Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, flutti eftirfarandi ræðu á hófi Íþróttamanns ársins í Gullhömrum í Reykjavík þann 3. janúar 2015:

Forseti Íslands, forseti íþrótta- og ólympíusambands Íslands, mennta- menningar- og íþróttamálaráðherra, góðir gestir.

Kjör íþróttamanns ársins hefur lengi verið umdeilt. Í 59 ár hafa Samtök íþróttafréttamanni staðið að kjörinu og alla tíð hafa margir haft skoðun á því og niðurstöðunni hverju sinni. Það er eðlilegt, enda erfitt að bera saman allt það frábæra íþróttafólk sem við eigum og hampa einum úr þeim hópi sem bestum árangri náði þvert yfir svið allra íþrótta – karla og kvenna, fatlaðra og ófatlaðra, einstaklings og hópíþrótta.

Síðastliðin tólf ár hefur Íþróttamaður ársins komið úr aðeins tveimur íþróttagreinum – handbolta og fótbolta. Fyrir það hefur kjörið fengið nokkra gagnrýni og því er ekki að neita að þessi hópur er nokkuð einsleitur. En í stað þess að skella skuldinni á íþróttafréttamenn tel ég við hæfi að staldra við og skoða hvaða ástæður liggja þar að baki. Hvaða þróun hefur orðið í íslenskum íþróttum undanfarin ár og áratugi sem veldur því að afreksmenn í fótbolta og handbolta virðast standa öðrum íslenskum íþróttamönnum framar?

Þráinn Hafsteinsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar ÍR, ritaði nýverið pistil sem var víða birtur í fjölmiðlum og tel ég að orð hans eigi einkar vel við. Þar sagði hann: „Ef efnilegur íþróttamaður ætlar að verða afreksmaður í öðru en fótbolta eða handbolta þá er hann jafnframt að taka ákvörðun um að vera launalaus og fjárhagslega upp á foreldra eða aðra nákomna kominn meðan á afreksferlinum stendur og þar með slippur og snauður að ferli loknum.“ Orð að sönnu hjá Þráni og sorglegur vitnisburður um stöðu íslensks íþróttalífs.

Afreksmenn í fótbolta og handbolta gerast flestir atvinnumenn í sinni íþrótt og halda af landi brott til að fá stærri áskoranir og meiri samkeppni en þeir hefðu nokkru sinni átt kost á hér á landi. Það er veruleiki sem ekki er til staðar í langflestum öðrum íþróttagreinum. Að minnsta kosti ekki hér á landi.

Íslenska ríkið leggur fram nokkra tugi milljóna ár hvert í svokallaðan afreksmannasjóð sem ætlaður er að mæta þeim gríðarlega kostnaði allra íslenskra afreksmanna í íþróttum – líka í fótbolta og handbolta. Íþróttamennirnir fá sjálfir aldrei eyri úr sjóðnum – heldur aðeins endurgreiðslur fyrir útlögðum kostnaði við æfinga- og keppnisferðir. Og þá aðeins innan þeirra marka sem sérsamböndum þeirra er úthlutað ár hvert.

Íslenskir afreksmenn þurfa að finna aðrar leiðir til að eiga í sig og á en um leið að vinna að því að ná sínum markmiðum, láta drauma sína rætast um að komast í fremstu röð á heimsvísu. Og það gera þeir án þess að afla sér neinna réttinda í leiðinni – réttinda sem teljast sjálfsögð hjá öllum sem eru á hefðbundnum atvinnumarkaði.

Hrunið kom illa við marga á Íslandi og það er hart í ári. En svona hefur veruleiki íslenskra afreksmanna í íþróttum verið í áratugi og í raun er það ótrúlegt að hugsa til þess hversu margt afreksfólk Ísland hefur átt í gegnum tíðina – íþróttamenn sem hafa náð í fremstu röð á heimsvísu í ótalmörgum íþróttagreinum – og það nánast upp á eigin spýtur.

Íslenskt íþróttafólk mun aldrei fara í verkfall til að vekja máls á sínum baráttumálum. Það snýr sér einfaldlega að einhverju öðru. Það er mikilla breytinga þörf í þessum efnum. Íslenskt ríkisvald þarf að endurhugsa aðkomu sína að afreksíþróttum og gera sér grein fyrir því að Ísland er mörgum áratugum á eftir nágrannaríkjum sínum og raunar flestum vestrænum ríkjum í þessum efnum. Það er breytinga þörf og þær eru löngu orðnar tímabærar.

Við erum saman komin til að heiðra glæsileg afrek okkar afreksfólks á árinu 2014 og Samtök íþróttafréttamanna eru stolt af því að fá tækifæri til þess í kvöld. Samstarfsaðilar Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eru Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.