Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) hafa gert með sér samkomulag um útgáfu fjölmiðlaskírteina fyrir knattspyrnutímabilið 2014.

Útgáfa skírteinanna verður áfram í höndum KSÍ en SÍ mun taka á móti umsóknum fjölmiðla um skírteini og veita þeim faglega umsögn.

Samtök íþróttafréttamanna voru stofnuð árið 1956 í þeim tilgangi að vinna að bættum hag íþróttafréttamanna. Er það bundið í lög SÍ að samtökin skuli vinna að bættri aðstöðu félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, auk þess að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum.

Það er trú stjórnar SÍ að samstarf þetta muni efla hag allra þeirra sem starfa við að fjalla um knattspyrnu hér á landi, hvort sem þeir eru félagsmenn í SÍ eða standa utan samtakanna. Með auknu samstarfi SÍ við KSÍ er fyrir vikið auðveldara að vinna að hverjum þeim úrbótum á aðstöðu íþróttafréttamanna á leikstað sem nauðsynlegar þykja.

Eingöngu handhafar fjölmiðlaskírteina fá aðgang að aðstöðu fjölmiðlamanna á leikstað og mun SÍ hafa eftirlit með því að skírteinin séu notuð á viðeigandi hátt á meðan leiktíðinni stendur. Aðeins þeir sem sannarlega fjalla um knattspyrnu í íslenskum fjölmiðlum eiga þess kost að fá fjölmiðlaskírteini.

Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í SÍ til að sækja um fjölmiðlaskírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn í fullu starfi. Með nýju fyrirkomulagi myndast nú enn sterkari tengsl SÍ við íþróttafréttamenn í aukastarfi sem er mikið fagnaðarefni að mati stjórnar SÍ og býður upp á eflingu þess samstarfs enn frekar.