Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Ólafur Stefánsson er að margra mati besti íslenski handknattleiksmaðurinn sem við höfum eignast. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins tvívegis þegar hann var á hátindi ferils síns, fyrir góða frammistöðu bæði með landsliðinu og félagsliðum sínum.

Ólafur fæddist í Reykjavík 1973. Hann stundaði handknattleik frá unga aldri og lék með Valsmönnum upp alla yngri flokkana. Flokkur hans var afar sigursæll og varð Íslandsmeistari flest árin. Valsliðið þótti því strax líklegt til afreka þegar þessi hópur yrði tilbúinn til að spila með meistaraflokki. Sautján ára gamall fór hann að spila með meistaraflokki Vals.

Ólafur var einnig fastamaður í yngri landsliðum Íslands. Hann varð meðal annars Norðurlandameistari með íslenska 18 ára landsliðinu árið 1991 en þá vann liðið með fullu húsi stiga. Hjá Val var hann til að byrja með varamaður fyrir Júlíus Gunnarsson í stöðu skyttu hægra megin. Hann varð Íslandsmeistari með Val 1991. Tímabilið 1991-92 meiddist Júlíus illa og var frá stóran hluta leiktíðarinnar. Þar með lék Ólafur stærra hlutverk í Valsliðinu. Ólafur var í fyrsta sinn valinn í A-landsliðið haustið 1992, í æfingaleik gegn Egyptum á Laugardalsvelli.

Árið 1993 varð Ólafur Íslands- og bikarmeistari með Val, Norðurlandameistari með 21 árs landsliðinu og svo í þriðja sæti á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða, og var rætt um þetta landslið sem kjölfestuna í landsliði HM í handbolta á Íslandi 1995.

Hann varð bikarmeistari með Val þetta ár. Næsta tímabil á eftir var hann orðinn lykilmaður í Valsliðinu og fastamaður í landsliðshópnum. Landsliðið keppti í undankeppni fyrir Evrópumót landsliða um haustið en því tókst ekki enn að komast í lokakeppnina. Valsmenn verja Íslandsmeistaratitil sinn árið 1994 og nú átti Ólafur stóran þátt í því.

Haustið 1994 varð Ólafur hins vegar fyrir alvarlegum meiðslum þegar hann sleit krossbönd í vinstra hné. Þar með var hann úr leik fram í febrúar. Þegar hann náði heilsu tók við baráttan bæði í deildinni með Val og með landsliðinu í að undirbúa HM á Íslandi. Undirbúningsleikirnir gengu flestir vel en á HM tókst íslenska liðinu ekki að standa undir væntingum og hafnaði það í tólfta sæti. Ólafur og Sigurður Sveinsson skiptu með sér skyttustöðunni hægra megin á mótinu.

Ólafur varð Íslandsmeistari með Val þetta ár. Hann var á tímabili í viðræðum við Aftureldingu um að leika með þeim næsta tímabil á eftir en ákvað svo að leika áfram með Val.

Á næsta tímabili bar hæst hjá Ólafi persónulega þegar hann kom Valsmönnum áfram í Evrópukeppni meistaraliða, með marki beint úr aukakasti. Andstæðingurinn þá var CSKA Moskva og fóru báðir leikirnir fram í Rússlandi. Valsliðið hafði gert jafntefli í fyrri leiknum og staðan var jöfn þegar leiktíminn rann út eftir síðari leikinn, en Ólafur tryggði sigurinn á þennan eftirminnilega hátt. En landsliðinu tókst ekki að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumóts landsliða.

Árið 1996 var Ólafur valinn besti leikmaður Íslands í Japanskeppninni en það var æfingamót sem Íslendingar tóku þátt í í Kumamoto í Japan ásamt Japönum, Suður-Kóreumönnum og Norðmönnum. Íslendingar unnu jafnframt sigur á mótinu. Ólafur varð Íslandsmeistari með Val en liðið vann titilinn fjórða árið í röð. Ólafur gat því kvatt liðið með Íslandsmeistaratitli því að um sumarið gekk hann til liðs við þýska liðið Wuppertal, sem þá var í 2. deild.

