Alexander Petersson var í gær kosinn íþróttamaður ársins og endurskrifaði um leið 55 ára sögu kjörsins með því að verða fyrsti íþróttamaður ársins sem er af erlendu bergi brotinn en Alexander er búinn að vera íslenskur ríkisborgari í sex ár.
“Þetta er bara frábært og kom mjög mikið á óvart. Ég bjóst alls ekki við þessu. Ég er enn að átta mig á þessu og því að allir séu að óska mér til hamingju með að vera íþróttamaður ársins. Þetta er stórkostleg stund í mínu íþróttalífi,” sagði Alexander strax eftir kjörið greinilega hrærður að hafa fengið styttuna stóru í hendurnar.
Alexander er sjötti handboltamaðurinn á síðustu níu árum sem er kosinn Íþróttamaður ársins en alls hefur handboltamaður hlotið þennan heiður ellefu sinnum. Kosningin var mjög jöfn og munaði aðeins 24 stigum á Alexander og knattspyrnumanninum Gylfa Þór Sigurðssyni sem varð annar. Hópfimleikakonan Íris Mist Magnúsdóttir varð síðan í þriðja sæti sem er besti árangur fimleikakonu frá upphafi í kjörinu.
Alexander tekur við styttunni af Ólafi Stefánssyni sem hefur varðveitt hana tvö síðustu ár. “Ég horfði mikið upp til Óla og núna tíu árum seinna fæ ég að fylgja eftir í hans fótspor og fá þessi verðlaun. Það er mjög skemmtilegt,” sagði Alexander.
Ólafur hrósaði líka Alexander í gær. “Alex á þetta svo sannarlega skilið af því að það er frábært að hann skuli fá viðurkenningu fyrir alla þá vinnu sem hann er að leggja á sig. Mér líður ennþá betur með að hann fái þetta. Oft þegar ég kem á landsliðsæfingar þá hálf skammast ég mín fyrir að vera að halda stöðunni frá honum því hann er það góður í henni. Skotin hans eru mögnuð og sprengikrafturinn er mikill,” segir Ólafur og heldur áfram: “Hann er okkar mikilvægasti leikmaður að mínu mati því að landsliðið fer allt í einu gang þegar hann byrjar að mæta. Hann er líklega töframaðurinn í allri velgengni liðsins. Hann er lítillátur og karakterinn er allur fallegur og góður. Hann tekur þessu öllu með sinni ró og virðist vera stoltur af því að vera Íslendingur,” segir Ólafur.
Alexander átti stóran þátt í því að íslenska landsliðið vann brons á EM í Austurríki en hann var einn af bestu varnarmönnum mótsins og skoraði að auki 3,6 mörk að meðaltali í leik. Það mun enginn heldur gleyma því þegar hann bjargaði marki Pólverja úr hraðaupphlaupi á úrslitastundu í leiknum um þriðja sætið.
“Þetta var rosalega gott ár og það sem meira er það var allt eitthvað nýtt og jákvætt að gerast. Það verður erfitt að toppa þetta ár,” segir Alexander og bætir við: “Það var frábær byrjun á árinu að vinna bronsið á EM og það gaf mér mikið sjálfstraust inn í árið. Ég ætlaði líka að gera allt sem ég get og sýna hvað í mér býr. Ég er búinn að horfa nokkrum sinnum á þetta myndband frá leiknum á móti Póllandi og það hvetur mig alltaf áfram að sjá það,” segir Alexander.
Fram undan er HM í handbolta og þar vonast Alexander til að geta hjálpað landsliðinu áfram. “Ég vona að HM verði skemmtilegt mót og það væri gaman ef ævintýrið héldi bara áfram hjá mér. Þetta síðasta ár er búið að vera þannig að það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast,” segir Alexander.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var stoltur af sínum manni.
“Mér finnst þetta frábært og hann er vel að þessu kominn. Hann er frábær liðsmaður og allt það sem var sagt um hann í kringum kjörið er satt og rétt og það var ekkert verið að ýkja eða gera þetta eitthvað betra en það er. Hann hefur staðið sig frábærlega fyrir íslenska landsliðið,” segir Guðmundur sem segir Alexander alltaf gefa sig hundrað prósent í öll verkefni.
“Hann hefur oft spilað hálfmeiddur en harkað af sér. Hann er hörkutól og við verðum stundum að passa upp á hann að hann geri ekki of mikið því hann kvartar aldrei. Það er hörku víkingseðli og víkingablóð í honum,” segir Guðmundur.
“Þetta er stórkostlegt fyrir mig að fá svona titil og klapp á bakið. Ég get núna sýnt strákunum mínum að ég hafi verið einhvern tímann íþróttamaður ársins. Ég er samt ekki að fara að hætta núna því ég ætla að gera meira og nú er bara að setja stefnuna á að vinna þetta aftur,” segir Alexander. Hann er giftur Eivoru Pálu Blöndal og eiga þau synina Lúkas og Tómas. Eivor var mætt í hófið en strákarnir sátu heima. Alexander vissi þó af þeim fyrir framan sjónvarpið.
“Ég veit að strákarnir mínir voru að horfa á þetta í sjónvarpinu. Eldri strákurinn er orðinn sex ára og hann er alveg með það á hreinu hverjir eru bestir. Hann verður örugglega mjög glaður að geta farið í skólann á morgun og sagt: Pabbi minn er besti íþróttamaður ársins. Þetta verður örugglega mjög stórt fyrir hann,” segir Alexander að lokum.
Óskar Ófeigur Jónsson skrifaði fyrir Fréttablaðið.
Hóf íþróttamanns ársins 2010
Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.
Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn



