Eftirfarandi ræðu flutti Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, á hófi Íþróttamanns ársins í Silfurbergi í Hörpu, 30. desember 2015:

Forseti Íslands, Forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Mennta-, menningar- og íþróttamálaráðherra, góðir gestir.

Samtök íþróttafréttamanna útnefna í kvöld Íþróttamann ársins í 60. sinn. Að baki er frábært íþróttaár og erum við Íslendingar svo lánsamir að eiga stóran hóp afreksfólks í íþróttum sem hefur náð framúrskarandi árangri í greinum sínum á alþjóðlegum vettvangi. Í kvöld erum við þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að verðlauna þau allra bestu úr þessum glæsilega hópi.

Íþróttafólkið okkar kemur úr mörgum áttum og vettvangur þess er ólíkur. Það sem þau eiga hins vegar öll sameiginlegt er að hafa lagt á sig ómælda vinnu til að ná þeim árangri sem þau geta státað af. Að baki hvers afreks eru óteljandi klukkustundir þrotlausra æfinga og aukaæfinga.

Það hefur komið sífellt betur í ljós að til þess að komast í fremstu röð þarf ekki aðeins að hlúa að líkamlega þættinum, heldur einnig þeim andlega. Í ár hefur farið fram góð og afar gagnleg umræða um andlega heilsu íþróttamanna, þar sem íþróttafólkið sjálft hefur stigið fram og lýst baráttu sinni við andleg og geðræn vandamál.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu þessu frábæra íþróttafólki fyrir að opna á umræðuna. Viðbrögðin við henni sýna að hennar var svo sannarlega þörf. Í of langan tíma hefur íþróttafólk burðast með þá ímynd að vanlíðan sé veikleikamerki og að leita sér hjálpar við slíkum vanda væri það sama og sýna uppgjöf.

Viðhorfið þarf að breytast. Það á að líta á depurð og kvíða sömu augum og trosnuð liðbönd og tognanir í vöðvum. Það þurfa að vera úrræði til staðar innan íþróttahreyfingarinnar við andlegum veikindum, sem og líkamlegum, og beita sömu rökhugsun um endurhæfingu og uppbyggingu hugans, rétt eins og líkamans eftir alvarleg meiðsli.

Íþróttafólkið okkar hefur opnað á þessa umræðu og nú er það undir okkur hinum komið að halda henni áfram. Forystumenn í íþróttahreyfingunni – hvort sem er hjá sérsamböndum eða félögunum sjálfum – ráðamenn í þjóðfélaginu, fjölmiðlar og aðrir þurfa að taka boltann á lofti og gæta þess að mýtunni um hinn fullkomna íþróttamann verði útrýmt.

Íþróttafólkið okkar hefur um árabil verið frábær fyrirmynd vegna árangurs síns á vellinum. Nú getur það einnig verið fyrirmynd allra þeirra sem glíma við vanlíðan og andleg veikindi, hvort sem viðkomandi leggur stund á íþróttir eða ekki. Íþróttafólkið okkar hefur nú þegar sýnt hvers það er megnugt þrátt fyrir að hafa þurft að yfirstíga margskonar hindranir á leið sinni, sem er ekki síst stærri sigur en að fá verðlaunapening um hálsinn.

Við erum saman komin til að heiðra afreksfólk okkar fyrir glæsileg afrek þess á árinu 2015 og Samtök íþróttafréttamanna eru stolt af því að fá tækifæri til þess í kvöld. Samstarfsaðilar Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.