Í desember tryggði íslenska landsliðið sér svo sæti á HM í Kumamoto með tveimur eftirminnilegum sigrum á Dönum. Ólafur átti sérstaklega góðan leik í útileiknum, sem fram fór í Álaborg, þar sem hann tók hvern þrumufleyginn á fætur öðrum. Og um vorið, þegar HM í Kumamoto fór fram, var Ólafur einn af hetjunum sem náðu fimmta sæti á mótinu, sem er besti árangur sem íslenskt handboltalandslið hefur náð á heimsmeistaramóti. Ólafur var einnig kjölfesta í liði Wuppertal sem vann sér sæti í þýsku 1. deildinni. Í nóvember þetta ár skrifaði hann svo undir samning við annað þýskt lið, Magdeburg, eitt sterkasta lið Þýskalands, um að leika með því frá og með haustinu 1998. Fjögur önnur lið höfðu þá áhuga á að fá hann til sín en Magdeburg varð fyrir valinu, og sótti liðið mjög fast að fá Ólaf þar sem hann var talinn einn sá efnilegasti sem fram hefði komið í Þýskalandi lengi. Tímaritið Handball Magazin taldi Ólaf þar að auki með bestu örvhentu skyttum deildarinnar, þannig að ljóst var að Þjóðverjarnir kunnu að meta það sem Ólafur hafði fram að færa. Landsliðinu tókst hins vegar ekki að komast í úrslit Evrópumótsins.

Ólafur átti gott tímabil með Wuppertal og skildi því við það í góðum málum, í áttunda sæti í deildinni. Í Magdeburg átti hann einnig góðu gengi að fagna, átti hvern stórleikinn á fætur öðrum, sérstaklega eftir áramót, og var markahæsti maður liðsins á tímabilinu. Magdeburg vann Evrópukeppni bikarhafa í handknattleik vorið 1999. Ólafur lét síðar hafa eftir sér í viðtali að þessi vetur hefði sá erfiðasti á ferlinum, þar sem honum leið ekki vel undir stjórn þáverandi þjálfara. Það lagaðist eftir að þjálfaraskipti urðu um áramótin 1998–99. Um haustið tryggði íslenska landsliðið sér sæti í Evrópukeppni landsliða í fyrsta skipti. Þá gerðist Alfreð Gíslason þjálfari Magdeburg og Ólafur framlengdi samning sinn við félagið til ársins 2002. Þessi þrjú ár gengu afar vel hjá Ólafi. Hann var kjörinn besti leikmaður liðsins árið 2000.

Með landsliðinu var gengið misjafnt. Það gekk ekki vel á EM í Króatíu árið 2000 þar sem liðið hafnaði í 12. sæti. Ólafur gaf þó flestar stoðsendingar allra leikmanna mótsins, eða 21. Magdeburg tryggði sér Evrópusæti þetta ár en árið eftir var gengið enn betra. Þá varð liðið þýskur meistari þegar það sigraði Flensburg með sjö marka mun í hreinum úrslitaleik um titilinn. Ólafur var maður leiksins og skoraði níu mörk, auk þess að eiga fjórar stoðsendingar. Hann var kjörinn leikmaður tímabilsins í Þýskalandi með miklum yfirburðum. Auk þess sigraði Magdeburg í Evrópukeppni félagsliða. Árið 2001 féll handboltalandsliðið úr keppni í 16-liða úrslitunum á HM í Frakklandi. Í kjölfarið sagði Þorbjörn Jensson af sér sem landsliðsþjálfari og Guðmundur Guðmundsson var ráðinn í staðinn. Fyrsta verk hans var umspil um sæti á EM í Svíþjóð 2002 gegn Hvítrússum og það tókst, einkum með eftirminnilegum útisigri í fyrri leiknum.

Ólafur var fyrst valinn íþróttamaður ársins árið 2002 og er ljóst að það var einkum fyrir að vera fremstur meðal jafningja hjá íslenska landsliðinu sem hafnaði í fjórða sæti á Evrópumótinu í Svíþjóð. Ólafur varð auk þess markakóngur keppninnar og var valinn í úrvalslið þess. Þetta ár gerði hann samning við spænska liðið Ciudad Real um að ganga til liðs við félagið haustið 2003. Spánverjarnir reyndu að fá hann fyrr, en það tókst ekki. Þar að auki vann Magdeburg sigur í meistaradeild Evrópu og átti Ólafur stóran þátt í því. Ólafur var jafnframt kjörinn besti leikmaður þýsku deildarinnar annað árið í röð.

Síðara árið sem Ólafur var kjörinn, 2003, var ekki jafnglæsilegt, en þó afar gott. Hann var í fararbroddi með landsliðinu, sem náði sjöunda sæti á heimsmeistaramótinu, og tryggði sér þar með sæti á Ólympíuleikunum í Aþenu. Hann er valinn í lið ársins í Þýskalandi og heimsliðið í handknattleik. Magdeburg náði þriðja sætinu í þýsku deildinni og um sumarið gekk hann svo til liðs við Ciudad Real, eitt besta félag Spánar. Þar varð hann strax lykilmaður.

Í byrjun árs 2004 lék Ólafur með íslenska landsliðinu á EM í Slóveníu og þar komst Ísland ekki upp úr riðlakeppninni. Ciudad Real varð spænskur meistari og var þetta fyrsti meistaratitillinn í sögu félagsins. Liðið komst í undanúrslit meistaradeildarinnar og Ólafur var valinn leikmaður tímabilsins af lesendum heimasíðu félagsins.

Handboltalandsliðið tryggði sér sæti á HM í Túnis með öruggum sigri á Ítölum í umspili í júní. Liðið varð svo í 9. sæti á Ólympíuleikunum og var Ólafur valinn í úrvalslið keppninnar og varð sjötti markahæsti leikmaður mótsins. Eftir leikana gaf Ólafur í skyn að hann myndi hugsanlega taka sér frí frá landsliðinu og ekki leika með því á HM í Túnis. Það fór illa í landann en í nóvember ákvað hann að vera með á mótinu.

Eftir Ólympíuleikana sagði Guðmundur Guðmundsson upp störfum og við tók Viggó Sigurðsson. Hans fyrsta stórmót var HM í Túnis og þar komst liðið ekki upp úr riðlakeppninni. Tímabilið hjá Ciudad var heldur ekki fengsælt. Liðið hafnaði í öðru sæti í deildinni, tapaði fyrir Barcelona í úrslitum meistaradeildarinnar og féll úr leik í undanúrslitum bikarkeppninnar. Í júní tryggði landsliðið sér sæti á EM í Sviss 2006 eftir umspil við Hvítrússa og skoraði Ólafur ellefu mörk í leikjunum tveimur. Ólafur var svo enn einu sinni valinn í heimsliðið, nú fyrir leik gegn Rússum í Moskvu í desember. Um haustið var síðan ákveðið að Ólafur tæki við stöðu fyrirliða landsliðsins af Degi Sigurðssyni.

Á Evrópumótinu í Sviss átti Ólafur góða spretti þrátt fyrir að hann yrði fyrir meiðslum og missti af tveimur leikjum í riðlakeppninni. Besti leikur hans var í góðum sigri á Rússum þar sem hann skoraði átta mörk. Landsliðið hafnaði í áttunda sæti en Ólafur var valinn í úrvalslið mótsins að því loknu. Hann setti markamet með landsliðinu á mótinu og bætti met Kristjáns Arasonar sem hafði skorað 1.089 mörk með liðinu. Ólafur varð Evrópumeistari í annað sinn á ferlinum þegar hann vann meistaradeildina með Ciudad Real. Í síðari úrslitaleiknum gegn Portland San Antonio átti hann stjörnuleik og skoraði sjö mörk.

Árangur Ólafs 2002:

26. janúar: Ólafur skorar níu mörk í 31-25 sigri Íslendinga á Slóvenum á Evrópumótinu í Svíþjóð.

27. janúar: Íslendingar vinna glæsilegan sigur á Svisslendingum, 33-22, í lokaleik sínum í riðlakeppni Evrópumótsins. Ólafur skorar 11 mörk.

30. janúar: Íslendingar vinna frækinn sigur á Júgóslövum, 34-26, á Evrópumótinu. Ólafur fer fyrir sínum mönnum og skorar 10 mörk.

31. janúar: Íslendingar vinna Þjóðverja 29-24 á Evrópumótinu. Ólafur skorar fimm mörk.

2. febrúar: Íslendingar tapa fyrir Svíum 33-22 í undanúrslitum Evrópumótsins. Ólafur skorar sex mörk.

3. febrúar: Ólafur skorar fimm mörk þegar liðið tapar fyrir Dönum 29-22 í leik um bronsverðlaunin á Evrópumótinu. Hann verður þar með markakóngur mótsins með 58 mörk, einu marki meira en Stefan Lövgren.

3. febrúar: Ólafur er valinn í úrvalslið Evrópumótsins í Svíþjóð.

9. mars: Ólafur semur við spænska félagið Ciudad Real um að ganga til liðs við félagið haustið 2003, eða eftir eitt og hálft ár.

11. mars: Forsvarsmenn Ciudad Real segjast vonast til að Ólafur gangi til liðs við félagið strax um haustið, en ekki haustið 2003. Þeir segja aðauðveldara verði að fá hann ef Magdeburg vinnur Evrópubikarinn.

23. mars: Ólafur skorar tíu mörk þegar Magdeburg burstar Kolding 29-19 í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu.

27. mars: Ólafur skorar tíu mörk þegar Magdeburg sigrar Kiel 27-25 í þýsku deildinni.

