Vel heppnað Norðurlandaþing í Svíþjóð – Næsta þing í Eistlandi

Maí 2007
 
Norðurlandaþing íþróttafréttamanna fór fram í Ronneby í Svíþjóð 3. til 6. maí síðastliðinn.Þingið tókst í alla staði mjög vel og var Svíum til sóma. Stjórn samtaka SÍ fór á þingið, þ.e. Þorsteinn, Guðmundur og Jón Kristján en Hrafnkell forfallaðist á síðustu stundu af óviðráðanlegum orsökum. Ákveðið var að næsta þing fari fram í Eistlandi eftir tvö ár en Eistar hafa verið þátttakendur á Norðurlandaþinginu síðan 1997.

Eftir nokkrar hremmingar að komast til Ronneby þar sem ferðalangarnir þurftu að ganga síðustu kílómetrana á Brunnhótelið og kom um miðja nótt, hófst þingið á fimmtudeginum.

Karin Mattsson, forseti Sænsku íþróttahreyfingarinnar (sænsku ÍSÍ) hélt þar fróðlegt erindi um uppbyggingu og starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Meðlimir íþróttahreyfingarinnar eru 3 milljónir, þar af 2 milljónir sem eru skráðir iðkendur. Talið er að þeir sem eru sjálfboðaliðar í stjórnunarstöðum séu um 600.000, afreksíþróttafólk í Svíþjóð er um 7000 en sérsamböndin eru 65. Íþróttir heyra undir menntamálaráðuneytið sem setur um 16 milljarða íslenskra króna í íþróttahreyfinguna árlega.

Eftir hádegi mættu Lars Åke Lagrell, formaður sænska knattspyrnusambandsins ásamt Sune Hellströmer framkvæmdastjóra og Jonas Nystedt upplýsingafulltrúa. Lagrell hefur verið formaður sænska sambandsins síðan 1992, hvorki meira né minna. Þremenningarnir fóru yfir víðan völl. Það sem vakti mesta athygli er bygging á nýjum knattspyrnuleikvöngum í Svíþjóð. Meðal annars er verið að undirbúa nýjan þjóðarleikvang í Stokkhólmi í stað Råsunda sem var byggður fyrst 1910 og stækkaður 1937.

Stofnað hefur verið hlutafélag um nýja leikvanginn að því standa ríkið, borgin, Sænska knattspyrnusambandið og einkaaðilar. Leikvangurinn mun taka 50.000 manns í sæti, kostnaðaráætlun hljóðar upp á 20 milljarða ísl. kr. og er áætlað að hann verði vígður 2011. Nýi leikvangurinn er skammt frá Råsunda.

Fram kom í máli formannsins að þar sem Svíþjóð hefur komist í úrslit síðustu fjögurra stórmóta hefur það skapað sambandinu fjárhagslegt svigrúm til að lyfta fótboltanum heimafyrir á hærri stall. Mikið átak var gert í því að fá fleiri áhorfendur á völlinn og hefur það skilað sér. Meðal áhorfendafjöldi árið 1992 var 4194 en hefur ríflega tvöfaldast, í fyrra var meðalaðsóknin 9423 á leik.

Hjá stelpunum var meðalsókn 1992 á leik 164 áhorfendur en 814 árið 2006.

Næsta stórverkefni Svía er að halda Evrópumót U21 árs landsliða 2009. Reiknað er með um 200.000 áhorfendum og að sjónvarpsáhorfendur í Evrópu verði um 65 milljónir. Fram kom að Svíþjóð og Noregur eru að íhuga að senda inn sameiginlega umsókn um að halda EM karla 2016. Deginum lauk svo í Orrefors þar sem við fengum að skoða glerverksmiðjuna frægu (Kosta Boda). Þar var boðið í kvöldmat og til þess að rífa upp stemmninguna tók undirritaður upp gítarinn og tók lagið með þingfulltrúum.

Á föstudeginum komu gestir frá sænsku Ólympíunefndinni og var fróðlegt að heyra þá segja frá ótrúlega markvissri uppbyggingu á afreksfólki í sínum röðum. Það er engin tilviljun að Svíar eiga afreksfólk í frjálsum íþróttum í fremst röð í heiminum í dag. Stefan Lindeberg, formaður sænsku Ólympíunefndarinnar sagðist vera umdeildur maður en árangurinn talaði sínu máli.

Fulltrúar frá ATG komu næstir en þeir stýra hestaveðreiðunum í Svíþjóð. Veltan á þeim markaði er um 30 milljarðar ísl. króna á ári sem sýnir að Svíar eru duglegir að veðja á hesta. Um kvöldið fórum við svo á veðreiðar í Kalmar í boði ATG og veðjuðum á nokkrar bykkjur, en án árangurs. Hins vegar var gaman að fylgjast með þessum veðreiðaheimi, hann er afar sérstakur.

Á laugardeginum fór svo fram Norðurlandaþingi sjálft. Þar voru ýmis mál rædd, sérstaklega þau sem tengjast AIPS. Strangt til tekið eiga Norðmenn að halda næsta þing 2009 en Eistar, sem hafa setið þingið frá 1997, buðu að halda næsta þing og var það samþykkt með lófaklappi.

Síðdegis komu gestir frá Sænskum getraunum, sem eru í eigu sænska ríkisins. Það voru þeir Andreas Jansson og Jacob Lagercrantz. Erindi þeir var einkar áhugavert en þeir fóru yfir sænska spilamarkaðinn. Samkvæmt rannsóknum þeirra fara 1,3% af tekjum fólks í tippa eða í lottó. 46% af tekjun Svenska spel fara aftur til tipparanna. Velta Sænsku getraunanna 2006 voru 200 milljarðar, takk fyrir. Fram kom að Sænskar getraunir styrkja íþróttafréttamann á hverju ári til þess að fara út fyrir landsteinana og kafa dýpra ofan í mál, styrkurinn á síðasta ári (2006) fór til íþróttafréttamanns sem ætlar að fara til Íslands að rannsaka hvers vegna litla Ísland framleiðir svo marga góða knattspyrnumenn líkt og raun ber vitni. Útrás íslenskra knattspyrnumanna er því farin að vekja töluverða athygli.

Síðdegis var svo landskeppni í keilu þar sem íslenska sveitin var hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall. Sérstaka athygli vöktu „afturábakssnúningar” Guðmundar Hilmarssonar, annað eins hefur ekki sést á keilubrautum.

Um kvöldið var svo sameiginlegur kvöldverður þar sem skipst var á kveðjum og gjöfum og formenn héldu ræður. Undirritaður flutti lengstu (og örugglega skemmtilegustu) ræðu kvöldsins og höfðu Finnarnir á orði að ,,ef Íslendingar hætta að koma á Norðurlandaþingið, þá hættum við líka að koma”. Það er hins vegar ekki á dagskrá að hætta að mæta, þessi þing eru sannarlega krydd í tilveruna. Þinginu lauk svo á dansleik á hótelinu þar sem Jón Kristján kom sterkur inn á dansgólfinu. Á sunnudeginum var haldið heim á leið en á Reykjanesbrautinni gerðust þau undir og stórmerki að leigubíll sem Guðmundur og Jón Kristján tóku, reyndist ekki burðugri en svo en það hvellsprakk á honum, ekki einu sinni – heldur tvisvar! Annars var þingið Svíunum til mikil sóma.

Þorsteinn Gunnarsson
 

Norðurlandaþing í Svíþjóð 2007

Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.