50 ára saga Samtaka íþróttafréttamanna

Ræða Skapta Hallgrímssonar, fyrrverandi formanns SÍ, sem flutt var á afmælishófi SÍ í nóvember 2006.

Forseti Íslands, ágætu gestir.

Allir verða að hafa í sig og á – og það eru forréttindi að hafa áhugamálið að lifibrauði.

Meðlimir Samtaka íþróttafréttamanna eru í þessari sérstöku aðstöðu. Þeir fylgjast með íþróttum alla daga og fá ekki bara frítt á völlinn heldur fá þeir borgað fyrir það! eins og það var einhvern tíma orðað við mig.

Samtökin eru að sumu leyti sérstakur félagsskapur; íþróttafréttamenn eru keppinautar, berjast alla daga um fréttir og að segja betur frá en hinir – en svo eru menn auðvitað vinir og félagar inná milli. Það er óhætt að segja að oft hafi gustað um menn í Samtökunum, sjaldan hefur verið lognmolla í starfinu enda félagarnir jafnan kraftmiklir menn og fjörugir.

Samtökin voru stofnuð á skrifstofu Halls Símonarssonar, blaðamanns á Tímanum, í Edduhúsinu. Í fundargerðarbók samtakanna segir:

„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi.

Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.

Rætt var um að fastir félagar með fullum réttindum skyldu þeir vera er skrifuðu um allar íþróttir fyrir dagblöð, íþróttablaðið og sá er flytur að staðaldri fréttir um íþróttir í útvarpi.

Ennfremur að þeir sem skrifuðu um einstakar greinar yrðu sem óreglulegir félagar. Samþykkt var að fela Atla Steinarssyni að semja og gera tillögur um lög fyrir félagið og leggja þar fyrir næsta fund félagsins.

Þá var ákveðið að kjósa formann og ritara fyrir félagið, og hlutu þessir kosningu: Atli Steinarsson formaður og Frímann Helgason ritari.

Fleiri ekki gert. – Frímann Helgason.“

Strax á næsta fundi, sem einnig var á skrifstofu Halls í Edduhúsinu, lagði Atli fram tillögur um lög félagsins og eftir nokkrar umræður voru þær samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Segja má að tvennt hafi staðið upp úr í starfi samtakanna í upphafi, og geri raunar enn og hafi allt tíð gert – barátta fyrir bættri vinnuaðstöðu íþróttafréttamanna og kjör íþróttamanns ársins.

Aðstaða til vinnu á vettvangi var víða bágborin fyrstu árin og var reyndar enn þegar ég kom inn í samtökin snemma á níunda áratug síðustu aldar. En nú hefur það sem betur fer breyst mjög til batnaðar eftir því sem mér sýnist. Alls staðar þykir orðið sjálfsagt að gera ráð fyrir starfsaðstöðu blaðamanna þegar völlur eða hús eru hönnuð.

Það var um miðja öldina sem íslensku dagblöðin fóru að fjalla um íþróttir að einhverju ráði, og sérstakir blaðamenn sem skrifuðu þær. Samkvæmt því sem Atli hefur sagt mér var í raun ákveðið að stofna Samtök íþróttafréttamanna árið 1955. Það ár kom 20 manna hópur norrænna sundmanna til Íslands og það fór auðvitað ekki framhjá Atla enda ólympíufari sjálfur í bringusundi.

Með norræna hópnum var ritstjóri danska Íþróttablaðsins sem Politiken gaf út, Carl Ættrup, en hann var líka formaður Samaka íþróttafréttamanna í Danmörku. Í bréfi sem hann sendi Atla við heimkomuna þakkaði Ættrup kærlega fyri móttökurnar og bauð Atla jafnframt á norrænt þing íþróttafréttamanna – sem þá var haldið í annað sinn – í Sönneborg í Danmörku. Þeir fóru þangað, Atli og vinur hans Sigurður Sigurðsson af útvarpinu, og þá, eins og jafnan síðan, greiddu ferðalangarnir farseðilinn sjálfir en mótshaldarar sáu um allan annan kostnað.

Síðan þá hafa íslenskir íþróttafréttamenn tekið virkan þátt í norrænu samstarfi, og slík þing verið haldin reglulega hér heima, og fulltrúar samtakanna hafa líka í mörg ár tekið þátt í þingum alþjóðlegra samtaka íþróttafréttamanna.

Það var strax eftir þingið í Sönneborg sem þeir Atli ákváðu að stofna samtökin og hugmyndin varð að veruleika 14. febrúar árið eftir, en það var síðar sama ár sem Vilhjálmur Einarsson hlaut silfurverðlaunin í Melbourne og hlaut fyrstur titilinn Íþróttamaður ársins.

Í fyrstu, og reyndar áratugum saman eftir það, skilaði hver fjölmiðill einum atkvæðaseðli í kjöri íþróttamanns ársins.

Á þeim árum fjallaði einungis einn starfsmaður á hverum fjölmiði um íþróttir, það breyttist þegar frá leið en það var samt ekki fyrr en löngu seinni að hver og einn meðlimur SÍ skilaði inn eigin atkvæðaseðli. Ég sé í gamalli fundargerð að Steinar J. Lúðvíksson lagði til á aðalfundi 1974 að lögum yrði breytt á þann veg að eitt atkvæði fylgdi hverjum aðalfélaga en ekki hverjum fjölmiðli – framsýnn maður, Steinar – en það það var ekki fyrr en nokkru eftir við ungu mennirnir, ég, Samúel Örn og fleiri tókum völdin í samtökunum um miðjan níunda áratuginn að hver aðalfélagi í Samtökum íþróttafréttamönnum setti saman sinn eigin lista.

Það var á þessum sama fundi, 1974, sem samþykkt var eftir miklar umræður tillaga um breytingu á lögum samtakanna á þá lund að heimilt yrði að fella niður kjör íþróttamanns ársins – ef ástæða þætti til. Ég er ekki viss um hvenær þessu var breytt aftur, en þessi klausa var altjent ekki fyrir hendi í lögum eða reglugerðum þegar ég hóf störf sem íþróttafréttamaður fyrir aldarfjórðungi.

Raddir voru uppi um það nokkrum misserum áður að sleppa kjörinu eitt árið vegna lélegra afreka. Í fundargerðarbók samtakanna segir: “Vildu sumir afhenda Sundsambandi Íslands verðlaunastyttuna til varðveislu, vegna frábærs sigurs Íslendinga í norrænu sundkeppninni. Athugun leiddi í ljós að þetta var ekki framkvæmanlegt vegna laga félagsins og var þá ákveðið að haga kjöri eins og venjulega.”

Þeir sem tóku þátt í fyrsta kjöri íþróttamanns ársins, 1956, voru sjö eftir því sem Atli Steinarsson segir mér: Stofnfélagarnir fjórir; hann sjálfur af Mogganum, Frímann Helgason Þjóðviljanum, Hallur Símonarson á Tímanum og Sigurður Sigurðsson af útvarpinu, en líka Thorolf Smith Vísi, Brynjólfur Ingólfsson Íþróttablaðinu, og Örn Eiðsson á Alþýðublaðinu.

Það var auðvitað afrek út af fyrir sig að stofna samtökin á sínum tíma en ekki minna afrek að útvega styttuna okkar glæsilegu sem nafnbótinni hefur fylgt alla tíð. Árni eldri Árnason hafði þá nýlega stofnað heildsöluna Austurbakka, hann útvegaði þeim Atla myndabækling sem þeir völdu eftir og það tók óratíma og var dýrt að koma henni til landsins. En það tókst.

Starf íþróttafréttamannsins hefur í sjálfu sér ekki breyst mjög mikið í gegnum tíðina; að vísu er fjallað um fleiri greinar en áður, en blaðamaðurinn segir fréttir sem fyrr, lýsir atburðum og skrifar leikdóma.

Það sem mest hefur breyst er tæknin.

Ég byrjaði á því að skrifa á ritvél á Mogganum sumarið 1982. Fyrir þá yngri er rétt að taka fram að ritvél er eins og tölva nema það var enginn skjár á ritvélinni heldur tróð maður pappírsblaði inn í tækið og stafirnir komu á blaðið! Á íþróttadeild Moggans var reyndar ein tölva og þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég kom við slíkt tæki. Tveimur dögum eftir að ég kom suður til starfa var ég sendur á unglingalandsleik Íslands og Danmerkur í Laugardalnum, setttist svo við tölvuna og skrifaði um leikinn – og ýtti á takka, þegar ég var búinn, til þess að senda greinina áfram í kerfinu. En ég ýtti auðvitað á vitlausan takka og textinn týndist. Skrifaði því tvisvar um fyrsta leikinn, en ég býst við að umsögnin hafi eitthvað lagast við það!

Yngri mönnum í stéttinni þykir kannski fyndið að ég hafi skrifað á ritvél.

Það þykir líklegra enn fyndnara að það eru ekki nema ellefu ár síðan íþróttafréttamaður frá Morgunblaðinu fór í fyrsta skipti til útlanda með farsíma! Ellefu ár! Það var 1995.

Valtýr Björn notaði fyrstur farsíma í stéttinni; allir muna eftir símanum hans sem var eins og ferðataska að stærð, en sá sem ég fór með var nánast eins og þeir sem við notum í dag. En þetta þótti svo merkilegt að einn fréttastjóra Morgunblaðsins hringdi í mig – ég var sem sagt sá sem fór með símann til útlanda, og var við störf á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum í Gautaborg – og hann sagðist bara hafa orðið að prófa að hringja. Ég var í sporvagni einhvers staðar í miðri Gautaborg þegar ég svaraði í símann og honum fannst þetta alveg stórkostlegt!

Má ég fara með ykkur enn lengra aftur í tímann? Atli Steinarsson sagði mér að þegar fyrsta kynslóð íslenskra íþróttafréttamanna fór til útlanda var talsambandið aðeins opið í hálftíma á dag síðdegis og það þótti allt of dýrt til að nota það. Þá sendi hann gjarnan um það bil 200 orð í skeyti um kappleik eða frjálsíþróttamót, það allra helsta, til birtingar í blaðinu daginn eftir en skrifaði svo grein sem reynt var að koma heim til Íslands með flugvél daginn eftir. Greinin birtist svo jafnvel tveimur til þremur dögum seinna, en var samt lesin upp til agna, vegna þess að þetta var fyrsta umfjöllunin sem fólk hafði kost á.

Samtök íþróttafréttamanna eru flottur félagsskapur! Við – ég segi við, vegna þess að mér finnst ég alltaf tilheyra þessum félagsskap þrátt fyrir allt – við stöndum fyrir stærsta viðburði íþróttaársins hér á landi hverju sinni. Sá atburður þróast eins og annað; þegar ég byrjaði í stéttinni var það kaffisamsæti, síðar var boðið til hádegisverðar, fyrir allmörgum árum var farið að sýna kjörið í beinni útsendingu í sjónvarpinu og einhvern tíma á meðan ég var formaður Samtaka íþróttafréttamanna tókum við upp samstarf við ÍSÍ þannig að kjöri íþróttamanns sérsambandanna var lýst í sömu veislunni, en aðalmálið var auðvitað og verður alltaf kjörið okkur. Sá viðburðurinn hefur aldrei verið glæsilegri en um þessar mundir og ég vona að hann haldi sínum sessi um ókomin ár.

Að lokum óska ég Samtökum íþróttafréttamanna velfarnaðar um ókomin ár. Gangi ykkur vel!