Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Geir Sveinsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik um árabil og sinnti því hlutverki af alúð. Árið 1997 var hann fyrirliði landsliðsins þegar það náði besta árangri sem náðst hefur á heimsmeistaramóti, 5. sæti, á HM í Kumamoto í Japan. Það tryggði honum sæmdarheitið íþróttamaður ársins.

Geir fæddist árið 1964 og ólst upp í Reykjavík. Hann stundaði bæði handknattleik og knattspyrnu frá unga aldri með Val og átti velgengni að fagna á báðum vígstöðum. Hann varð Íslandsmeistari í 3. flokki í handknattleik með Val 1981 og það ár hóf hann að spila með meistaraflokki Vals. Hann varð síðan bikarmeistari í 2. flokki í knattspyrnu árið 1982, náði meira að segja að skora úr vítaspyrnunni sem réði úrslitum í vítaspyrnukeppninni. Hann var þá þegar farinn að leika með meistaraflokki Vals í handknattleik. Hann var einnig fastamaður í yngri landsliðum og var meðal annars í liðinu sem varð í þriðja sæti á Norðurlandamóti 20 ára landsliða hér á landi 1983.

Geir var fyrst valinn í A-landsliðið árið 1984 og var í æfingahópnum fyrir Ólympíuleikana í Los Angeles það ár en datt svo út. Árið 1985 varð Geir fastamaður í íslenska landsliðshópnum og var með á öllum stórmótum þar til hann hætti að leika með landsliðinu. Fyrsta stórmót hans var heimsmeistaramótið í Sviss 1986 og þar var hann yngsti leikmaður landsliðshópsins ásamt Jakobi Sigurðssyni, 22 ára gamall. Geir var þó þriðji kostur inni á línunni á þessu móti, á eftir Þorgils Óttari Mathiesen og Þorbirni Jenssyni. Það sama ár var hann gerður að fyrirliða Valsliðsins. Það sýnir líklega öðru fremur hversu mikill leiðtogi á velli Geir var þegar orðinn þrátt fyrir ungan aldur.

Árið 1988 var farsælt fyrir Geir. Valsmenn urðu Íslands- og bikarmeistarar um vorið eftir nokkur mögur ár á undan og því var liðið orðið að nýju stórveldi í íslenskum handknattleik. Í landsliðinu fyllti hann skarð Þorbjarnar Jenssonar, bæði í sókn og vörn, og vakti hann sérstaka athygli fyrir tilburði sína í vörninni. Þar gegndi hann stærsta hlutverkinu þegar handknattleikslandsliðið undirbjó sig af kappi fyrir Ólympíuleikana í Seoul í Kóreu sem fóru fram í september 1988. Árangur Íslendinga þar olli hins vegar vonbrigðum, liðið lenti í áttunda sæti eftir æsispennandi leik við Austur-Þjóðverja um sjöunda sætið, sem endaði í vítakastkeppni sem Þjóðverjarnir unnu. Þetta þýddi að Íslendingar urðu að taka þátt í B-keppninni í Frakklandi 1989 til að tryggja sér sæti í heimsmeistarakeppninni í Tékkóslóvakíu 1990.

Árið 1989 var svo tímamótaár fyrir Geir. Hann tók þátt í B-keppninni í Frakklandi með íslenska landsliðinu þar sem liðið sigraði eftirminnilega. Valsmenn hömpuðu aftur Íslandsmeistaratitilinum og um sumarið hleypti Geir heimdraganum og gekk til liðs við spænska úrvalsdeildarliðið Granollers.

Geir lék með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu 1990 þar sem liðið hafnaði í tíunda sæti. Eftir mótið hættu margir lykilmenn síðustu ára með landsliðinu, meðal annars Þorgils Óttar Mathiesen, og þar með var Geir orðinn fyrsti valkostur í stöðu línumanns hjá landsliðinu. Hann var svo fljótlega gerður að fyrirliða landsliðsins.

Sumarið 1991 færði Geir sig um set á Spáni og gekk til liðs við Avidesa sem þá var eitt besta lið Spánar. Liðið komst þennan vetur í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa og varð bikarmeistari.

Landsliðið hafnaði í þriðja sæti í B-keppninni 1992 eftir dramatískan sigur á Svisslendingum, þar sem Íslendingar unnu upp sjö marka forskot. Þetta tryggði Íslendingum sæti í heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1993. En síðan komust Íslendingar óvænt á Ólympíuleikana þar sem Júgóslövum var vísað úr keppni. Enginn gerði kröfur um sérstakan árangur en Íslendingar, með Geir fremstan í flokki, náðu ótrúlegum árangri, fjórða sæti. Vegna þessa árangurs var Geir fánaberi Íslendinga þegar leikunum var slitið. Í kjölfar góðrar frammistöðu Geirs með landsliðinu á Ólympíuleikunum var hann valinn í heimsliðið í handknattleik og spilaði tvo leiki með liðinu í desember 2002.

Geir lék með Val veturinn 1992–1993 og varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu, auk þess sem hann var valinn besti leikmaður deildarinnar. Þann vetur, nánar tiltekið í febrúar 1993, náði hann þeim áfanga að verða leikjahæsti maður íslenska handboltalandsliðsins frá upphafi, þegar hann lék sinn 239. landsleik, og sló þar með Kristjáni Arasyni við. Í mars fór svo heimsmeistarakeppnin í handknattleik fram í Svíþjóð og þar náði Ísland áttunda sæti.

Sumarið 1993 bauð Avidesa Geir að koma út aftur. Þáði hann boðið og lék með liðinu þennan vetur. Liðið sigraði meðal annars EHF-keppnina í handknattleik og urðu Geir og Júlíus Jónasson, sem einnig lék með liðinu á þeim tíma, því Evrópumeistarar. Geir sneri svo heim á ný sumarið 1994 og gekk þá til liðs við Val. Landsliðinu tókst ekki að komast í lokakeppni EM í handbolta sem haldin var í fyrsta sinn þetta ár.

Veturinn 1994–95 var spennuþrunginn í handboltaheiminum því að fram undan var heimsmeistarakeppnin í handknattleik hér á landi í maí 1995. Geir starfaði á skrifstofu HSÍ þennan vetur við undirbúning keppninnar auk þess sem hlutverk hans átti að vera að leiða handboltalandsliðið til afreka á mótinu á heimavelli. Geir varð Íslands- og deildarmeistari með Val sem þá var undir stjórn Þorbjarnar Jenssonar. En á HM var gengið ekki eins gott, þó að Geir persónulega vegnaði vel. Landsliðið olli miklum vonbrigðum og varð að gera sér 13. sætið að góðu. En Geir var þar fremstur meðal jafningja, átti frábært mót og var valinn í úrvalslið mótsins að því loknu. Hann varð næstmarkahæsti leikmaður landsliðsins á mótinu á eftir Valdimar Grímssyni, skoraði 28 mörk.Trúlega var þetta besta ár hans sjálfs en það var honum hins vegar lítil huggun því að slæmt gengi sveið sárt.

Um sumarið flutti Geir til Frakklands og gekk þar til liðs við Montpellier. Í nóvember þetta sama ár lék Geir sinn hundraðasta landsleik sem fyrirliði. Árið 1996 hófst undankeppni fyrir HM í handbolta í Kumamoto í Japan. Lék Geir sinn 300. landsleik þegar liðið mætti Eistum í Laugardalshöll í þessari keppni. Geir var fyrsti Íslendingurinn til að ná þessum áfanga. Úrslitin réðust í tveimur leikjum við Dani. Íslendingar unnu góðan sex marka sigur heima og á útileiknum, sem fram fór í Álaborg á fullveldisdaginn 1. desember, fjölmenntu Íslendingar á pallana og var engu líkara en að liðið væri að spila á heimavelli. Íslendingar sigruðu, 24–22, og þar með var HM-sætið tryggt.

Árið 1997 reyndist svo handboltalandsliðinu gjöfult því að í Kumamoto náði liðið besta árangri sem íslenskt handboltalandslið hefur náð á heimsmeistaramóti fyrr eða síðar. Liðið hafnaði í fimmta sæti og tapaði aðeins einum leik á mótinu, gegn Ungverjum í 8-liða úrslitum. Liðsheildin var einstaklega sterk á þessu móti og fyrir henni fór Geir sem fyrirliði. Fyrir þetta var hann valinn íþróttamaður ársins. Vonbrigði urðu hins vegar hjá landsliðinu síðar þetta sama ár því að þá tókst ekki að tryggja sæti í Evrópukeppni landsliða á Ítalíu. Geir átti ekki sjö dagana sæla hjá Montpellier þetta árið, þar sem hann fékk lítið að spreyta sig í sókninni auk þess sem félagið neitaði honum ítrekað um að taka þátt í æfingaleikjum með landsliðinu.

Um sumarið flutti Geir til Þýskalands og gekk til liðs við Wuppertal sem Viggó Sigurðsson þjálfaði og Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson léku með. Liðið var þá nýbúið að tryggja sér sæti í þýsku 1. deildinni. Þar átti hann góðu gengi að fagna og liðinu gekk vel, en innbyrðis átök voru töluverð í félaginu, meðal annars milli Viggós og framkvæmdastjórans, sem enduðu með því að sá síðarnefndi hætti störfum. Geir var valinn handknattleiksmaður ársins 1998 hjá liðinu. Wuppertal lenti óvænt í áttunda sæti deildarinnar árið 1998. Handboltalandsliðinu mistókst hins vegar að komast á heimsmeistaramótið í Egyptalandi 1999 og Ólympíuleikana í Sydney árið 2000.

Geir tók við þjálfun Valsliðsins árið 1999 þrátt fyrir að vera með gott tilboð frá Pamplona á Spáni í vasanum. Hann tók jafnframt við starfi forstöðumanns íþróttadeildar Samvinnuferðar Landsýnar. Það ár lék hann jafnframt sinn síðasta landsleik fyrir Íslands hönd, þegar liðið tryggði sér naumlega sæti á Evrópumóti landsliða í Króatíu árið 2000 í tveimur leikjum gegn Svisslendingum. Geir tók ekki þátt í mótinu. Hann náði hins vegar prýðilegum árangri með Val og tók öðru hverju fram skóna og spilaði í vörn síns liðs. Fyrsta árið hafnaði Valsliðið reyndar í níunda sæti í deildinni og komst ekki í úrslitakeppnina. Tímabilið 2000–2001 gekk hins vegar betur en þá komst liðið í undanúrslit. Það tímabil var hann lánaður í stuttan tíma til Dormagen í Þýskalandi, sem Guðmundur Guðmundsson þjálfaði þá, og lék fimm leiki með liðinu. Tímabilið 2001–2002 komst Geir með Valsliðið í úrslit en þar tapaði liðið fyrir KA. Tímabilið 2002– 2003, síðasta tímabil Geirs, féll Valsliðið úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Geir hefur ekki starfað við handbolta síðan en árið 2004, þegar Guðmundur Guðmundsson hætti þjálfun landsliðsins, var Geir orðaður við starfið, en síðan var Viggó Sigurðsson ráðinn. Árið 2005 tók Geir síðan við framkvæmdastjórastarfi hjá Íþróttaakademíunni og hefur gegnt því starfi síðan.

Geir var mjög sterkur leikmaður. Hann var harður í horn að taka í vörninni og inni á línunni fór jafnan mikið fyrir honum. En það sem einkenndi hann fyrst og fremst var hversu mikill leiðtogi hann var inni á vellinum. Hann dreif sína menn alltaf áfram með baráttu og hvatningarhrópum og smitaði út frá sér með baráttugleði sinni.

Árangur Geirs 1997:

25. febrúar: Geir semur við þýska liðið Wuppertal um að ganga til liðs við félagið um haustið.

17. maí: Íslendingar vinna Japana 24-20 í fyrsta leik heimsmeistaramótsins í handbolta í Kumamoto í Japan. Geir skorar tvö mörk og er sterkur í vörninni.

20. maí: Ísland gerir jafntefli við Alsír 27-27 á heimsmeistaramótinu en slysalegt jöfnunarmark á lokasekúndum leiksins varð til þess að Íslendingar unnu ekki leikinn. Geir skorar ekki í leiknum.

22. maí: Íslendingar vinna stórsigur á Júgóslövum, 27-18, á heimsmeistaramótinu. Geir skorar tvö mörk og fer fyrir sterkri vörn.

24. maí: Íslendingar leggja Litháa að velli 21-19 á heimsmeistaramótinu. Geir hefur hægt um sig og skorar ekki í leiknum.

25. maí: Íslendingar vinna Sádí-Arabíu 25-22 í lokaleik riðlakeppninnar og tryggja sér þar með sigur í riðlinum. Geir skorar fjögur mörk.

27. maí: Geirá stórleik í vörn og sókn og skorar sjö mörk þegar Íslendingar sigra Norðmenn 32-28 í 16-liða úrslitum á heimsmeistaramótinu. Þetta tryggði Íslendingum sæti í 8-liða úrslitum.

29. maí: Geir skorar þrjú mörk þegar Ísland tapar 26-25 fyrirUngverjum í 8-liða úrslitum keppninnar. Þar með þurfti Ísland að spila um sæti 5-8 á mótinu.

30. maí: Íslendingar gjörsigra Spánverja 32-23 í leik um hvort liðið leiki um fimmta sæti mótsins. Geir er markahæsturí íslenska liðinu með sex mörk.

31. maí: Geir skorar fjögur mörk þegar Íslendingar sigra Egypta 23-20 í leiknum um fimmta sætið á heimsmeistaramótinu. Geir er að vanda kjölfestan í vörn landsliðsins. Besti árangur Íslands á heimsmeistaramóti í handknattleik var þar með staðreynd. Eftir mótið upplýsti Vladimir Maximov, þjálfari heimsmeistara Rússa, að það yrði heiður fyrir sig að hafa mann eins og Geir í sínu liðu.

24. september: Íslendingar og Svisslendingar gera jafntefli, 27-27, í undankeppni Evrópumóts landsliða í handknattleik í Laugardalshöll. Geir skorar tvö mörk í leiknum.

28. september: Ísland sigrar Sviss 29-27 á útivelli í undanriðli fyrir Evrópukeppni landsliða í handknattleik. Geir skorar þrjú mörk í leiknum.

29. október: Íslendingar tapa fyrir Litháum 32-29 á útivelli í undankeppni EM. Geir nær ekki að skora í leiknum.

2. nóvember: Íslendingar vinna Litháa 25-18 í undankeppni EM í Kaplakrika. Geir á góðan leik í vörn en skorar ekki.

27. nóvember: Ísland tapar fyrir Júgóslövum 21-24 í undankeppni Evrópumóts landsliða í Laugardalshöll. Þar með minnkaði von Íslendinga um að komast á mótið til muna. Geir skorar tvö mörk í leiknum.

30. nóvember: Ísland er endanlega úr leik í baráttunni um aðkomast á EM eftir tap gegn Júgóslövum á útivelli 30-26. Geirá góðan leik og skorar fimm mörk.

Tagged with: