Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Sigurbjörn Bárðarson bar áratugum saman höfuð og herðar yfir aðra íslenska hestaíþróttamenn. Árið 1993 var með hans betri árum þar sem hann vann meðal annars til þriggja heimsmeistaratitla.
Sigurbjörn er fæddur í Reykjavík árið 1952. Hann var tíu ára gamall þegar áhugi hann kviknaði á hestum í sveit. Þegar kom að fermingunni var áhuginn orðinn það mikill að hann lét þau boð út ganga að hann vildi fá smá peninga í stað hluta svo að hann gæti safnað sér fyrir hesti.
Og það var fljótlega upp úr þessu, eða árið 1966, að Sigurbjörn hóf keppni á mótum enda hefur hann alltaf verið keppnismaður í sér. Á þeim árum voru kappreiðar algengastar þar sem menn hleyptu á stökki, skeiði og brokki. Fóru kappreiðar meðal annars fram á höfuðborgarsvæðinu á svæði Fáks, þar sem Sprengisandur er núna. Þessar kappreiðar vöktu mikinn áhuga, voru vel sóttar og með mestu viðburðum landsins, þar sem fleiri þúsund manns mættu til að fylgjast með keppninni. Strax um tvítugt var Sigurbjörn farinn að sópa til sín verðlaunum á helstu hestamannamótum, hvort sem var í kappreiðum eða sýningum, og var kominn í fremstu röð meðal knapa landsins.
Um miðjan áttunda áratuginn hóf Sigurbjörn svo keppni á íslenska hestinum erlendis en þá var hróður hans farinn að berast víða, enda íslenski hesturinn orðinn útbreiddur út um allan heim. Um þetta leyti fór Sigurbjörn einnig að einbeita sér meira að gæðingum en hann hafði fram að því verið fyrst og fremst í kappreiðum. Árið 1977 tók Sigurbjörn þátt í Evrópumóti íslenska hestsins í fyrsta sinn og varð hann þá fjórði stigahæsti knapi mótsins, sem var haldið í Skiveren á Vestur-Jótlandi í Danmörku og 1981 varð hann í fyrsta sinn stigahæstur á Evrópumóti, sem þá fór fram í Larvik í Noregi og vann til þrennra gullverðlauna. Hann var þá orðinn virtur tamningamaður og knapi og sópaði til sín verðlaunum á öllum sviðum hestamennskunnar.
Sigurbjörn stundaði einnig mikið að koma íslenska hestinum á framfæri erlendis. Hann tók meðal annars þátt í uppsetningu á stórsýningum á íslenskum hestum í Madison Square Garden í New York árin 1985 og 1986, þar sem hestarnir vöktu mikla athygli.
Ein stærsta stundin á ferli Sigurbjörns var árið 1987, þegar hann varð heimsmeistari í tölti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Austurríki og vann þar með tölthornið. Þá hafði Evrópumótinu verið breytt í heimsmeistaramót. Þjóðverjar höfðu fram að þessu unnið þennan titil á heimsmeistaramótum og var því mikið fagnað þegar þessi titill var í höfn. Hér á landi náði hann líka sögulegum árangri að ýmsu leyti. Sama ár og hann vann tölthornið sigraði hann í tölti á Íslandsmótinu með það miklum yfirburðum að allir dómararnir settu hann í fyrsta sætið hvort sem var fyrir hægt tölt, hraðabreytingar eða yfirferð, og það hafði aldrei gerst áður. Jafnframt vann hann alla Íslandsmeistaratitlana að einum undanskildum. Og þetta ár, 1987, markaði tímamót hjá hestaíþróttinni að öðru leyti. Lögð voru drög að stofnun nýs sérsambands um hestaíþróttina sem yrði hluti af Íþróttasambandi Íslands. Það var stofnað tveimur árum síðar og hlaut nafnið Hestaíþróttasamband Íslands. Þar með varð hestamennska hluti af íþróttahreyfingunni og hestamenn urðu gjaldgengir í kjörinu á íþróttamanni ársins. Þetta jók virðingu hestaíþróttarinnar og ýmsar leiðir opnuðust sem áður voru lokaðar.
