Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Vala Flosadóttir varð þriðji Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum þegar hún hlaut bronsverðlaun á leikunum í Sydney árið 2000. Hún varð einnig fyrst íslenskra kvenna til að komast í úrslit á Ólympíuleikum.

Vala fæddist árið 1978 og ólst upp í Reykjavík til níu ára aldurs, þar til fjölskyldan flutti til Bíldudals árið 1987. Þar hóf hún æfingar í frjálsum íþróttum en aðstæður voru heldur frumstæðar. Þar var aðalgrein hennar hástökk.

Hún flutti til Svíþjóðar árið 1992 þar sem foreldrar hennar voru í námi og hélt þar áfram æfingum en það var pólski þjálfarinn hennar í Svíþjóð, Stanislaw Szczyrba, sem fékk hana til að prófa stangarstökk árið 1994, þó að það hafi ekki orðið alþjóðlega viðurkennd grein í kvennaflokki fyrr en árið 1996. Vala æfði í Malmö við bestu aðstæður og góður árangur hennar vakti fljótlega mikla athygli. Sextán ára gömul hafði hún náð besta árangri Norðurlanda í greininni þegar hún stökk 3,50 metra. Þetta var í ársbyrjun 1995 en í ágúst var met hennar komið í 3,81 metra sem kom henni í 15.–17. sætið á heimsafrekalistanum. Á þessu ári bætti hún einnig aldursflokkamet í hástökki og sjöþraut og var þetta ár ein af níu unglingum sem valdir voru í svokallaðan Sydney-hóp sem æfa átti sérstaklega með leikana í Sydney árið 2000 í huga. En þá var reiknað með henni í hástökkskeppninni enda sigraði hún í greininni á Meistaramóti Íslands þetta ár og varð önnur á Smáþjóðaleikunum. Þá var hún í liði Íslands í fjölþrautum sem vann sig upp í fyrstu deild Evrópubikarkeppninnar. Árið 1995 var því sannarlega árið sem hún kom sér í röð þeirra bestu á Íslandi.

Árið 1996 fór hún svo að láta verulega að sér kveða á alþjóðavettvangi og í janúar stökk hún fyrst yfir fjóra metra. Í júlí setti hún heimsmet unglinga, þegar hún fór yfir 4,15 metra, og hún stökk hæst 4,17 m á þessu ári utanhúss, sem einnig var heimsmet unglinga. Í ársbyrjun bætti hún einnig Norðurlandametið innanhúss og buðu Svíar henni gull og græna skóga til að gerast sænskur ríkisborgari og keppa fyrir Svíþjóð á Ólympíuleikunum þá um sumarið. Þessu boði hafnaði hún. Og 8. mars skráði hún nafn sitt á spjöld íslenskrar frjálsíþróttasögu þegar hún varð Evrópumeistari í stangarstökki kvenna innanhúss á Evrópumótinu í Globenhöllinni í Gautaborg, stökk 4,16 metra. Hún varð þar með fyrst kvenna til að verða sigurvegari í stangarstökki á stórmóti í heiminum.

Vala hélt áfram að bæta heimsmet unglinga árið 1997 og stökk 4,20 metra á afmælismóti ÍR í Laugardalshöll í janúar. Hún náði hins vegar aðeins að stökkva fjóra metra slétta á heimsmeistaramótinu innanhúss í Portúgal og hafnaði þar í áttunda sæti. Seinni hluti ársins fór svo fyrir lítið hjá henni vegna slæmra meiðsla í mjóbaki en hún vann samt sem áður til silfurverðlauna á Evrópumóti unglinga í Ungverjalandi.

En ári síðar bætti hún heldur betur í og setti nýtt heimsmet í stangarstökki kvenna innanhúss þegar hún stökk 4,42 m á móti í Bielefeld í Þýskalandi. Vala varð þar með fyrsti íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem setur heimsmet í ólympískri keppnisgrein. Stuttu seinna stökk hún 4,44 m á öðru móti í Þýskalandi sem var einnig heimsmet. Vala hlaut skömmu síðar bronsverðlaun á Evrópumótinu innanhúss, með stökki upp á 4,40 m, en sigurvegarinn stökk 4,45 metra og tók þar með heimsmetið. Hún hafnaði hins vegar í níunda sæti á Evrópumeistaramótinu utanhúss í Búdapest, stökk aðeins 4,15 m. Hæst stökk hún 4,36 m utanhúss þetta ár og var í fimmta sæti á afrekalistanum í stangarstökki í lok árs.

Árið 1999 byrjaði vel hjá Völu en þá vann hún silfurverðlaun í stangarstökki á heimsmeistaramótinu innanhúss og var reyndar aðeins hársbreidd frá því að vinna mótið. Hún stökk 4,45 metra og setti þar nýtt Íslands- og Norðurlandamet en Nastja Ryshich stökk 4,50 metra í sínu síðasta stökki og sigraði. Um sumarið sigraði Vala í stangarstökki á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri þegar hún stökk 4,30 metra. Þetta reyndist besta stökk hennar utanhúss á árinu og hún lækkaði nokkuð á afrekalistum við þetta. Hún komst hins vegar ekki í úrslit á heimsmeistaramótinu utanhúss í Sevilla á Spáni árið 1999.

En stóra ár Völu var árið 2000. Hún kom öllum spekingum hér heima og erlendis á óvart með því að vinna til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney og vera þar með þriðji Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikunum, á eftir Vilhjálmi Einarssyni og Bjarna Friðrikssyni. Þar setti hún nýtt Íslands- og Norðurlandamet, 4,50 metrar. Íslendingar hömpuðu Völu sem sannri þjóðhetju fyrir þetta afrek og varð hún nánast þjóðareign.

Miklar væntingar voru gerðar til frekari afreka Völu eftir þetta en þær gengu ekki eftir. Í febrúar 2001 endaði samstarf hennar við pólska þjálfarann Stanislav Szczyrba. Vala tók sér keppnishlé frá innanhússtímabilinu og ákvað þess í stað að kynna sér þjálfara og aðstöðu víðs vegar í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Sumarið 2001 ákvað hún að hefja æfingar í Gautaborg undir stjórn Pekka Dalhöjd.

Á árunum 2001-2004 tók Vala þátt í heimsmeistaramótinu í Kanada, Evrópumótinu innanhúss í Vín og Evrópumótinu í München en komst ekki í úrslit á þessum mótum, þó að hún hafi reyndar verið hársbreidd frá því í Vín. Árið 2003 setti hún hins vegar Íslandsmet í fimmtarþraut kvenna á opna sænska meistaramótinu, fékk 3607 stig.

Hún náði ekki lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Aþenu 2004 og síðasta mótið sem hún tók þátt í var bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 2004 þar sem hún varð bikarmeistari í stangarstökki. Um mitt ár 2005 ákvað Vala að hætta keppni.

Árangur Völu árið 2000:

21. janúar: Vala stekkur 4,30 m á alþjóðlegu móti í Saarbrücken í Þýskalandi. Þar með nær hún lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Sydney síðar á árinu.

9. febrúar: Vala hafnar í fjórða sæti á frjálsíþróttamóti í París, stekkur 4,22 m.

17. febrúar: Vala hafnar í öðru sæti í stangarstökki á sterku frjálsíþróttamóti í Globenhöllinni í Gautaborg, stekkur 4,37 m.

27. febrúar: Vala hafnar í fjórða sæti í stangarstökk á Evrópumótinu innanhúss, stekkur 4,30 m.

5. mars: Vala stekkur 4,30 m á frjálsíþróttamóti ÍR í Laugardalshöll. Daniela Bartova sigrar á mótinu, stekkur 4,38 m.

24. júní: Vala sigrar í stangarstökki á sterku móti í Póllandi, stekkur 4,25 m.

1. ágúst: Vala stekkur 4,25 m á DN Gallen-stigamótinu í Stokkhólmi og hafnar í sjöunda sæti.

23. ágúst: Vala sigrar í stangarstökki á móti í Karlstad í Svíþjóð, stekkur 4,26 m.

31. ágúst: Vala stekkur 4,11 m á Grand Prix-frjálsíþróttamótinu í Växjö í Svíþjóð og hafnar í þriðja sæti.

23. september: Vala kemst í úrslit í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Sydney með því að stökkva 4,30 m í undankeppninni.

25. september: Vala vinnur bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sydney með því að stökkva 4,50 m. Hún bætti eigið Íslands- og Norðurlandamet um 14 cm.

25. nóvember: Vala er útnefnd kona ársins af tímaritinu Nýju lífi.

30. desember: Vala er útnefnd maður ársins af Kastljósi Sjónvarpsins.

Tagged with: