„Það sem stendur helst upp úr á árinu er árangurinn með landsliðinu, hinu er ég eiginlega bara búinn að gleyma – það skiptir ekki máli lengur,“ segir Jón Arnór Stefánsson, íþróttamaður ársins 2014. Jón Arnór hlaut 435 atkvæði af 480 mögulegum í kjöri íþróttafréttamanna sem stóðu að valinu í 59. sinn. Í öðru sæti varð knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, með 327 atkvæði og í þriðja sæti hafnaði handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Barcelona, með 303 atkvæði.

Jón Arnór átti magnað ár. Lið hans, CAI Zaragoza fór í undanúrslit í spænska bikarnum, tapaði fyrir Real Madrid í átta liða úrslitum um titilinn og íslenska landsliðið tryggði sér þátttökurétt á EM í körfubolta í fyrsta sinn en þar er Jón Arnór lykilmaður. Í sumar færði hann sig svo um set og samdi við lið Malaga sem er eitt af stóru liðunum á Spáni.

„Ég spilaði með Granada fyrir nokkrum árum og það er bara klukkutíma frá Malaga. Ég og frúin komum oft hingað og ræddum stundum um hvað væri yndislegt að spila hér. Þetta er fallegur bær, svona sumarleyfisstaður og hér er maður með sjóinn og ströndina fyrir framan sig allan daginn. Klúbburinn er stór, liðið er gott og hefur alltaf verið þannig að lífið gæti varla verið betra – ef ég á að vera hreinskilinn.“

Jón Arnór samdi seint við lið Malaga, aðeins viku fyrir mót mætti hann á sína fyrstu æfingu. „Þeir voru í sambandi við mig og við vorum í viðræðum í sumar en svo datt það bara upp fyrir. Svo selja þeir leikmann til liðs í NBA og þá losnaði sæti í liðinu. Þar með fóru viðræður aftur af stað og þeir komu með gott tilboð sem ég tók.

Ég var ekki að fá nein sexý tilboð fram að því. Ég var ekkert að fara að stökkva á hvað sem er því það er margt sem þarf að haldast í hendur og þetta er ákveðið lotterí.“

Konan stendur sem klettur mér við hlið

Jón er mikill fjölskyldumaður og þegar viðtalið fór fram mátti heyra skarkala heimilisins í bakgrunni. Jón og kona hans, Lilja Björk Guðmundsdóttir, eiga tvö börn sem verða tveggja og fjögurra á árinu. „Ég á þeim margt að þakka, konunni minni sérstaklega sem og auðvitað öllum þeim sem hafa stutt við bakið á mér í gegnum tíðina, bæði fjölskyldu og vinum. Það er nokkuð sem maður er þakklátur fyrir.

Konan mín er að fórna miklu – við erum langt frá fjölskyldu og vinum og það lendir á henni að vera mikið með börnin því maður er á miklu flakki og fjarverandi vegna æfinga og leikja. En hún stendur sem klettur mér við hlið sem gerir það að verkum að maður getur einbeitt sér að íþróttinni og þá nær maður árangri. Ég er það lánsamur að vera umvafinn fallegu og góðu fólki og er þakklátur fyrir það.“

Hann segir einnig að Benedikt Guðmundsson eigi sinn þátt í hæfileikum sínum en Benedikt þjálfaði Jón í yngri flokkunum. „Þegar ég var að byrja í körfunni í KR, þá var ég heppinn að lenda á honum sem þjálfara. Hann fórnaði öllum sínum tíma og orku í að þjálfa nokkra gutta og var með ákveðna sýn. Hann tók við þessum ´82 árgangi og við töpuðum ekki leik í einhver ár. Það var skemmtilegur tími og rosalega margar minningar.

Benni kenndi mér margt – meðal annars vinnusemi og hversu miklu það þarf að fórna til að ná árangri, hversu vel þurfti að æfa og svo framvegis. Hann á mjög stóran þátt í mínum ferli. Ingi Þór Steinþórsson líka og auðvitað Friðrik Ingi sem tók mig snemma inn í landsliðið. Ég hef alltaf getað leitað til hans.“

Hefur átt betri ár

Það vakti eðlilega mikla athygli þegar Jón Arnór gaf ekki kost á sér í fyrsta leik Íslands í undankeppni EM en þá var hann ekki búinn að semja við lið Malaga og vildi ekki taka sénsinn á að meiðast. Hann segir að hann hafi legið andvaka nokkrar nætur áður en ákvörðun var tekin. „Ég var þungur yfir þeirri ákvörðun, ég talaði mikið um þetta við mína konu og mína fjölskyldu. Ég ætla að spila nokkur ár í viðbót og þurfti að fara varlega. Þetta var erfið ákvörðun og mér leið hálfpartinn eins og ég væri að bregðast einhverjum og kannski fyrst og fremst sjálfum mér. Að vera ekki með landsliðinu og taka ekki slaginn. Svo stökk ég bara á vagninn eins og þeir sögðu félagar mínir í landsliðinu. Kannski var þetta bara skrifað í skýin að þetta myndi þróast svona,“ segir hann.

Þrátt fyrir að vera valinn núna íþróttamaður ársins segist Jón hafa átt betri ár með félagsliðum sínum í gegnum árin. „Ég hef átt betri ár með félagsliðum en aldrei með landsliðinu. Ég er búinn að vera svo lengi í þessu, sumar eftir sumar og við höfum aldrei náð neinum árangri. Þetta hafa einhvern veginn alltaf orðið vonbrigði og okkur hefur stundum liðið þannig að við værum ekki á leiðinni neitt. Svo komumst við á EM og sú tilfinning er ógleymanleg. Ég átti gott ár með mínu félagsliði en ég fer ekkert í felur með það að ég hef átt betri ár með félagsliðum, en ekki landsliðinu. Fólkið heima tekur auðvitað meira eftir árangri landsliðsins og að fá viðurkenningu fyrir það er auðvitað frábært.“

Benedikt Bóas Hinriksson skrifaði fyrir Morgunblaðið

Tagged with: