Adolf Ingi Erlingsson.

Adolf Ingi Erlingsson.

Adolf Ingi Erlingsson íþróttafréttamaður hjá RÚV heldur í næstu viku til Dúbaí þar sem hann mun kenna á námskeiði fyrir unga íþróttafréttamenn á vegum AIPS, Alþjóða samtaka íþróttafréttamanna. Námskeiðið er haldið í tengslum við heimsmeistaramót U17 ára pilta í knattspyrnu og heldur AIPS námskeiðið í samvinnu við FIFA. Þetta er í fjórða sinn sem AIPS fær Adolf sem leiðbeinanda á námskeið fyrir unga íþróttafréttamenn. Hann hafði áður kennt á námskeiði í Bakú í Aserbaídsjan haustið 2012 í tengslum við HM U17 ára kvenna í knattspyrnu, í Ísrael í upphafi sumarsins í ár í tengslum við Evrópumót U21 árs karla í knattspyrnu og í Lausanne í Sviss í tengslum við fund Alþjóða Ólympíunefndarinnar í byrjun júlí í sumar.

Adolf Ingi sat í framkvæmdastjórn AIPS árin 2009-2013 en hætti í stjórn samtakanna á síðasta ársþingi AIPS í Sochi fyrr á þessu ári. Hann er þó núna ráðgjafi stjórnar AIPS, sem leitar nú til hans enn á ný til að kenna á námskeiði fyrir unga íþróttafréttamenn.

Þetta er í fimmta sinn sem AIPS heldur námskeið fyrir unga íþróttafréttamenn. Einn íslenskur fréttamaður hefur sótt námskeiðin. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, RÚV fór til Shenzhen í Kína sumarið 2011 og til Lausanne í Sviss í sumar. Ferðakostnaður, gisting og uppihald hefur verið greitt að fullu af AIPS.