Texti: Hallgrímur Indriðason, úr bókinni Hetjurnar okkar (2007)
Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið kjölfestan í íslenska handboltalandsliðinu undanfarin ár. Árið, sem hann var kjörinn íþróttamaður ársins, 2006, fór hann fyrirliðinu þegar það náði góðum árangri á Evrópumótinu í Sviss 2006 og var að auki valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar.
Guðjón Valur er fæddur árið 1979 og ólst upp á Seltjarnarnesi. Hann hóf handknattleiksiðkun átta ára gamall með Gróttu, skipti svo yfir í KR eftir hálft ár en tólf ára skipti hann aftur yfir í Gróttu þar sem félagar hans voru allir þar. Hann æfði einnig knattspyrnu á þessum tíma. Hann komst fyrst í leikmannahóp meistaraflokks árið 1995, þegar Grótta lék gegn KA, en sumarið áður ákvað hann að einbeita sér að þeirri íþrótt og hætta í knattspyrnunni. Þá neyddist hann til að vera í varabúningi KA þar sem búningar Gróttu fóru ekki með liðinu norður. Þetta var þar með fyrsti leikur Guðjóns í KA-búningi, en alls ekki sá síðasti. Guðjón Valur var þá þegar orðinn fastamaður í yngri landsliðum, en lék þá mest sem miðjumaður eða skytta.
Framganga Guðjóns vakti strax athygli og árið 1996, þegar hann var 17 ára gamall, var hann meðal annars útnefndur íþróttamaður Seltjarnarness. Árið 1998 skipti Guðjón Valur yfir í KA og varð smátt og smátt kjölfestan í liðinu. Guðjón Valur var fyrst valinn í landsliðið haustið 1999 þegar þáverandi landsliðsþjálfari, Þorbjörn Jensson, ákvað að verðlauna hann fyrir góða frammistöðu með unglingalandsliðinu. Guðjón Valur tók svo þátt í sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu í janúar 2000, á EM í Króatíu. Vorið 2000 var Guðjón Valur svo valinn besti leikmaður Íslandsmótsins í handknattleik á lokahófi HSÍ. Og 2001 varð hann svo Íslandsmeistari með KA og var aftur valinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Í undanúrslitunum á Íslandsmótinu skoraði hann meðal annars sigurmark KA gegn Aftureldingu beint úr aukakasti í bráðabana eftir tvíframlengdan leik. Þetta tryggði liðinu sæti í úrslitum.
Í maí 2001 skrifaði Guðjón Valur undir þriggja ára samning við þýska úrvalsdeildarliðið Essen. Hann sló strax í gegn hjá félaginu og var reglulega valinn í lið vikunnar hjá helstu fjölmiðlum í Þýskalandi.
Í byrjun árs 2002 lék Guðjón með landsliðinu sem náði fjórða sæti á eftirminnilegan hátt á Evrópumótinu í Svíþjóð. Guðjón lék stórt hlutverk á mótinu og spilaði stóran hluta þess í vinstra horninu vegna meiðsla Gústafs Bjarnasonar. Á þessu móti eignaði Guðjón Valur sér endanlega stöðu vinstri hornamanns í landsliðinu. Hann hélt áfram að eiga frábæra leiki bæði með landsliðinu og Essen, og varð á þessu ári í raun kjölfesta í báðum þessum liðum. Á HM í Portúgal snemma árs 2003 tókst Íslendingum að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Aþenu og átti Guðjón Valur stóran þátt í því. Um vorið var Guðjón Valur svo valinn í stjörnuleik þýska handboltans og fékk meira að segja flest atkvæði af vinstri hornamönnum þýsku deildarinnar. Hann gat hins vegar ekki tekið þátt í leiknum vegna leikja með íslenska landsliðinu.
Íslenska landsliðið komst á EM 2004 en náði ekki að komast upp úr riðlakeppninni. Guðjón Valur var áfram kjölfestan í Essen-liðinu og Handball Woche útnefndi Guðjón Val fimmta besta hornamanninn í þýsku deildinni fyrir tímabilið 2003–2004. Á Ólympíuleikunum lék Guðjón Valur hverja einustu mínútu sem landsliðið spilaði og höfnuðu Íslendingar þar í níunda sæti. Guðjón lék áfram prýðilega með Essen en í desember var tilkynnt að Guðjón Valur mundi yfirgefa félagið um vorið og ganga þá til liðs við Gummersbach.
Í ársbyrjun 2005 lék Guðjón Valur með landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Túnis en þar komst liðið ekki upp úr riðlakeppninni. Guðjón Valur endaði hins vegar ferilinn hjá Essen þá um vorið með stæl en þá sigraði liðið í Evrópukeppni félagsliða á ótrúlegan hátt. Liðið hafði tapaði fyrri leiknum, gegn Magdeburg, með átta marka mun en vann seinni leikinn með níu mörkum, meðal annars með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins. Guðjón Valur gerði eitt þessara marka.
Það reyndist ekki vandamál fyrir Guðjón Val að ganga til liðs við sterkara félag, þ.e. Gummersbach, en félagið er það sigursælasta í Þýskalandi frá upphafi. Hann fann sig strax vel og varð snemma í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar. Þetta lagði grunninn að frábæru gengi hans árið sem hann var kjörinn íþróttamaður ársins, 2006. Þá varð hann kjörinn leikmaður ársins í þýsku deildinni auk þess að verða markakóngur deildarinnar. Lið Gummersbach hafnaði í þriðja sæti í þýsku deildinni. Þá lék hann mjög vel með landsliðinu, bæði á Evrópumótinu í Sviss og í eftirminnilegum sigri í tveimur leikjum gegn Svíum þar sem liðið tryggði sér sæti í heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2007. Um sumarið var Guðjón Valur svo útnefndur fyrirliði Gummersbach sem sýndi kannski hvað best hversu mikilvægur hann var orðinn fyrir liðið.
Guðjón Valur hélt uppteknum hætti á tímabilinu 2006–2007. Hann var í eldlínunni á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi þar sem Íslendingar voru hársbreidd frá því að komast í undanúrslit en töpuðu fyrir Dönum í 8-liða úrslitum í tvíframlengdum og dramatískum leik. Eftir það var allur vindur úr liðinu og það endaði í áttunda sæti. Guðjón varð hins vegar markakóngur keppninnar með 66 mörk, níu mörkum meira en næsti maður. Þá varð hann næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni, og markahæstur ef vítaköst voru dregin frá.
Guðjón Valur er enn á besta aldri í íþróttum og á örugglega mörg góð ár eftir, bæði í atvinnumennskunni og í íslenska landsliðinu.
Árangur Guðjóns Vals 2006:
13. janúar: Guðjón Valur skorar 17 mörk þegar Íslendingar sigra Katar 41-20 á æfingamóti í Kristiansund í Noregi.
26. janúar: Guðjón Valur skorar tíu mörk í sigri Íslands á Serbíu/Svartfjallalandi á EM í handbolta í Sviss.
31. janúar: Guðjón Valur skorar 11 mörk þegar Íslendingar sigra Rússa 34-32 á EM í handbolta, þar á meðal mark í lokin sem tryggirÍslendingum sigurinn. Þetta var fyrsti sigurÍslendinga á Rússum á stórmóti.
1. febrúar: Guðjón Valur skorar átta mörk þegar Íslendingar tapa fyrir Króötum 28-29 á EM.
5. júní: Guðjón Valur er valinn besti leikmaður þýsku deildarkeppninnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar. Hann er auk þess markakóngur deildarinnar með 264 mörk í 34 leikjum, eða 7,8 mörk í leik.
12. júní: Guðjón Valur er valinn í lið ársins í þýsku deildinni hjá þýska handknattleiksblaðinu Handball Woche.
10. ágúst: Gummersbach útnefnir Guðjón Val sem fyrirliða félagsins.
1. október: Guðjón Valur skorar 16 mörk þegar Gummersbach sigrar Fram 38-26 í Meistaradeild Evrópu í Laugardalshöll.
22. nóvember: Guðjón Valur á stórleik og skorar 11 mörk úr jafnmörgum tilraunum þegar Gummarsbach sigrar Göppingen 41-33 í þýsku Bundesligunni.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