7. apríl: Magdeburg tapar fyrir Lemgo 25-23 í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar. Ólafur skoraði átta mörk í leiknum.

27. apríl: Ólafur verður Evrópumeistari með Magdeburg þegar liðið sigrar ungverska liðið Fotez Vesprém 30-25 í síðari leik liðanna um sigur í Meistaradeild Evrópu. Magdeburg hafði tapað fyrri leiknum með tveimur mörkum og sigraði því í viðureigninni samanlagt með þremur mörkum. Ólafur tryggði sigurinn með því að skora 29. markið 45 sekúndum fyrir leikslok en hann gerði alls sjö mörk í leiknum. Þetta varí fyrsta sinn sem Íslendingur var í sigurliði í Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeildinni.

30. apríl: Alfreð Gíslason, þjálfari Ólafs hjá Magdeburg, lýsir því yfirað ef Ólafur fari til Ciudad Real strax um haustið sé hann hættur þjálfun liðsins.

16. maí: Ólafur er valinn í heimsliðið sem keppa á við Egypta, 28. maí. Hann getur ekki leikið þann leik vegna landsleikja.

22. maí: Greint erfrá því að Ólafur verði áfram hjá Magdeburg á næsta tímabili og fari ekki til Ciudad Real fyrr en árið 2003.

25. maí: Ólafur er í 5.-6. sæti yfirmarka hæstu leikmenn þýsku deildarinnar, með 217 mörk í 34 leikjum.

29. maí: Ólafur er valinn til þátttöku í Stjörnuleik þýska handknattleikssambandsins. Hann getur hins vegar ekki tekið þátt í leiknum vegna landsleiks.

29. maí: Ólafur er útnefndur besti leikmaður þýsku deildarinnar annað árið í röð af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

5. október: Ólafur skorar níu mörk í 37-34 sigri Magdeburg á Minden í þýsku úrvalsdeildinni.

30. nóvember: Ólafur skorar átta mörk þegar Magdeburg tryggir sér sæti í 8-liða úrslitum meistaradeildar Evrópu með 31-29 sigri á pólska liðinu Wisla Plock.

Árangur Ólafs 2003:

29. janúar: Ólafur skorar sjö mörk gegn Pólverjum. Hann nær þeim áfanga að skora sitt hundraðasta mark á HM og er annar íslenski leikmaðurinn til þess, á eftir Patreki Jóhannessyni.

30. janúar: Ólafur skorar átta mörk þegar Ísland tapar 32-31 í 8-liða úrslitum á HM í handbolta í Portúgal.

1. febrúar: Íslendingar tapar fyrir Rússum 27-30, í keppni um hvort liðið leikurum fimmta sæti heimsmeistaramótsins. Ólafur skorar níu mörk.

2. febrúar: Ólafur skorar ellefu mörk í sigurleik gegn Júgóslövum, 32-27, í leiknum um sjöunda sætið á heimsmeistaramótinu. Með sigrinum tryggir landsliðið sér sæti á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004. Þetta er í tíunda sinn sem Ólafur skorar tíu mörk eða meira í landsleik og þar með jafnar hann met Kristjáns Arasonar.

5. apríl: Ólafur fer á kostum og skorar ellefu mörk fyrir Magdeburg í 32-29 útisigri gegn Kiel.

23. maí: Ólafur er valinn til þátttöku í stjörnuleik þýska handknattleiksins. Hann getur ekki tekið þátt í honum vegna æfinga með landsliðinu.

26. maí: Ólafur leikur sinn síðasta leik með Magdeburg, skorarfimm mörk í 36-25 sigri á Grosswallstadt. Magdeburg endar í þriðja sæti í deildinni.

18. júní: Ólafur er í liði ársins í Þýskalandi sem Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja, velur í samráði við handboltatímaritið Handball Woche.

25. júlí: Ólafur hafnar í þriðja sæti í kjörinu um besta leikmann þýsku deildarinnar. Hann hafði verið kosinn bestur næstu tvö ár á undan.

18. ágúst: Ólafur er valinn í heimsliðið í handknattleik sem mætir Rússum 28. desember og Þjóðverjum 30. mars 2004. Getur ekki leikið gegn Rússum vegna leikja í spænsku deildinni.

10. september: Ólafur skorar ellefu mörk í fyrsta opinbera leik sínum með Ciudad Real, gegn Barcelona í meistarakeppninni. Barcelona sigrar 26-25.

17. desember: Ólafur skorar sjö mörk þegar Ciudad Real vinnur Barcelona í toppslag spænsku deildarinnar.

30. desember: Ólafur er langmarkahæsti leikmaður Ciudad Real á leiktíðinni, með 165 mörk í deildinni.

Tagged with: