Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Magnús Scheving er fyrsti og eini þolfimimaðurinn sem hlotið hefur sæmdarheitið íþróttamaður ársins. Hann var Norðurlandameistari og Evrópumeistari árið sem hann varð íþróttamaður ársins, auk þess sem hann var hársbreidd frá heimsmeistaratitli.

Magnús Scheving er fæddur árið 1964 og ólst upp í Borgarnesi. Hann lagði stund á íþróttir frá unga aldri. Þegar hann kom heim frá Noregi, þar sem hann lagði stund á íþróttafræði, var þolfimin að ryðja sér til rúms hér á landi. Hann var með fyrstu karlmönnunum til að kenna þolfimi hér á landi. Þegar hann byrjaði var tilgangurinn frekar sá að hafa gaman af og gera skemmtilegar æfingar en Magnús tók þátt í að þróa þessa grein hér á landi í þá átt að vera alvörukeppnisgrein sem krafðist jafnt styrks, liðleika, fimi og stökkkrafts. Hann tók reyndar hliðarspor og lék í frægri Pepsi-auglýsingu árið 1987 sem vakti mikla athygli og má segja að með henni hafi hann orðið þekkt andlit á Íslandi. Magnús varð Íslandsmeistari í þolfimi árið 1992 en þá var í fyrsta sinn haldið Íslandsmót í greininni. Hann varð svo í áttunda sæti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti það ár og í sjöunda sæti í parakeppni þar sem hann keppti með Önnu Sigurðardóttur.

Þessi árangur vakti mikla athygli en 27 þjóðir alls tóku þátt í keppninni. Árið eftir fylgdi hann árangrinum eftir með Íslandsmeistaratitli og Norðurlandameistaratitli og bronsverðlaunum á heimsmeistaramótinu, og þar með var hann kominn á kortið alþjóðlega í þessari grein. Það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið hjá manni sem aðeins hafði keppt opinberlega í greininni í eitt ár.

Og árið 1994, árið sem Magnús varð íþróttamaður ársins, náði hann enn lengra. Hann varði Norðurlandameistaratitil sinn, varð auk þess Evrópumeistari og náði öðru sæti á heimsmeistaramótinu. Magnús gat reyndar ekki verið öllu nær sigri en hann var því aðeins munaði 0,04 stigum á honum og sigurvegaranum. Það sem gerði þennan árangur Magnúsar enn glæsilegri var að hann tognaði á ökkla viku fyrir mótið og var ráðlagt af læknum að keppa ekki. En hann lét slag standa engu að síður.

Þetta ár var líka tímamótaár fyrir þolfimi á alþjóðavettvangi því að í maí samþykkti Alþjóðafimleikasambandið að taka þolfimi inn sem grein innan fimleikanna. Ármann tók þolfimina inn í fimleikadeild sína og gekk Magnús þá í það félag.

Árið 1994 varð Magnús Íslandsmeistari og Evrópumeistari með yfirburðum. Hann varð svo fimmti á fyrsta heimsmeistaramótinu sem haldið var á vegum Alþjóðafimleikasambandsins.

En þetta ár, 1995, kom út bók eftir Magnús, Áfram Latibær. Fáa hefur sennilega grunað þvílíkt veldi átti eftir að skapast úr sögupersónum þessarar bókar. Leikrit var sett á svið eftir bókinni, framhald var gefið út sem var líka sett á svið og eftir nokkur ár var farið að framleiða sjónvarpsþætti úr þessu efni sem hafa verið sýndir í 109 löndum í heiminum. Andi þáttanna hefur í gegnum tíðina verið mikið hjartans mál fyrir Magnúsi – forvarnir. Börn eru hvött til að borða hollan mat, hreyfa sig og leika sér úti. Þetta var boðskapur sem Magnús þreyttist aldrei á að breiða út meðan hann var upp á sitt besta í íþrótt sinni og það breyttist sannarlega ekki eftir að hann hætti að keppa.

Þegar Magnús var kjörinn var það annað ár í röð sem íþróttamaður ársins kom úr röðum íþróttar sem ekki hefði verið sérstaklega mikið í sviðsljósi fjölmiðla fram að því en árið áður hafði Sigurbjörn Bárðarson hestamaður orðið fyrir valinu.

Árangur Magnúsar 1994:

9. janúar: Magnús verður Íslandsmeistari í einstaklingskeppni karla þriðja árið í röð.

27. febrúar: Magnús verður Evrópumeistari í þolfimi á Evrópumótinu í Búdapest í Ungverjalandi og fær 8,22 í einkunn. Hann var fingurbrotinn þegar hann gerði siguræfingarnar.

23. apríl: Magnús hafnar í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í þolfimi sem fer fram í Japan. Munurinn gat varla verið minni – Magnús fékk 9,12 stig en sigurvegarinn, Kenichiro Momura frá Japan, 9,16 stig. Þeir tveir voru í algjörum sérflokki á mótinu. Magnús lýsti því yfir eftir mótið að hann ætlaði að hætta að keppa vegna þess að hann hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda áfram.

31. ágúst: Magnús er kjörinn fimleikamaður ársins af Fimleikasambandi Íslands. Þetta var fyrsta árið sem þolfimi var skilgreind sem grein innan Fimleikasambandsins.

14. september: Magnús sigrar á sterku þolfimimóti í Suður-Kóreu. Þar kepptu tíu efstu menn frá heimsmeistaramótinu, að heimsmeistaranum sjálfum frátöldum.

Tagged with: