Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Örn Arnarson varð fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í sundi, og varhársbreidd frá því að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Hann er einn þriggja sem þrisvar hefur orðið íþróttamaður ársins.
Örn er fæddur árið 1981 og ólst upp í Hafnarfirði. Hann á ekki langt að sækja frama sinn í sundgreininni. Faðir hans, Örn Ólafsson, var mjög frambærilegur sundmaður á yngri árum en hann hætti hins vegar keppni aðeins 17 ára gamall. Þá var afi hans, Ólafur Guðmundsson, einn fremsti sundmaður sinnar kynslóðar. Örn mætti strax með föður sínum í laugina á yngri árum og lærði að synda af honum. Hann byrjaði að sleppa kútnum strax á þriðja ári. Hann hóf sundæfingar hjá SH sex ára gamall en var tíu ára þegar hann fór að æfa af alvöru.
Þegar Örn var um fermingaraldur fór hann að sýna merki þess að verða afreksmaður. Þá stækkaði hann nokkuð hratt og í kjölfarið bætti hann sig verulega. Aldursflokkamótið 1995 kom honum endanlega á kort þeirra bestu hér á landi en þar vann hann fjölda sigra. Árið 1997 setti hann sitt fyrsta fullorðins Íslandsmet á Sundmeistaramóti Íslands í Eyjum, þá 15 ára gamall, en það var tíu ára gamalt met í 400 m skriðsundi. Baksundið var þó sérgrein hans enda hentaði vaxtarlag hans ágætlega fyrir þá grein.
Fyrsta stóra, alþjóðlega mótið, sem Örn tók þátt í, var Evrópumeistaramótið í 25 m laug í Rostock 1996, en áður hafði hann náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum unglinga. Og þau hafa verið mörg sem hann hefur tekið þátt í síðan, oft með frábærum árangri. Næstu sex árin var í raun samfelld uppgangstíð hjá honum. Eins og áður sagði setti hann fyrsta Íslandsmet sitt í fullorðinsflokki árið eftir, á Sundmeistaramóti Íslands innanhúss í Vestmannaeyjum. Hann náði lágmarkinu til að keppa á heimsmeistaramótinu í sundi í apríl 1997 en gat ekki keppt þar sem hann var að taka samræmdu prófin þennan dag, en hann var þá að ljúka námi í 10. bekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Á sundmeistaramóti Íslands utanhúss sigraði hann í fjórum greinum.
Örn lét einnig að sér kveða erlendis á þessu ári, þegar hann vann gullverðlaun í 100 m baksundi og silfurverðlaun í 200 m baksundi á Ólympíudögum æskunnar í Lissabon í Portúgal. Hann keppti á Smáþjóðaleikunum og sigraði þar í 200 m baksundi með því að bæta tíu ára gamalt mótsmet, en gamla metið átti Eðvarð Þór Eðvarðsson. Hann keppti á Evrópumótinu í 50 m laug í Sevilla í ágúst og komst þá í Búrslit í 200 m baksundi, þá ekki orðinn 16 ára. Sá árangur vakti gríðarlega athygli. Hann endaði svo árið á því að fá þrenn gullverðlaun á Norðurlandamóti unglinga, í 100 m skriðsundi og 100 og 200 m baksundi. Í síðastnefndu greininni setti hann nýtt Íslandsmet. Þetta ár var því stórt ár fyrir Örn á alþjóðavettvangi.
Árið 1998, fyrsta árið sem Örn var valinn íþróttamaður ársins, náði hann að setja Íslandsmet í 100 og 200 m baksundi, sem hann hafði stefnt á lengi. Hann varð fyrsti Íslendingurinn í 12 ár til að keppa á heimsmeistaramóti þegar hann keppti í Perth í Ástralíu í janúar með ágætum árangri. Þá varð hann Evrópumeistari í 200 m baksundi í desember og varð þar með fyrstur Íslendinga til að verða Evrópumeistari í sundi. Hann setti alls sextán Íslandsmet og var útnefndur efnilegasti sundmaður Evrópu. Hann varð þetta ár yngsti íþróttamaðurinn til að verða kjörinn íþróttamaður ársins hér á landi.
