Aðalfundur Samtaka íþróttafréttamanna var haldinn fimmtudaginn 12. maí. Eiríkur Stefán Ásgeirsson hóf þar síðara ár sitt sem formaður á núverandi kjörtímabili. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var endurkjörinn ritari og Jón Kristján Sigurðsson var endurkjörinn gjaldkeri.

Tómas Þór Þórðarson og Einar Örn Jónsson verða áfram varamenn í stjórn og þá verða Arnar Björnsson og Sindri Sverrisson áfram skoðunarmenn reikninga. Kjörtímabil allra er eitt ár.

Ein umsókn um aðild barst stjórn SÍ, frá Hafliða Breiðfjörð sem starfar sem framkvæmdastjóri og blaðamaður Fótbolti.net. Var umsókn hans samþykkt. Eru nú 25 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna en Þorsteinn Haukur Harðarson og Valtýr Björn Valtýsson ganga nú úr SÍ.

Tvær breytingatillögur á lögum SÍ lágu fyrir og voru báðar samþykktar. Þriðja grein, sem fjallaði um aukafélaga, var felld út og fengu því aðrar greinar ný númer eftir því sem átti við. Þá var viðbót við fjórðu grein, sem nú er þriðja grein, samþykkt.

Fjórar breytingatillögur á reglugerð um kjör íþróttamanns ársins lágu fyrir. Þrjár, sem fjölluðu allar um að breyta kjörinu og kjósa íþróttakarl og -konu ársins í stað íþróttamanns ársins, voru felldar. Sú fjórða var samþykkt en eftir hana er engin sérstök dagsetning tilgreind á hvenær atkvæðaseðlum fyrir kjör íþróttamanns ársins skuli skilað til stjórnar.

Skýrsla stjórnar og reikningur gjaldkera voru lögð fyrir fundinn og samþykkt.

f.h. stjórnar SÍ
Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður