Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)

Eiður Smári er sá knattspyrnumaður sem náð hefur lengst á síðustu árum. Hann hefur verið kjölfestan í íslenska landsliðinu og gert góða hluti í liðum á borð við Chelsea og Barcelona.

Eiður Smári fæddist árið 1978, skömmu eftir að faðir hans, Arnór Guðjohnsen, hafði gert samning við belgíska félagið Lokeren. Það kom fljótlega í ljós að knattspyrnan var Eiði í blóð borin og fór hann fljótlega að æfa af fullum krafti – í Belgíu á veturna þar sem hann spilaði mikið við sér eldri stráka og með ÍR á sumrin. Tíu ára varð hann meðal annars markakóngur á Tommamótinu í Vestmannaeyjum.

Eiður vann sér fljótlega sæti í drengjalandsliðinu (U16) og var meðal annars í liðinu sem hafnaði í þriðja sæti á Norðurlandamótinu. Hann skoraði þar jöfnunarmark og síðasta markið í vítakeppni í leiknum um þriðja sætið. Þá var hann ekki orðinn 14 ára og yngsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu. Í kjölfarið var þegar farið að ræða um Eið Smára sem einn efnilegasta knattspyrnumann landsins. Árið 1993 skipti hann um félag á Íslandi og gekk til liðs við Val. Hann skoraði mikið með þriðja flokki Vals þetta sumar.

Eiður Smári lék fyrsta leik sinn í 1. deild snemma sumars 1994 með Val og var þá yngsti leikmaðurinn til að leika í deildinni, þegar hann lék með Val gegn Keflavík 24. maí. Hann var þá 15 ára og 250 daga gamall og bætti met Þorbjörns Atla Sveinssonar um 20 daga. Hann lagði upp mark í leiknum og átti prýðisleik.

Eiður sló í gegn þetta sumar með Val, skoraði sjö mörk í deildinni og var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hann æfði með mörgum erlendum liðum þetta ár, meðal annars Barcelona, Feyenoord og Anderlecht. Um haustið, nánar tiltekið 10. nóvember, gerði hann atvinnumannssamning við PSV Eindhoven. Hann varð þar með yngsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu, 16 ára og 56 daga gamall. Samningurinn var til vorsins 1997. Þetta ár lék Eiður sína fyrstu 21 árs landsleiki og var fastamaður bæði þar og í átján ára liðinu, auk þess sem hann lék með 16 ára liðinu á árinu.

Á fyrsta tímabili sínu með Eindhoven lék Eiður með unglinga og varaliðinu og fékk einstaka tækifæri með aðalliðinu í æfingaleikjum. Þar stóð hann sig jafnan vel. Fyrir tímabilið 1995–96 var Eiður valinn í leikmannahóp aðalliðsins. Hann var áfram fastamaður í 21 árs landsliðinu en því gekk heldur illa í undankeppni.

Eiður lék fyrsta leik sinn með aðalliði PSV í janúar 1996. Í apríl gerðust þau tímamót að Eiður Smári var valinn í landsliðshópinn fyrir æfingaferð til Eistlands, ásamt Arnóri föður sínum, en þeir höfðu báðir lýst því yfir að draumur þeirra væri að leika saman með landsliðinu. Þá hafði Eiður leikið nokkra leiki í byrjunarliði PSV og skorað þrjú mörk í hollensku deildinni. 24. apríl lék Eiður sinn fyrsta A-landsleik og kom þá inn á fyrir föður sinn í æfingaleik gegn Eistum. Íslendingar unnu leikinn 3-0. Ekki tókst feðgunum að leika saman en almennt voru menn á því að þess yrði ekki langt að bíða. En 7. maí dundi ógæfan yfir. Brotið var gróflega á Eiði í leik með íslenska unglingalandsliðinu gegn því írska með þeim afleiðingum að hægri sperrileggur brotnaði og tvö liðbönd slitnuðu. Við tók endurhæfing sem átti að taka nokkra mánuði, en tók svo á endanum tvö ár.

