„Þetta er tvímælaust mesta viðurkenning sem ég hef hlotið á mínum ferli til þessa. Engin verðlaun hafa komið mér jafnmikið á óvart og þessi. Þegar ég kom á Grand Hótel í kvöld þá vissi ég það eitt að ég væri í hópi tíu frábærra íþróttamanna sem til greina kæmu,“ sagði hin 21 árs gamla knattspyrnukona, Margrét Lára Viðarsdóttir, við Morgunblaðið, hálfklökk eftir að hafa verið valin íþróttamaður ársins 2007 með nokkrum yfirburðum af Samtökum íþróttafréttamanna í hófi á Grand Hóteli.
Margrét Lára er fyrsta knattspyrnukonan sem hlýtur þessa viðurkenningu, sem var afhenti í 52. sinn í gær, og fjórða konan sem kosin er íþróttamaður ársins.
Margrét Lára er fremst knattspyrnukvenna hér á landi og hún segir það hafa kostað þrotlausa vinnu frá unga aldri en að hún eigi enn mikla vinnu fyrir höndum til að bæta sig enn frekar. „Ég set mér markmið og legg hart að mér til þess að ná þeim. Það hef ég gert frá unga aldri,“ segir Margrét, sem æft hefur knattspyrnu frá 5 ára aldri. „Ég get örugglega á stundum verið óþolandi í hóp þegar ég rek á eftir félögum mínum um leið og ég legg harðar að sjálfri mér. Ég geri alltaf mestar kröfur til mín.
Ég er hluti af liði í hópíþrótt og án góðra samherja nær maður ekki langt. Það þarf að skapa liðsheild með góðum leikmönnum, það er ekki nóg að hafa einn góðan leikmann. Síðan má ekki gleyma fjölskyldunni og vinum sem staðið hafa þétt við bakið á mér frá unga aldri,“ sagði Margrét Lára, sem hefur leikið með Val síðastliðin þrjú ár eftir að hafa alist upp hjá Tý og síðan ÍBV í Vestmannaeyjum.
„Að sjálfsögðu tel ég mig geta náð lengra í íþróttinni. Ef ég teldi svo ekki vera gæti ég alveg eins lagt skóna á hilluna hér og nú. Ég lít á þessa viðurkenningu sem ég fékk nú sem hvatningu til áframhaldandi dáða um leið og hún segir mér að ég hafi gert eitthvað rétt til þessa,“ segir Margrét Lára sem telur engan vafa leika á því að kjör hennar hvetji stúlkur til þess að iðka knattspyrnu og leggja hart að sér við æfingar.
„Það hefur löngum verið fjarlægur draumur fyrir knattspyrnukonur að ná þessum áfanga, að vera valin íþróttamaður ársins. En í dag eru allar dyr opnar fyrir ungum stúlkum í knattspyrnu, hvort sem það er hér heima eða í útlöndum,“ segir Margrét Lára sem telur að ungar stúlkur sitji við sama borð og ungir drengir hjá knattspyrnufélögum landsins. „Sú var ef til vill ekki raunin fyrir tíu til fimmtán árum en nú tel ég að kynin standi jafnt að vígi hjá félögunum og stúlkur hafi jafna möguleika á við stráka til að ná árangri og fái um leið jafnhæfa þjálfara. Ég hvet ungar stúlkur til þess að æfa knattspyrnu og æfa vel.
Það sem skilur að á alþjóðlegum vettvangi er að miklu meiri peningar eru í karlaknattspyrnu en kvennaknattspyrnu og því verður sennilega aldrei breytt, enda eru peningar ekki aðalatriði í íþróttum.“
Margrét Lára æfir allan ársins hring og það hefur hún gert árum saman. Hún segir æfingaálag sitt vera svipað og hjá sundmönnum og fimleikamönnum. „Ég æfi álíka mikið og fremsta íþróttafólk okkar í einstaklingsíþróttum sem er keppast við að komast á ólympíuleika. Þótt ég sé í hópíþrótt þá tel ég það vera nauðsynlegt að æfa gríðarlega mikið til að taka framförum þannig að lið mitt verði betra. Þótt lið sé hópur leikmanna þá skiptir miklu máli hvað hver einstaklingur innan þess gerir og leggur á sig.
Auk þess að æfa mikið legg ég mikinn metnað í hverja æfingu, ég vil verða betri með hverri æfingu. Ég fer á æfingu til þess að taka framförum og legg þar af leiðandi alla þá orku sem ég hef í æfingarnar. Aðeins þannig tel ég að maður geti afrekað eitthvað. Það er ekki nóg að mæta á æfingu ef maður sinnir henni ekki af fullum þunga, það er tímasóun,“ segir þessi metnaðarfulla knattspyrnukona sem kom beint af æfingu í hófið þar sem hún tók við æðstu viðurkenningu sem afhent er íslenskum íþróttamanni ár hvert.
Margrét Lára er þögul þegar hún er spurð um markmið sín á komandi ári. „Það er best að segja sem minnst fyrir utan að ég ætla að leggja enn harðar að mér við æfingar til að taka framförum. Ég er ekki á toppnum sem knattspyrnukona um þessar mundir. Ég á margt ólært og ógert í íþrótt minni sem ég stefni á að ná á næstu árum,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona úr Val, landsliðskona og íþróttamaður ársins 2007 hjá Samtökum íþróttafréttamanna.
Úr Morgunblaðinu
Hóf íþróttamanns ársins 2007
Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