Örn var svo aftur kjörinn 1999 og ekki var árangurinn síðri þá, því að auk þess að verja Evrópumeistaratitilinn í 200 m baksundi bætti hann sams konar titli í 100 m baksundi við. Þá varð hann Evrópumeistari unglinga í 200 skriðsundi í 50 metra laug og annar í 200 m baksundi.
Árið 2000 voru Ólympíuleikar í Sydney. Örn hafði nokkrum árum áður lýst því yfir í viðtali að hann stefndi á gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004, of snemmt væri að stefna að slíku í Sydney. Síðan batnaði árangur hans hraðar en hann sjálfur hafði reiknað með og því var markið sett hátt í Sydney. Og þar gekk honum vel. Hann varð í fjórða sæti í 200 m baksundi sem er besti árangur sem íslenskur sundmaður hefur náð á leikunum og synti á 1:59,00 mín. Hann var 1,4 sek. frá verðlaunasæti. Að auki varð hann Evrópumeistari í 200 m baksundi þriðja árið í röð og í 100 m baksundi annað árið í röð, en í síðarnefndu greininni setti hann Evrópumet, fyrstur íslenskra sundmanna. Að auki hlaut hann silfurverðlaun í 50 m baksundi. Þessi frábæri árangur dugði Erni þó ekki til að verða íþróttamaður ársins þar sem Vala Flosadóttir gerði betur og hlaut bronsverðlaun í stangarstökki á leikunum. Á þessu ári sló hann einnig metin í 800 og 1500 m skriðsundi, sem hann hafði ekki átt áður.
Árið 2001, þegar Örn var valinn í þriðja sinn, bar það hæst að hann hlaut silfurverðlaun í 100 m baksundi og bronsverðlaun í 200 m baksundi á heimsmeistaramótinu í sundi. Um haustið fór hann til Kaliforníu þar sem hann hugðist sunda nám með sundæfingum en varð að koma heim eftir skamma dvöl þar sem íþróttasamtök bandarískra háskóla neituðu honum um keppnisleyfi. Hann gat svo ekki varið Evróputitla sína vegna meiðsla á öxl.
Árið 2002 bar minna á Erni framan af vegna axlarmeiðslanna. Í apríl náði hann reyndar fjórða sæti í 100 m baksundi á heimsmeistaramótinu í 25 m laug en komst ekki í úrslit í 200 m baksundi. Hann ákvað að keppa ekki á Evrópumótinu í 50 m laug þar sem hann taldi sig ekki vera í nógu góðu formi. Í september tilkynnti hann svo óvænt félagaskipti úr Sundfélagi Hafnarfjarðar í Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, og sagði þar með skilið við Brian Marshall sem þjálfað hafði Örn í sex ár. Þetta var umdeild ráðstöfun en Örn taldi sig þurfa tilbreytingu. Hann þaggaði niður í öllum gagnrýnisröddum þegar hann keppti á Evrópumótinu í 25 m laug. Hann varð Evrópumeistari í 200 m baksundi í fjórða sinn, þá fjórði í 50 m baksundi og loks þriðji í 100 m baksundi á nýju Íslands og Norðurlandameti.
Árið 2003 náði Örn áfram góðum árangri á Evrópumótinu í 25 metra laug og hlaut nú silfurverðlaun í 100 m baksundi. Hann varð fimmti í 200 m baksundi og sjöundi í 50 m baksundi. Meiðsli settu þó áfram strik í reikninginn og gerðu það að verkum að árangur á öðrum mótum varð ekki eins og reiknað hafði verið með, meðal annars á heimsmeistaramótinu.
Árið 2004 var árið sem Ólympíuleikarnir í Aþenu fóru fram en á þá leika hafði Örn stefnt í tæpan áratug. Hann var langt frá sínu besta í baksundi á þeim mótum sem hann tók þátt í. Sundsambandið gaf út yfirlýsingu fyrir leikana þar sem fram kom að Örn hefði ekki getað undirbúið sig af nægilegum krafti. Þegar til kom tók hann aðeins þátt í einni grein á leikunum, 50 m skriðsundi. Hann synti á 23,84 sekúndum og hafnaði í 54. sæti. Um haustið ákvað Örn að skipta aftur yfir í Sundfélag Hafnarfjarðar.
Veturinn 2004–2005 dvaldi Örn mikið í Danmörku við æfingar. Árið 2005 bætti hann nokkur Íslandsmet, en fyrst og fremst í skriðsundi og flugsundi. En um sumarið veiktist hann af lungnabólgu og gat því ekki keppt á Smáþjóðaleikunum. Og í nóvember hneig hann svo niður á Íslandsmeistaramótinu í sundi vegna hjartsláttartruflana og kom það í veg fyrir þátttöku hans á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug. Árið 2006 fór hins vegar aftur að rofa til hjá Erni, sérstaklega eftir að hann fór í hjartaþræðingu um vorið. Hann náði meðal annars bronsverðlaunum í 50 m flugsundi og 7. sæti í 100 m fjórsundi á Evrópumótinu í 25 m laug. Hann bætti hvert Íslandsmetið á fætur öðru á árinu og stóðu vonir því til að hann væri ekki búinn að segja sitt síðasta á alþjóðavettvangi.
Eins og fram hefur komið hér hefur enginn sundmaður náð jafngóðum árangri á alþjóðavettvangi og Örn Arnarson. Og enn telja margir að hann hafi burði til að ná enn lengra, þó að ekki hafi allar væntingar, sem til hans voru gerðar, gengið eftir.
Árangur Arnar 1998:
12. janúar: Örn hafnar í 37. sæti í 200 m skriðsundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Perth í Ástralíu. Hann syndirá 1:57,25 mín.
15. janúar: Örn syndir 100 m baksund á 58,01 sek. á heimsmeistaramótinu. Hann bætir eigin árangur um 0,11 sek. Örn hafnar í 33. sæti af 51 keppanda.
18. janúar: Örn hafnar í 20. sæti í 200 m baksundi á heimsmeistaramótinu. Hann syndir á 2:05,61 mín., sem er nokkuð frá hans besta.
20. mars: Örn setur nýtt Íslandsmet í 200 m fjórsundi í 25 m laug og jafnar Íslandsmet í 50 m skriðsundi á Innanhússmeistaramóti Íslands á Keflavíkurflugvelli. Örn sigrar alls í fimm greinum á mótinu.
30. júlí: Örn setur nýtt Íslandsmet í 200 m fjórsundi í undanrásum á Evrópumóti unglinga í Antwerpen í Belgíu, syndir á 2:08,30 mín. Gamla metið setti Arnar FreyrÓlafsson árið 1996, 2:08,83 mín. Síðar sama dag bætir hann metið aftur í úrslitasundinu, syndir á 2:07,03 mín. Hann hafnar í fimmta sæti í greininni.
31. júlí: Örn setur nýtt Íslandsmet í 200 m baksundi á sama móti. Hann syndir á 2:01,27 mín og bætir 11 ára gamalt met Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar um eina og hálfa sekúndu. Tíminn dugar honum til silfurverðlauna á mótinu.
1. ágúst: Örn bætir Íslandsmetið í 100 m baksundi á sama móti. Hann syndir á 56,94 sek. í úrslitum og hafnar í fjórða sæti í greininni. Þar með hefur hann hirt öll met Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar í 50 m laug, en Eðvarð setti gamla metið, 57,15 sek., 11 árum áður.
2. ágúst: Örn setur nýtt Íslandsmet í 200 m skriðsundi, 1:50,63 mín., á sama mótinu og hafnar í öðru sæti. Gamla metið átti Magnús Már Ólafsson, 1:51,90, sem var sett árið 1991.
19. október: Örn er í 18. sæti í á afrekslista sundmanna í 200 m baksundi í 50 m laug sem tímaritið Swimnews gefur út. Þá er hann í 34. sæti í 200 m skriðsundi og 61. sæti í 100 m baksundi.
21.-22. nóvember: Örn nær frábærum árangri í bikarkeppni Sundsambands Íslands, þar sem félag hans, Sundfélag Hafnarfjarðar, vinnur sigur fjórða árið í röð. Örn setur þrjú Íslandsmet í einstaklingsgreinum, í 100 m baksundi (54,02 sek.), 200 m baksundi (1:57,12 mín.) og í 100 m skriðsundi (49,71 sek.). Síðasttalda metið hafði staðið í sjö ár.
24. nóvember: Örn setur Íslandsmet í 200 m skriðsundi á meta- og lágmarksmóti SH, syndir á 1:48,65 mín.
13. desember: Örn verður Evrópumeistari í 200 m baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í Sheffield á Englandi. Hann syndirá 1:55,16 mín. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í sundi. Með þessum árangri er Örn kominn í 2.–3. sæti á heimslistanum í greininni.
14. desember: Örn verður fjórði í 100 m baksundi á sama móti, syndir á 53,71 sek. sem er nýtt Íslandsmet.
16. desember: Örn er útnefndur efnilegasti sundmaður mótsins af blaða- og fréttamönnum.
30. desember: Örn slær fimm Íslandsmet á jólamóti Sundfélags Hafnarfjarðar; í 400 m skriðsundi og baksundi og 50 m skriðsundi, auk þess að eiga þátt í tveimur boðsundsmetum.
Árangur Arnar 1999:
24. janúar: Örn slær 13 ára gamalt Íslandsmet Magnúsar Más Ólafssonar í 200 m flugsundi á stórmóti Sundfélags Hafnarfjarðar. Hann syndir á 2:03,44 mín, og bætir gamla metið um tæpar fjórar sekúndur.
28. janúar: Örn er tekinn í afreksmannaflokk hjá Afreksmannasjóði ÍSÍ og fær því hæsta mögulega styrk úr sjóðnum.
29. janúar: Örn hafnar í fimmta sæti í 200 m flugsundi á alþjóðasundmótinu í Lúxembourg. Hann syndir á 2:10,71 mín. sem er sekúndu frá Íslandsmetinu.
30. janúar: Örn sigrar í 100 m baksundi á sama móti, syndir á 57,34 sek. Síðar sama dag nær hann fjórða sæti í 100 m skriðsundi. Hann syndir á 51,81 sek., sem er nálægt Íslandsmetinu.
31. janúar: Örn sigrar í 200 m baksundi á sama móti, syndir á 2:04,34 mín. Sama dag setur hann Íslandsmet í 50 m skriðsundi. Hann syndir á 23,84 sek. og bætir átta ára gamalt met Magnúsar Más Ólafssonar. Tíminn dugar til þriðja sætis á mótinu.
13.-14. febrúar: Örn nær öðru sæti í 200 m baksundi á heimsbikarmótinu í 25 m laug í Glasgow, syndir á 1:56,77 mín. Hann verður síðan í fjórða sæti í 100 m fjórsundi og setur nýtt Íslandsmet í undanrásum, 56,58 sek. Hann verður svo 12. í 100 m skriðsundi og 13. í 200 m skriðsundi.
20. febrúar: Örn hafnar í þriðja sæti í 100 m baksundi á heimsbikarmótinu í París, syndir á 54,32 sek. Hann hættir við að keppa í 200 m baksundi á mótinu vegna meiðsla í öxl.
