Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Jón Arnar Magnússon er með fjölhæfari frjálsíþróttamönnum sem Ísland hefur átt. Hann var í fremstu röð í heiminum í tugþraut en vantaði oft herslumuninn til að komast í hóp þeirra allra bestu.
Jón Arnar fæddist árið 1969 og ólst upp í Gnúpverjahreppi. Hann er kominn af mikilli íþróttafjölskyldu. Það lá því beint við að stunda íþróttir og var hann meðal annars í handbolta, blaki og körfubolta auk frjálsra íþrótta, sem hann æfði með HSK. Snemma var ljóst að líkamlegt atgervi hans hentaði vel til afreksíþrótta. Hann bjó bæði yfir sprengikrafti, hraða og styrk, sem gerði það að verkum að hann náði góðum árangri í mörgum greinum. Á unglingamótum keppti hann bæði í stökkum, hlaupum og kastgreinum með ágætum árangri. Hann fór að einbeita sér að frjálsum íþróttum sextán ára gamall og náði meðal annars að sigra í þrístökki á innanhússmeistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum þegar hann var á þeim aldri, 1985. Fyrst ætlaði hann reyndar að einbeita sér að þrístökkinu en gafst upp á því og dró úr æfingum. Þegar hann var sautján ára var honum boðið að keppa í tugþraut. Þar náði hann fínum árangri og árið 1988 tók hann þátt í Norðurlandamóti unglinga og varð Norðurlandameistari í tugþraut, og þá á nýju unglingameti, 6.975 stig.
Jón Arnar komst fyrst yfir sjö þúsund stig 1989 í landskeppni við Breta og setti þá unglingamet í greininni, 7.351 stig. Það ár fór hann að vekja athygli á mótum hér á landi og sigraði oft í mörgum greinum á hverju móti. Árið 1990 hélt Jón Arnar til æfinga og náms í Georgíu í Bandaríkjunum og náði ágætum árangri á háskólamótum. Það þótti gefa góðar væntingar um sumarið en næstu tvö árin á eftir náði hann sér ekki vel á strik, meðal annars vegna meiðsla sem háðu honum. Sumarið 1992 var þó mjög gott hjá Jóni Arnari og þá hjó hann nærri Íslandsmeti Þráins Hafsteinssonar í tugþraut, sem var þá 7.592 stig. Hann náði hins vegar ekki lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Barcelona eins og hann stefndi að.
Árið 1993 söðlaði Jón Arnar um, sagði skilið við HSK og gekk til liðs við Tindastól á Sauðárkróki. Þá lét hann hafa eftir sér að hann ætlaði að taka tugþrautina föstum tökum. Lítið varð úr því þar sem hann fótbrotnaði snemma árs og var meira og minna frá það sumar. Hann kom hins vegar vel stemmdur inn í árið 1994 og náði þá meðal annars að bæta Íslandsmet Þráins Hafsteinssonar svo um munaði, fékk 7.896 stig á tugþrautarmóti í Götzis í Austurríki og bætti því metið um rúm þrjú hundruð stig. Hann tók þátt í sínu fyrsta stórmóti, Evrópumótinu í Helsinki, þetta ár en hætti keppni þar eftir þrjár greinar, en þá hafði hann gert öll stökk sín ógild í langstökkinu.
Árið 1995 komst Jón Arnar endanlega í röð þeirra fremstu í heiminum þegar hann komst í fyrsta sinn yfir 8.000 stig. Árangur hans á árinu kom honum í 14. sæti á heimslistanum í þessari erfiðu grein. Hins vegar gekk ekki nógu vel á stórmótunum sem hann tók þátt í. Hann tók aðeins þátt í langstökki á heimsmeistaramótinu innanhúss og komst ekki í úrslit, og varð svo að hætta keppni á heimsmeistaramótinu utanhúss vegna meiðsla. En þetta ár kom hann sjálfum sér og Íslandi á alheimskortið í tugþrautarheiminum.
Árið 1996 var einnig gott fyrir Jón Arnar en tvennt stóð þó upp úr – bronsverðlaun hans á Evrópumeistaramótinu innanhúss í Stokkhólmi og 12. sætið á Ólympíuleikunum í Atlanta en þar bætti hann Íslandsmetið enn frekar. Í ársbyrjun 1997 var gerður samningur við hann sem tryggði honum fjárstuðning upp á sex milljónir á ári, með styrk frá afreksmannasjóði ÍSÍ, til að hann gæti einbeitt sér að æfingum og undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Sydney. Styrkurinn fór í launagreiðslur til þjálfarans og í annan kostnað. Með þessu gat hann einbeitt sér betur að æfingum fram að Ólympíuleikunum.
En Jón Arnar var oft óheppinn á stórmótum og næstu ár einkenndust dálítið af því. Hann náði reyndar bronsverðlaunum í sjöþraut á heimsmeistaramótinu innanhúss í París snemma árs 1997 en varð að hætta keppni á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum utanhúss þá um sumarið eftir að hafa meiðst í hástökkinu. Hann hélt hins vegar áfram að slá Íslandsmet það ár og náði að bæta Íslandsmetið í 8.470 stig, eða um tæp 200 stig frá árinu áður. Þá varð hann meðal annars fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa 110 metra grindahlaup á skemmri tíma en 14 sekúndum. Árið eftir náði hann svo fjórða sæti á Evrópumeistaramótinu í Búdapest í Ungverjalandi og bætti Íslandsmetið í 8.573 stig. Þetta tryggði honum sjöunda sætið á heimslistanum. Í september vann hann svo fyrsta sigur sinn á alþjóðlegu tugþrautarmóti en það fór fram í Talance í Frakklandi.
Eftir þetta fór hins vegar að halla undan fæti hjá Jóni Arnari og árið 1999 var honum alls ekki farsælt. Honum tókst ekki að komast í gegnum eina einustu þraut á alþjóðlegum mótum og datt þar með út af heimslistanum. Hann náði þó fimmta besta árangrinum í fimmtarþraut á árinu. Árið 2000, Ólympíuárið, byrjaði hins vegar betur og hann náði góðum árangri í mótum framan af. Hann meiddist hins vegar illa á móti í Talance rúmum tveimur mánuðum fyrir Ólympíuleikana og það setti strik í reikninginn fyrir undirbúning þeirra. Og á leikunum sjálfum þurfti hann enn einu sinni að hætta keppni vegna meiðsla, nú eftir þrjár greinar.
Jón Arnar ákvað hins vegar þrátt fyrir þessar ófarir að halda áfram æfingum og keppni í eitt ár í viðbót þrátt fyrir að hann nyti engra styrkja lengur. Í byrjun árs 2001 skipti hann úr Tindastóli yfir í Breiðablik. Árið byrjaði ekki illa, hann hlaut silfurverðlaun í sjöþraut á heimsmeistaramótinu innanhúss. Í tugþrautinni gekk honum hins vegar ekki vel, þurfti oft að hætta keppni vegna meiðsla, meðal annars á heimsmeistaramótinu og náði aldrei meira en 8.000 stigum.
Árið 2002 gekk honum hins vegar betur og á tugþrautarmóti í Ratingen í Þýskalandi náði hann t.d. sínum besta árangri í fjögur ár þegar hann hlaut 8.390 stig. Þá náði hann fjórða sæti á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í München, sem og í sjöþraut á Evrópumótinu innanhúss. Í kjölfar góðs árangurs var hann settur á A-styrk í afreksmannasjóði ÍSÍ þar sem hann fékk mánaðarlegan styrk fram yfir Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Hann flutti þetta sumar til Gautaborgar til að geta æft við bestu aðstæður. Árið 2003 var hins vegar ekki jafn gjöfult. Jóni Arnari tókst ekki að ljúka keppni á heimsmeistaramótinu en hann náði öðru sæti á einu móti. Hann varð í fjórða sæti í sjöþraut á heimsmeistaramótinu innanhúss. Þetta var hins vegar heldur slæmt veganesti fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Og það ár gekk illa, hann gat oft ekki klárað þrautirnar og þurfti meðal annars að hætta keppni á Ólympíuleikunum eftir þrjár greinar vegna meiðsla. Hann lýsti því yfir eftir leikana að hann myndi smám saman draga úr æfingum, keppa á mótum á komandi vetri en síðan hætta keppni.
Jón Arnar gekk til liðs við FH í ársbyrjun 2005 og gerðist þjálfari fjölþrautarmanna félagsins auk þess að keppa fyrir hönd þeirra. Hann keppti aðeins á einu móti erlendis það ár, Erki Nool-mótinu. Þar keppti hann í sjöþraut en náði ekki að klára hana. Það sama gerðist þegar hann keppti á sama móti ári seinna. Hann keppir hins vegar enn á mótum hér á landi og er drjúgur við að safna stigum á meistaramótum og bikarkeppnum fyrir félag sitt.
Jón Arnar var þekktur fyrir að slá á létta strengi á mótum. Á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 litaði hann til dæmis skegg sitt í fánalitunum og á Evrópumótinu sama ár rakaði hann Mizuno-merkið framan á sig, við misjafnar undirtektir.
Árangur Jóns Arnars 1995:
3. mars: Jón Arnar sigrar í sjöþraut á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss. Hann hlýtur 5.372 stig sem er 85 stigum frá eigin Íslandsmeti. Hann jafnar hins vegar eigið Íslandsmet í 50 m grindahlaupi í keppninni, hleypur á 6,7 sek.
10. mars: Jón Arnar keppir í langstökki á heimsmeistaramótinu i frjálsum íþróttum innanhúss í Barcelona. Hann stekkur7,34 m í undankeppninni og kemst ekki í úrslit.
20. apríl: Jón Arnar hlýtur 7.867 stig á tugþrautarmóti í Lynchburg í Bandaríkjunum. Þetta er aðeins 29 stigum frá Íslandsmeti hans.
28. maí: Jón Arnar setur glæsilegt Íslandsmet í tugþraut á móti í Götzis í Austurríki. Hann hlaut 8.237 stig og bætti eigið Íslandsmet um 341 stig. Þetta dugir honum í fimmta sætiðá mótinu. Hann setur eitt Íslandsmet í þrautinni, í 110 m grindahlaupi þar sem hann hleypur á 14,32 sek. Jón Arnar sagði eftir mótið að þessi árangur hefði komið Íslandi á kortið í tugþrautinni.
11. júní: Jón Arnar setur nýtt Íslandsmet í 110 m grindahlaupi á Evrópubikarmóti í Tallinn í Eistlandi, 14,19 sek. Það dugar honum til sigurs í greininni.
24.-25. júní: Jón Arnar sigrar í 100 m hlaupi og langstökki á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum.
2. júlí: Íslenska tugþrautarlandsliðið, með Jón Arnar í fararbroddi, fetar sig úr 2. deild Evrópubikarkeppninnar yfir í þá fyrstu. Jón Arnar kemst yfir 8.000 stig í annað sinn á skömmum tíma.
13. júlí: Jón Arnar sigrar í tveimur greinum á frjálsíþróttamóti í Karlskrona í Svíþjóð, 110 m grindahlaupi og langstökki.
21.-22. júlí: Jón Arnar sigrar í 100 m hlaupi, 110 m grindahlaupi og langstökki, hafnar í öðru sæti í stangarstökki og því þriðja í spjótkasti í 1. deild bikarkeppninnar í frjálsum íþróttum.
2. ágúst: Jón Arnar gerir samning við fyrirtæki á Sauðárkróki, bæjarsjóð, Ólympíunefnd og Frjálsíþróttasambandiðum tæplega sjö milljóna styrk til aðhann geti undirbúiðsig sem best fyrir Ólympíuleikana í Atlanta 1996. Þetta er í fyrsta sinn sem svona samningur er gerður.
7. ágúst: Jón Arnar tekur þátt í tugþrautarkeppni á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Gautaborg. Hann meiðist hins vegarí stangarstökkinu og verður að hætta keppni en hann hafði áður verið dæmdur úr leik í 400 m hlaupinu.
6. september: Jón Arnar fer í fyrsta sinn yfir fimm metra í stangarstökki. Það gerir hann á móti á Sauðárkróki.
17. september: Jón setur glæsilegt Íslandsmet í tugþraut á boðsmóti í Talence í Frakklandi. Hann hlýtur 8.248 stig og bætir fyrra met sitt um ellefu stig. Hann hafnar í fimmta sæti á mótinu eftir að hafa verið í öðru sæti lengst af. Eftir mótið segist hann nú hafa fest sig í sessi meðal þeirra bestu.
24. október: Jón Arnar er í fjórtánda sæti í heimslistanum í tugþraut, samkvæmt lista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.
Árangur Jóns Arnars 1996:
21. janúar: Jón Arnar setur Íslandsmet í 50 m grindahlaupi á móti í Reykjavík, hleypur á 6,6 sekúndum.
25. janúar: Jón Arnar hlýtur styrk upp á 80 þúsund krónur á mánuði út þetta ár úr afreksmannasjóði ÍSÍ.
28. janúar: Jón Arnar setur nýtt Íslandsmet í 60 m grindahlaupi á innanhússmóti í frjálsum íþróttum í Svíþjóð, hleypur á 7,99 sek.
4. febrúar: Jón Arnar sigrar í sjöþraut á Opna sænska meistaramótinu í frjálsum íþróttum á nýju Íslandsmeti, 6.110 stig. Hann bætir þriggja ára gamalt Íslandsmet um tæp 500 stig og er aðeins 32 stigum frá Norðurlandametinu.
17.-18. febrúar: Jón Arnar sigrar í sjöþraut á meistaramóti Íslands í fjölþrautum innanhúss, þrátt fyrir að fella byrjunarhæðina í stangarstökki. Hann hlaut 4.819 stig.
24. febrúar: Jón Arnar setur nýtt Íslandsmet í langstökki innanhúss á meistaramóti Íslands, stekkur 7,71 m. Hann jafnar einnig Íslandsmet sitt í 50 m grindahlaupi frá því í byrjun ársins og sigrar í kúluvarpi.
26. febrúar: Jón Arnar er efstur á Evrópulistanum í sjöþraut innanhúss fyrir árangur sinn á Opna sænska meistaramótinu.
10. mars: Jón Arnar vinnur bronsverðlaun í sjöþraut á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í Stokkhólmi, hlýtur 6.069 stig.
26. maí: Jón hættir keppni á tugþrautarmóti í Götzis í Austurríki vegna meiðsla. Var þá í þriðja sæti eftir fjórar greinar en tognar á ökkla í hástökkinu.
6. júní: Jón Arnar slær 18 ára gamalt Íslandsmet Vilhjálms Vilmundarsonar í 200 m hlaupi á móti sem FH stóð fyrir. Jón hljóp á 21,17 sek. og bætti metið um 0,05 sek.
16. júní: Jón Arnar fær 8.035 stig í 1. deild Evrópubikarkeppninnar í fjölþraut. Þetta er í fjórða sinn sem hann kemst yfir 8.000 stig og það dugar honum í fjórða sætið í heildarkeppninni. Íslenska landsliðið féll hins vegar í aðra deild á mótinu.
30. júní: Jón Arnar hlýtur silfurverðlaun í langstökki á Evrópubikarmóti í Brüssel, stekkur 7,74 metra.
1. ágúst: Jón Arnar hafnar í 12. sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 á nýju Íslandsmeti, 8.274 stig. Hann hafði stefnt á tíunda sætið og var ekki langt frá því að ná því. Hann er fyrsti Íslendingurinn í 20 ár til að keppa í greininni á Ólympíuleikum.
10.-11. ágúst: Jón Arnar sigrar í þremur greinum í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands; 100 m hlaupi, 110 m grindahlaupi og langstökki. Þá verður hann þriðji í spjótkasti og fjórði í kringlukasti, auk þess sem hann varí sigursveit UMSS í 1.000 m boðhlaupi.
15. september: Jón Arnar hafnar í áttunda sæti á sterku tugþrautarmóti í Talence í Frakklandi eftir að hafa haft forystu að loknum fyrri keppnisdegi. Jón Arnar hlýtur 8.105 stig.
23. september: Jón Arnar sigrar í svokallaðri klukkutímatugþraut á móti í Salzburg í Austurríki en þarna er farið í gegnum allar tugþrautargreinarnar á einni klukkustund. Hann hlaut 7.020 stig sem er fimmti besti árangur sem náðst hefur á þessu móti. Hann sigrar þar fræga kappa, meðal annars Erkki Nool og Lev Lobodin.
1. október: Jón Arnar er í 19. sæti í heimslista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í tugþraut.
20. desember: ÍSÍ tilkynnir að Jón Arnar fái 160 þúsund krónurá mánuði í styrk úr afreksmannasjóði ÍSÍ til ársins 2000.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



