að Einar Vilhjálmsson hafnaði í fimmta sæti í þessari mótaröð og töldu margir það með ólíkindum að tveir spjótkastarar frá litla Íslandi væru meðal fimm efstu manna í stigakeppninni.
Sigurði tókst ekki að fylgja þessum árangri eftir. Hann neyddist til að skipta um spjót eftir að spjótið sem hann var með var bannað á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Split í Júgóslavíu. Hann varð sautjándi á því móti og komst ekki í úrslit. Árin 1991 og 1992 gekk honum betur og þá tókst honum loks að ná góðu sæti á stórmótum. Árið 1991 hafnaði hann í sjötta sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Japan með kast upp á 83,46 m. Lengsta kast Sigurðar það ár var 84,94 metrar en sá árangur var svo strikaður út eftir að Alþjóðafrjálsíþróttasambandið ákvað að banna alfarið spjót með gáróttri áferð, og þar með strikaðist út allur árangur sem náðst hafði með því.
Árið 1992 náði Sigurður ekkert sérstökum árangri framan af og um tíma leit út fyrir að hann næði ekki lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Barcelona það ár. Hann náði því hins vegar á síðustu stundu, kom svo sterkur til keppni á leikunum og hafnaði í fimmta sæti, kastaði þá 80,18 metra. Það má því með sanni segja að hann hafi toppað á réttum tíma á því ári en hann hafði þá stefnt að því í 13–14 ár að komast langt og verða meðal þeirra bestu á stórmóti. Lengsta kast Sigurðar á árinu var 83,32 metrar sem dugði honum í 13.–14. sæti á heimslistanum.
Árið eftir mistókst Sigurði að komast í úrslit heimsmeistaramótsins í Stuttgart og ekki tókst það heldur á Evrópumótinu í Helsinki 1994. Hann náði hins vegar 80,78 metra kasti á Reykjavíkurleikunum þetta ár. Hann komst heldur ekki í úrslit á heimsmeistaramótinu í Gautaborg 1995. Þrátt fyrir þessar ófarir var stefnan sett á Ólympíuleikana í Atlanta 1996. Hann hafði náð Alágmarki á leikana en var tekinn úr hópnum eftir að Ólympíunefnd krafðist þess að hann næði lágmarkinu aftur 3 vikum fyrir leikana. Þeim fáu mótum, sem haldin voru á þessum tíma, var annaðhvort aflýst eða hætt vegna veðurs, en Sigurður hafði keppt mjög lítið á árinu vegna þrálátra meiðsla. Hann hætti keppni í spjótkasti árið eftir.
Árangur Sigurðar 1992:
14. júní: Sigurður kastar 78,46 m í aukakeppni í spjótkasti á fyrri hluta meistaramóts Íslands.
19. júní: Sigurður er nálægt því að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana þegar hann keppir sem gestur í landskeppni Breta og Kenýa í Edinborg. Sigurður kastar 78,88 m.
25. júní: Sigurður kastar 79,56 m á móti í Kaupmannahöfn.
28. júní: Sigurði tekst ekki að ná Ólympíulágmarkinu á móti á Ítalíu.
30. júní: Sigurður kastar 76,92 m á Grand Prixmóti í Helsinki.
5. júlí: Sigurður kastar 83,32 m í aukakeppni í spjótkasti á meistaramóti Íslands og nær þar með Ólympíulágmarkinu. Hann hafði kastað 77,92 m í aðalkeppni mótsins. Sigurður fær árangurinn viðurkenndan af íslensku Ólympíunefninni eftir að hún hafði tekið málið sérstaklega fyrir.
7. ágúst: Sigurður hafnar í ellefta sæti í undankeppni Ólympíuleikana, kastar 79,50 m. Það dugir til að komast í úrslit í greininni.
8. ágúst: Sigurður nær fimmta sæti í spjótkastkeppni Ólympíuleikanna í Barcelona. Hann kastar þar 80,34 m.
16. ágúst: Sigurður kastar 77,52 m í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands og er annar á eftir Einari Vilhjálmssyni.
24. ágúst: Sigurður kastar 77,86 m á móti á nýuppgerðum Laugardalsvelli.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