19. mars: Örn setur nýtt Íslandsmet í 50 m flugsundi á meistaramóti Íslands í sundi innanhúss í Vestmannaeyjum, synti á 24,97 sek.
25.-29. maí: Örn vinnur til sjö gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein.
15. júlí: Örn verður Evrópumeistari unglinga í 200 m baksundi á Evrópumóti unglinga í 50 m laug í Moskvu. Hann syndir á nýju Íslandsmeti, 2:01,13.
26. júlí: Örn nær sér ekki á strik í 100 m baksundi á Evrópumeistaramótinu í 50 m laug í Istanbul. Hann syndir á 57,52 mín. og hafnar í 23. sæti.
27. júlí: Örn hafnar í 26. sæti í 100 m skriðsundi á sama móti. Hann syndir á 51,65 sek. sem er nærri Íslandsmeti Magnúsar Más Ólafssonar.
29. júlí: Örn nær 18. sæti í 200 m skriðsundi á sama móti, syndir á 1:52,90 mín.
18.-19. nóvember: Örn sigrar örugglega í 100 og 200 m baksundi og 200 m fjórsundi í bikarkeppni Sundsambands Íslands.
9. desember: Örn hafnar í 7. sæti í 200 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í Lissabon. Hann setur nýtt Íslandsmet í undanrásunum, 1:47,17 mín.
10. desember: Örn ver Evrópumeistaratitil sinn í 200 m baksundi á Evrópumótinu í 25 m laug í Lissabon. Hann syndir á nýju Íslandsmeti, 1:54,23 mín., sem er einnig mótsmet og næstbesti tími sem náðst hefur í heiminum á árinu.
12. desember: Örn verður Evrópumeistari í 100 m baksundi á sama móti, syndir á 53,13 sek., sem er nýtt Íslandsmet. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að verða tvöfaldur Evrópumeistari.
Árangur Arnar 2001:
17.-18. mars: Örn setur fimm Íslandsmet á meistaramóti Íslands í sundi í Vestmannaeyjum.
6. apríl: Örn setur Íslandsmet í 400 m fjórsundi á opna Sjálandsmótinu. Hann syndir á 4:31,84 mín., og bætir sjö ára gamalt met Arnars Freys Ólafssonar um tæpar tvær sekúndur.
8. apríl: Örn setur tvö Íslandsmet á opna Sjálandsmótinu í sundi. Hann syndir 100 m baksund á 56,46 sek. í 50 m laug og sigrar og setur einnig met í 50 m skriðsundi, 25,15 sek., sem dugar honum í annað sætið.
29. apríl: Örn er valinn í Evrópuliðið sem valið er sérstaklega til að keppa á Friðarleikunum í Ástralíu. Örn er fyrsti íslenski sundmaðurinn sem valinn er í Evrópuliðið.
23. júlí: Örn vinnur silfurverðlaun í 100 m baksundi á heimsmeistaramótinu í Fukuoka í Japan. Hann syndir á 54,75 sek., sem er nýtt Íslands- og Norðurlandamet. Örn er fyrsti íslenski sundmaðurinn sem hlýtur verðlaun á heimsmeistaramóti.
27. júlí: Örn vinnur bronsverðlaun í 200 m baksundi á sama móti. Tími hans er 1:58,37 mín., sem er nýtt Íslands- og Norðurlandamet.
28. ágúst: Nýir heimslistar eru birtir í sundi. Örn er í öðru sæti í 100 m baksundi í 50 m laug og í þriðja sæti í 200 m baksundi. Í 25 m laug er hann í þriðja sæti bæði í 100 og 200 m baksundi og í fimmta sæti í 400 m fjórsundi.
30. nóvember: Þjálfari Arnar, Brian Marshall, staðfestiraðÖrn keppir ekki á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í Antwerpen vegna axlarmeiðsla. Hann getur því ekki varið Evrópumeistaratitla sína.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