Í byrjun tíunda áratugarins bætti Sigurbjörn enn í og verðlaunum hans á mótum hér heima fjölgaði. 1992 vann hann til dæmis til 14 gullverðlauna á árlegu verslunarmannahelgarmóti á Vindheimamelum og varð fyrstur til að verða Íslandsmeistari í tölti í þrígang. Þannig var það einmitt árið 1993, árið sem Sigurbjörn fékk þessa viðurkenningu. Hann náði þremur heimsmeistaratitlum í Hollandi, einum silfurverðlaunum og níu Íslandsmeistaratitlum, auk fjölda annarra verðlauna.
Eftir þetta ár dró aðeins úr verðlaunasöfnun Sigurbjörns á mótum, þó að hann ynni áfram til fjölda verðlauna, en það var ekki lengur sjálfgefið að hann ynni á Íslandsmóti greinar á borð við tölt, fjórgang og skeið. Á næstu tveimur heimsmeistaramótum varði hann til að mynda titil sinn í gæðingaskeiði og varð stigahæstur. Og á heimsmeistaramótinu 1999 vann hann til tveggja heimsmeistaratitla í 250 m skeiði á nýju heimsmeti og varð stigahæstur. Enn í dag er hann á meðal þeirra bestu hér á landi.
Sigurbjörn þykir fyrirmyndaríþróttamaður að öllu leyti. Til marks um það hefur hann verið kosinn inn í hóp tíu bestu íþróttamanna landsins í kjöri íþróttamaður ársins. Hann hefur alist upp í örri framþróun íþróttar sinnar, hefur staðið fremstur um árabil sem iðkandi og borið af í fagmennsku, snyrtimennsku, og drenglyndi. Hann hefur kennt og þjálfað og gefið út bók um íþróttina og kennslumyndbönd/diska og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hestamennskuna.
Hestaíþróttir voru ekki mikils metnar á íþróttasviði þegar Sigurbjörn fór af stað en upp úr því fóru þær að þróast og og öðlast virðingu bæði hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi. Þar hefur Sigurbjörn verið í fararbroddi. Hann hefur alltaf verið duglegur við að koma fram sem slíkur fyrir íþrótt sína.
Árangur Sigurbjörns 1993:
30. maí: Sigurbjörn sigrar í tölti á Hvítasunnumóti Fáks.
6. júní: Sigurbjörn sigrar í 150 og 250 m skeiði á Hestamóti Harðar.
13. júní: Sigurbjörn sigrar í 150 m skeiði á Hestamóti Geysis.
20. júní: Sigurbjörn sigrar í tölti og fjórgangi á opnu móti Sörla í Hafnarfirði.
27. júní: Sigurbjörn sigrar í tölti, fjórgangi, hlýðni og íslenskri tvíkeppni á Suðurlandsmótinu í hestaíþróttum á Selfossi.
4. júlí: Sigurbjörn sigrar í tölti á Fjórðungsmótinu á Vindheimamelum.
24.-25. júlí: Sigurbjörn sópartil sín verðlaunum á Íslandsmótinu í hestaíþróttum á Akureyri. Hann sigrar í tölti, íslenskri tvíkeppni fimmgangi, hlýðnikeppni og ólympískri tvíkeppni auk þess sem hann er stigahæsti knapinn í flokki fullorðinna.
30. júlí-1. ágúst: Sigurbjörn sigrar í tölti, gæðingaskeiði, 150 m skeiði og 250 m skeiði á hestamóti Skagfirðinga, auk þess sem hann og hesturhans, Oddur frá Blönduósi, hafna í öðru sæti í B-flokki gæðinga.
8. ágúst: Sigurbjörn ber sigur úr býtum í tölti, 150 m skeiði og 250 m skeiði, auk þess sem hann vinnur skeiðmeistarakeppnina, á stórmóti sunnlenskra hestamanna á Hellu.
18.-22. ágúst: Sigurbjörn vinnur til þrennra gullverðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fer í Hollandi. Hann vinnur fimmganginn og gæðingaskeiðið, í 250 m skeiði, auk þess sem hann er stigahæsti keppandinn.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