Vorið 1998 ákvað Eiður Smári að flytja aftur til Íslands og lék með KR. Hann þótti þó afar þungur og ekki höfðu allir trú á að hann næði fyrri styrk. En Colin Todd, framkvæmdastjóri Bolton, sýndi Eiði áhuga, en Bolton lék þá í næstefstu deild á Englandi. Svo fór að Eiður samdi við Bolton í ágúst. Colin Todd sagði við það tækifæri: „Ég held að forráðamenn PSV muni fylgjast vel með gangi mála og átti sig á því að það voru mistök hjá þeim að sleppa af honum hendinni.“

Þetta átti eftir að koma á daginn. Það tók Eið smátíma að komast í form en í mars fór hann að skora reglulega fyrir Bolton og sú frammistaða tryggði honum sæti í íslenska landsliðshópnum. Hann þurfti þó að draga sig út úr honum vegna meiðsla.

Bolton komst í umspil um laust sæti í úrvalsdeildinni vorið 1999 en tókst ekki að komast alla leið. Þá skoraði Eiður sitt fyrsta mark með landsliðinu þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Andorra í 3-0 sigri.

Eiður sló svo í gegn með Bolton á tímabilinu 1999–2000 en félaginu mistókst aftur að komast í ensku úrvalsdeildina. Hann skoraði sjálfur 22 mörk fyrir félagið þetta tímabil og um sumarið sýndi fjöldi félaga honum áhuga. Eiður ákvað hins vegar að ganga til liðs við Chelsea og gerði fimm ára samning við félagið. Chelsea greiddi 460 milljónir króna fyrir Eið og varð hann þar með dýrasti íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni.

Eiður byrjaði gríðarlega vel með Chelsea. Hann skoraði fyrsta mark sitt í byrjun október í fyrsta leik sínum í byrjunarliðinu en þá gerði hann lokamarkið í 3-0 sigri á Liverpool. Hann hafnaði í 15.–17. sæti yfir markahæstu menn úrvalsdeildarinnar, þrátt fyrir að detta inn og út úr liðinu. Tímabilið 2001-2002 varð hann í 7.-8. sæti með 14 mörk í úrvalsdeildinni en Chelsea-liðið hafnaði í sjötta sæti í deildinni. Þá var rætt sérstaklega um hvað hann og Jimmy Floyd Hasselbaink næðu vel saman í framlínu liðsins.

Sumarið 2003 urðu tíðindi hjá Chelsea þegar rússneski auðjöfurinn Roman Abramovich keypti félagið og við það komu gríðarlegir fjármunir til leikmannakaupa. Tveir nýir sóknarmenn voru keyptir, Adrian Mutu og Hernan Crespo, og því voru miklar vangaveltur um framtíð Eiðs hjá félaginu. Eiður var þrátt fyrir þetta nokkuð reglulega í liði Chelsea og í nóvember skoraði hann sitt fimmtugasta mark fyrir félagið. Árið 2003 urðu einnig þau tímamót að hann gegndi í fyrsta sinn stöðu fyrirliða íslenska landsliðsins.

Fyrra árið, sem Eiður var valinn íþróttamaður ársins, 2004, skoraði hann mikið fyrir landsliðið, eða fimm mörk alls. Hápunktur landsliðsins var sigur á Ítölum á Laugardalsvellinum, 2-0, frammi fyrir 20 þúsund manns, en Eiður skoraði fyrra mark Íslendinga. Chelsea komst í undanúrslit meistaradeildarinnar. Þetta sumar kom enn ein stórstjarnan í sókn Chelsea, Didier Drogba.

Árið eftir varð Eiður Smári enskur meistari með Chelsea og var mikilvægur hlekkur í þessu meistaraliði. Eiður Smári átti einnig stóran þátt í deildarbikarsigri Chelsea, en hann kom þá inn á í úrslitaleiknum þegar staðan var 1-0 fyrir Liverpool, lífgaði mikið upp á liðið og svo fór að Chelsea sigraði í framlengdum leik 3-2. Chelsea komst að auki í undanúrslit meistaradeildarinnar annað árið í röð. Hann lék töluvert í stöðu miðjumanns á árinu og stóð sig vel í því hlutverki.

Eiður varð aftur enskur meistari með Chelsea árið 2006. Um sumarið byrjuðu enskir fjölmiðlar að íhuga framtíð hans og orða hann við ýmis lið sem þeir reyndar gerðu alltaf öðru hverju. En nú reyndist eitthvað á bak við þessar fréttir og Chelsea ákvað að selja Eið til Barcelona í júní. Hann lék prýðilega á sínu fyrsta tímabili þrátt fyrir að vera ekki alltaf í byrjunarliðinu. Eiður Smári lenti í meiðslum sumarið 2007 og missti af byrjun keppnistímabilsins. En hann sló svo markamet Ríkharðs Jónssonar í október 2007 þegar hann skoraði tvö mörk í tapleik gegn Lettum á Laugardalsvelli í undankeppni EM.

Eiður er nú á besta aldri atvinnuknattspyrnumannsins og því sér enn ekki fyrir endann á glæsilegum ferli hans.

Árangur Eiðs Smára 2004:

20. júlí: Eiður Smári skrifar undir nýjan fjögurra ára samning við Chelsea.

15. ágúst: Eiður Smári skorar sigurmark Chelsea gegn Man. Utd. í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

18. ágúst: Eiður Smári skorar fyrra mark Íslands í fræknum 2-0 sigri á Ítölum í æfingaleik á Laugardalsvellinum fyrir framan tuttugu þúsund manns.

4. september: Eiður skorar mark Íslands í 1-3 tapi gegn Búlgörum á Laugardalsvellinum í undankeppni HM.

8. september: Eiður Smári skorar fyrir Ísland í 2-3 tapi gegn Ungverjum á útivelli í undankeppni HM.

13. október: Eiður Smári skorar eina mark Íslands í 1-4 tapi gegn Svíum á Laugardalsvellinum. Þetta var þrettánda mark Eiðs með landsliðinu.

20. október: Eiður Smári skorar eitt mark og leggur annað upp í 2-0 sigri Chelsea á CSKA Moskvu í Meistaradeild Evrópu.

23. október: Eiður skorar þrennu í 4-1 sigri Chelsea á Blackburn í ensku úrvalsdeildinni.

Árangur Eiðs 2005:

10. janúar: Eiður er fyrirliði Chelsea í 3-1 sigri liðsins á Scunthorpe í enska bikarnum og skorar eitt marka liðsins. Þetta varí fyrsta sinn sem Eiður var fyrirliði Chelsea í heilum leik.

13. janúar: Eiður verður fyrstur af þáverandi leikmönnum Chelsea til að leika 200 leiki fyrirfélagið. Hann nær þessum áfanga í leik gegn Manchester United í undanúrslitum deildarbikarsins.

8. mars: Eiður Smári skorar eitt marka Chelsea í 4-2 sigri gegn Barcelona í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar. Sigurinn tryggði Chelsea sæti í 8-liða úrslitum.

4. júní: Eiður Smári skorar eitt marka Íslands í 2-3 tapi gegn Ungverjum í undankeppni HM á Laugardalsvellinum.

8. júní: Eiður Smári skorarí 4-1 sigri íslenska landsliðsins á Möltu í sömu keppni.

17. júní: Eiður Smári er sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir íþróttaafrek.

3. september: Eiður Smári skorar fyrir Ísland þegar liðið tapar fyrir Króötum 1-3 í undankeppni HM á Laugardalsvellinum.

Tagged with: