Sami fjöldi í Rio 2016
Gert er ráð fyrir sama fjölda íslenskra fjölmiðlamanna á Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu eftir þrjú ár, og í London í fyrra. Þar sem Íslendingar hafa fengið svo fáa aðgangspassa sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að þeim verði fækkað þrátt fyrir mikla ásókn um allan heim.
Fyrir um áratug stóð til að Alþjóða Ólympíunefndin (IOC) myndi fækka íslenskum íþróttafréttamönnum og ljósmyndurum á sumarólympíuleikum um helming. Ástæðurnar voru margar umsóknir manna um allan heim um fjölmiðlaaðgang og að íslenskir fjölmiðlamenn hafa ekki sóst eftir pössum á vetrarólympíuleika. Sem betur fer gengu þessar niðurskurðarhugmyndir ekki eftir, enda hefur Ísland aðeins átt rétt á því að senda tvo íþróttafréttamenn og tvo ljósmyndara á síðustu sumarólympíuleika. Inn í þessu er þó ekki fjöldi starfsmanna sjónvarpsrétthafa sem hefur alltaf verið öruggur með 4-6 passa og verður áfram.
Ástralinn Anthony Edgar hefur um skeið verið yfirmaður fjölmiðlamála hjá IOC og með aðsetur í Lausanne í Sviss. Ritari stjórnar SÍ sat fyrirlestur hjá Edgar og spurði hann um hvort einhver hætta væri á að sama mál kæmi aftur upp á næstu árum. „Nei, Íslendingar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur, af því þið eruð með svo fá fjölmiðlapláss á Ólympíuleikum. Við fækkum ekki þeim sem eru fáir fyrir, til að fjölga fréttamönnum frá stærri þjóðum. Það er alveg öruggt,“ sagði Anthony Edgar um málið. Það er því nokkuð ljóst að sami fjöldi íslenskra fjölmiðlamanna fær aðgang að Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu 2016 og var í London í fyrra. Edgar vildi þó ekki svara því hvort möguleiki væri á því að fjölga íslenskum blaðamönnum með aðgang að næstu sumarólympíuleikum, en sagði það þó ólíklegt.
Hinn skjárinn jafn mikilvægur
Fram kom í máli Anthony Edgar á fyrirlestrinum að af þeim fjölmörgu sem leituðu frétta frá Ólympíuleikunum í London í fyrra notuðust 60% neytenda við snjallsíma. Engar opinberar tölur eru til frá leikunum í Peking 2008 en Edgar giskar á að sú tala hafi verið vel undir 5%.
„Það er alveg á hreinu að fjölmiðlun er í sífelldri þróun. Við tókum vel eftir því á Ólympíuleikunum í London að þó flestir hafi fylgst með leikunum í sjónvarpi hafi stór hluti þeirra líka notað ,,hinn skjáinn, sem sagt með kveikt á tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma og skoðað fréttir eða efni frá leikunum á sama tíma. Hinn skjárinn (e. Second screen) verður sífellt stærri hluti af beinum sjónvarpsútsendingum,“ sagði Edgar í fyrirlestri sem hann hélt á námskeiði ungra íþróttafréttamanna á vegum AIPS í Sviss.
Hugsað út fyrir kassann
Sjónvarpsréttur og réttur á netsýningum frá Ólympíuleikum er gríðarlega eftirsóknarverður að kaupa, en um leið afar dýr. Með því að fá sýningaréttinn fær viðkomandi fjölmiðill þó um leið einkarétt á beinum útsendingum og að nota myndefnið við gerð innslaga. „En þrátt fyrir að NBC með sinn mikla fjölda starfsmanna í London í fyrra hafi átt allan sýningarétt í Bandaríkjunum var mun meiri umferð um Ólympíuvef Yahoo en um vef NBC. Þó starfsmenn Yahoo á ÓL í London hafi aðeins verið 23 voru starfsmenn fyrirtækisins duglegir að hugsa út fyrir kassann,“ sagði Edgar.
Sem dæmi nefndi Edgar hvernig NY Times matreiddi umfjöllun um úrslit 100 metra hlaupsins á Ólympíuleikunum í fyrra. Þó NY Times hafi ekki mátt nota neinar lifandi myndir vegna réttindamála var farið í mikla grafíkvinnu sem leiddi af sér eina af mest lesnu netfrétt Ólympíuleikanna í fyrra um allan heim. Þetta er skýrt dæmi um hvernig íþróttafréttamenn í dag þurfa að hugsa til að vekja athygli lesenda/áhorfenda.
Samfélagsmiðlar uppruni sífellt fleiri frétta
„Uppruni um helmings þeirra frétta sem við sögðum frá á ÓL 2012 í London var frá samfélagsmiðlum,“ var haft eftir Richard Burgess íþróttaumfjöllunar BBC, eftir leikana í fyrra. Dæmi um þetta var að starfsmenn BBC kveiktu ekki á því fyrr en þeir sáu á Twitter að þjóðfáni Suður-Kóreu hafi verið sýndur í stað Norður-Kóreu fyrir knattspyrnuleik kvennalandsliða Norður-Kóreu og Kolumbíu á Hampden Park í Skotlandi á Ólympíuleikunum í fyrra.
Í Peking 2008 voru 100 milljónir notenda sem deildu fréttum á Facebook samanborið við 900 milljónir í London 2012. Hvað Twitter varðar þá deildu 6 milljónir notenda fréttum frá ÓL 2008 en 140 milljónir frá ÓL 2012.
Flestir sem notast við hinn skjáinn meðan horft er á beinar sjónvarpsútsendingar eru með samfélagsmiðil opinn fyrir framan sig. „Það er mikilvægt að mótshaldarar í íþróttum séu meðvitaðir um hversu samfélagsmiðlar eru orðnir stór þáttur í fjölmiðlun. Það stóð til að banna fólki á einhverju PGA golfmóti í Bandaríkjunum í vor að tjá sig um mótið á samfélagsmiðlum og setja inn myndir. Það hefði bara alls ekki gengið upp, auk þess sem umfjöllun fjölmiðla og áhugi almennings minnkar ef útiloka ætti samfélagsmiðla,“ sagði Anthony Edgar.

Íþróttamaður ársins
Hlekkir
Samtök íþróttafréttamanna
„Þann 14. febrúar 1956 komu þeir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson saman til fundar í þeim tilgangi að stofna félag með sér er miði að því að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi. Urðu allir sammála um að stofna þetta félag nú þegar.“
- úr ræðu Skapta Hallgrímssonar á 50 ára afmæli samtakanna.
Myndasafn
Vefstjórn




